20.02.1946
Neðri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (3684)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég held, að ég verði að gleðja hv. þm. Borgf. með því að láta hann nú að lokum heyra vitnisburð frá fiskifræðingnum um þetta sérstaka mál, ef horfið væri að þessu ráði að friða Faxaflóa nú, sem hann hefur gefið út í bréfi, dags. 14. október, og segir þar m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta. (Hann er búinn áður að lýsa, hvaða togarafjöldi hefur verið þarna að meðaltali) :

„Þar sem gera má ráð fyrir, að sækja muni í sama horfið, áður en langt líður,“ — þ. e. a. s., að útlendum togurum fjölgi við veiðar á þessu svæði — „hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu, að sá hagnaður sem næðist nú og í framtíðinni með því að banna íslenzkum skipum veiði með dragnót og botnvörpu í Faxaflóa, mundi langt frá því vega upp það tjón, sem íslenzk útgerð yrði fyrir með því að missa af veiðum á þessu svæði.“

Enn fremur segir hann, að gæta verði þess, að aðrar þjóðir skilji, að Íslendingar einir geti ekki tekið á sig þær byrðar. Aðrir yrðu að bera þær líka, ef þessu marki ætti að ná.

Að því er svo snertir togaraeigendafélagið og þess umsögn, þá kemur ljóslega fram í bréfi þess, að þeir eru fylgjandi friðun Faxaflóa, ef hún er alger friðun. Hins vegar telja þeir ekki heppilegt — og það getur maður ekki heldur láð þeim, — að friðunin nái eingöngu til íslenzkra skipa, án þess að nokkur trygging að fyrir því, að aðrar þjóðir feti í sömu fótspor. Ég held, satt að segja, með allri virðingu fyrir stjórn Fiskifélagsins, að ýmsir þeirra manna, sem standa að togaraútgerð hér, hafi alveg eins opin augu fyrir því, eða a. m. k. hafi aðstöðu til að hafa fyrir því opin augu, að verndun fiskistofnsins er líka þýðingarmikið atriði fyrir botnvörpuveiðarnar. Við, sem sannfærðir erum um þetta, t. d. fyrst og fremst hv. flm. þessa máls og ég og svo aðrir fleiri, getum ekki ímyndað okkur, að eigendur togaraflotans séu alveg blindaðir fyrir þessari staðreynd. Það er staðreynd, sem er viðurkennd af öllum, að verndun fiskistofnsins sé undirstaða undir framtíðarveiðunum, og í því efni er ekki neinn ágreiningur. Ágreiningurinn er bara um það, hvort þingið eigi nú að fara eftir þessari ráðleggingu hv. flm. þessa frv. Sjútvn. þessarar d. getur ekki fallizt á það. Sjómennirnir í Keflavík geta fallizt á það, að því tilskildu, að friðunin verði alger, líka gagnvart útlendingum. Sjómennirnir á Akranesi aðhyllast skoðun hv. þm. Borgf., eins og hún er. Niðurstaðan verður því sú, að það eru skiptar skoðanir á þessu máli. En ég hef bent á, að fyrst og fremst er óvíst, hvaða árangur af þessu næðist, sem farið er fram á í þessu frv., á útlendum vettvangi. En það, sem víst er, ef þetta frv. væri samþ. sem lög, er það, að Íslendingar yrðu burt hraktir af þessum miðum, en útlendingar gætu fiskað þar eftir sem áður eftir vild. Og við höfum ekki sterkari tök í sambandi við algerða friðun Faxaflóa gagnvart útlendingum, að mínum dómi, þó fallizt væri á till. hv. þ.m. Borgf.