18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

16. mál, fjárlög 1946

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi minnast hér nokkrum orðum á þær brtt., sem ég er 1. flm. að, og nokkrar aðrar.

Á þskj. 362 á ég brtt. ásamt hv. 1. þm. Árn. (JörB) undir XVI, sem er að vísu ekki sams konar, en svipuð till., sem ég flutti við fyrri umr. þessa máls. Er hún varðandi söngnám Önnu Þórhallsdóttur frá Hornafirði, sem nú dvelur vestanhafs við slíkt nám. Ég hef hér hin ágætustu meðmæli með þessari umsókn frá dr. Páli Ísólfssyni, og að öðru leyti ætla ég, að flestir kannist við söng þessarar stúlku, því að hún hefur sungið allmikið í útvarpið hér, áður en hún fór vestur. Þessi brtt. er að vísu í tvennu lagi, aðaltill. um 8500 kr. og varatill. 6500 kr., og sýnist vera stillt svo í hóf, að ef á að styrkja hana þarna til náms, megi varla vera um minna að ræða en það, sem hér er lagt til. Hins vegar er það ekkert nýmæli, að bæði karlar og konur séu styrkt til slíks náms, og ætla ég því, að með tilliti til verðleika ungfrúarinnar verði litið á þetta með sanngirni, og þar eð hún hefur nú í bili fórnað atvinnu sinni til þess að fara út á þessa braut, og til þess hvött af mörgum velunnurum sínum, sem unna góðri sönglist. Mun hún vera mjög efnileg í þeirri grein eftir meðmælum Páls Ísólfssonar.

Á sama þskj., XX. lið, leyfi ég mér að flytja till. um sjóvinnuskóla í Vestmannaeyjum, sem flutt var við fyrri umr. málsins, en þá tekin aftur. Þess háttar menntastofnun fyrir þá, sem aðallega draga björg í bú, hefur verið starfrækt nú um nokkur ár. Var byrjað í smáum stíl, en hefur sífellt færzt í aukana, enda nytsamt fyrirtæki að kenna mönnum rétt vinnubrögð á sjó. Hér er farið fram á 50000 kr. fjárveitingu í þessu skyni gegn jafnmiklu framlagi frá Vestmannaeyjakaupstað. Veit ég, að bæjarsjóðurinn hefur þegar veitt þessa fjárhæð og hefur staðið undir rekstri skólans án þess að fara fram á utanaðkomandi styrk í þessu skyni. Hins vegar mælir öll sanngirni með því, þegar skólahaldið er orðið umfangsmeira og kostnaðarsamara, að ríkið standi að nokkru leyti undir því að kosta þetta mjög svo nytsama nám sjómanna.

Eins og kunnugt er, reis allmikil óánægja út af því, þegar þetta mál var afgr. við 2. umr., að ýmsir þeir, sem hafa hafnarmálum að sinna í sínu kjördæmi, þóttust ekki of vel haldnir af meðferð hv. fjvn. á fjárveitingum til hafna. Þá minntist ég á það sérstaklega, að mér fyndist Skagastrandarhöfn og Vestmannaeyjahöfn vera illa settar. Fjárveiting til Vestmannaeyjahafnar var eftir till. hv. fjvn. lækkuð úr kr. 300000 kr., sem hún hafði á síðustu fjárl., niður í 200000 kr. Ég sá ekki, að nein skynsamleg rök lægju fyrir þessari lækkun, og hef síðan aflað mér upplýsinga um, að svo er ekki, heldur þvert á móti, því að það er fjarri því, að nokkuð eigi að draga úr vinnu til byggingar þessarar hafnar, og stendur til að efla mjög þær framkvæmdir. Ég hef að vísu orðið þess var, að við hina aukalegu niðurskiptingu hv. fjvn. varðandi hafnir, leggur hún til, að heimilt sé að taka lán auk framlags úr hafnarbótasjóði, og skiptir hún því á nál, niður á vissar hafnir. Hef ég heyrt sagt, að eitthvað hafi nú verið bókað frekara í fundargerðum hv. fjvn. viðvíkjandi skiptingu þessa fjár, en fyrir þá, sem lenda svo að segja í veikasta „tillögupartíinu“ hjá hv. n., er það lítt viðunandi. Í raun réttri hefur hv. fjvn. skipt höfnunum í 3 flokka eftir því, sem áhugi hennar fyrir hafnarframkvæmdum hefur virzt vera á hverjum stað. Í fyrsta flokki eru teknar upp myndarlegar beinar fjárveitingar. Þar næst eru hafnir, sem auk þess eru teknar upp í hinar aukalegu fjárveitingar hv. n., sem hún á nál. lagði til, en lagði ekki í einstökum atriðum undir atkv. þingheims. Loks er þriðji flokkurinn, sem að því er mér skilst á vonarpeninga í einhverjum bókunum hv. fjvn., sem hún hefur þó ekki látið á þrykk út ganga. Ég fyrir mitt leyti kann því illa, að höfn eins og Vestmannaeyjahöfn, sem hefur nú stóran hundraðshluta í útfluttum vörum og mikla útgerð, að með hana sé ekki farið á svipaðan hátt eins og þær hafnir, t. d. Faxaflóahafnir; sem hv. n. virðist hafa lagt sig mjög í líma við að „hífa“ upp, ef svo mætti að orði kveða. Hef ég nýlega talað við þau yfirvöld, sem í þessu máli koma til greina í Vestmannaeyjum, og spurt þau að því, hvort þau hafi gefið tilefni til þess, að minnkað væri framlag til hafnarinnar, og var svarið þvert á móti eins og vænta mátti. Er því full ástæða til að mælast til þess, að hæstv. Alþ. setji þessa höfn ekki neðar nú frekar en endranær, heldur láti haldast til hennar sams konar fjárveitingu eins og er í núgildandi fjárl., og þegar þess er gætt, að hv. n. hefur ætlað sumum höfnum þrefaldar fjárveitingar á móts við það, sem ég fer fram á með brtt. minni í þessu skyni.

Hins vegar má segja, þó með öðrum forsendum, um Skagaströnd, að það hefur ekki getað dulizt hv. fjvn., hvaða fyrirætlanir þar er um að ræða, því að það hefur vakið almenna eftirtekt, enda nýmæli mikið hér í þessu þjóðfélagi, að gerðar séu svo öflugar ráðstafanir til þess að gera fiskihöfn á komandi tímum eins og stendur til á Skagaströnd. Ég verð því að segja það, að mig rak í rogastanz á því tillitsleysi til stefnu núv. hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, er kom fram í till. hv. n. varðandi Skagaströnd við 2. umr. þessa máls. Nú megum við allir vera þess fullvissir, að því aðeins komi að haldi þau hin miklu mannvirki, sem Síldarverksmiðjur ríkisins hafa lagt út í á þessum stað, að ekki standi á aðbúnaði fyrir bátaflotann, hvað höfn snertir. Miklu fremur mundi það geta heitið rétt aðferð, að einna mest áherzla væri lögð á hafnarmannvirki, jafnvel áður en verksmiðjubyggingar rísa af grunni, og þess vegna tel ég, að hér hafi ekki verið stigið spor í rétta átt af hv. fjvn. Ber því hinu háa Alþ. að kippa í liðinn hvað snertir stefnu n. viðvíkjandi Skagaströnd og gera hlut hennar a. m. k. svo sem lagt er til með brtt. okkar hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) á þskj. 363,XII, en þar er lagt til, að til Skagastrandarhafnar verði veittar 200 þús. kr. og til Vestmannaeyjahafnar 100 þús. kr.

Á þskj. 366,XVI hef ég leyft mér ásamt 4 öðrum hv. þm. að gera till. um það, að heimild verði fyrir hendi fyrir ríkisstj. að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 8 millj. kr. lán til sveitarog bæjarfélaga vegna kaupa á atvinnutækjum. Áður en þessi till. var lögð fram, var komin hér og prentuð till. frá hæstv. dómsmrh. o. fl. um það að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir einn kaupstað á landinu allt að 3 millj. kr. til kaupa á atvinnutækjum, og raunar gæti sú ábyrgð, eftir því sem till. er orðuð, náð til fleira en sjálfra atvinnutækjanna. Ég skal játa það, að till. sú, sem við flytjum hér, hefur fyrir aðalmarkmið að stuðla að því, að bæjar- eða sveitarfélög utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar geti notið einhvers stuðnings af hálfu þess opinbera á þann hátt, sem greinir í till., sérstaklega til þess að eignast togara. Það er kunnugt, að ríkið hefur fest kaup á 30 togurum, og að þessir togarar hafa verið boðnir út þeim, sem þá vilja kaupa með vissum skilyrðum. Það er enn fremur kunnugt, að Reykjavíkurbær leggur mikla áherzlu á, að 20 af þessum togurum verði staðsettir í Reykjavík og að einstaklingar og félög í Hafnarfirði hafa sótt um 5 af þessum skipum, en víðs vegar utan af landi, utan þessara tveggja áðurnefndu staða, hafa borizt umsóknir um a. m. k. 14 skip. Nú er það víst, að efnaleg aðstaða þeirra, sem eiga heima utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, til þess að eignast þessi skip er yfirleitt allt önnur en togaraeigenda í Reykjavík og Hafnarfirði, þar eð hinn svokallaði stríðsgróði hefur að því er togaraútgerðina snertir að langmestu leyti fallið í skaut félaga og einstaklinga, sem búsettir eru á þessum tveim stöðum. Hlýtur maður um leið að viðurkenna það, að það er eðlileg ósk fólksins utan þessara tveggja staða, þar sem hafnarskilyrði og önnur skilyrði eru góð til þess að reka togaraútgerð, að eitthvað af þessum skipum sé staðsett þar. Það virðist samhljóða ætlun manna, að veita verði fleiri en einum stað á landinu aðstoð til þess að þar geti búið fólk. Sú aðstoð verður að vera í ríkum mæli á einn eða annan veg. Koma þar til greina bæði einstaklingar og aðrir, sem sótt hafa um skip eða aðra aðstoð. Við, sem stöndum að þessari till., búumst við, að hjálpa verði ýmsum stöðum utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, eða þar sem sjóðir hafa myndazt á stríðsárunum. Þeir sjóðir ættu nú að geta staðið undir skipakaupum eða öðrum framkvæmdum í framtíðinni. Þetta er ástæðan til þess, að við komum fram með þessa brtt. Sumir hafa æskt þess mjög, að nokkuð af hinum nýju skipum, sem út á land fara, yrðu sumpart eign félaga eða bæjar- og sveitarfélaganna sjálfra. Það hefur með réttu oft verið á það bent, hver hætta stafaði af því, ef allur landslýður settist saman hér í Reykjavík eða nærliggjandi plássum. En meðulin gegn því, að firðirnir og landsbyggðin eyðist, er það, að minni hyggju, að skapa fólkinu þar eins góð vinnu- og framfaraskilyrði og tök eru á, og að þau lífsskilyrði séu ekki síðri en það fólk á við að búa, sem hingað hefur leitað.

Á þskj. 371 hef ég eftir ósk frá Leikfélagi Vestmannaeyja farið fram á, að styrkur til þess félags verði hækkaður upp í 3000 kr. Þetta félag er nú 35 ára, og hefur það ráðizt í stærri verkefni en ætla mætti, að félag í ekki stærra bæjarfélagi réðist í. Vildi ég mega vænta þess, að því verði veitt þessi viðurkenning.

Önnur brtt. á sama þskj. (371), sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Reykv., er um það, að til tóvinnuskóla Halldóru Bjarnadóttur á Svalbarðseyri við Eyjafjörð verði veittar 40000 kr. og til vara 30000 kr. Þessi kona, sem ég ætla, að vera muni einhver sú þekktasta af þeim, sem áhuga hafa á ullariðnaði og vefnaði, sneri sér til nýbyggingarráðs í sumar með málaleitun um, að nýbyggingarráð legði gott inn fyrir því, að hún fengi einhvern styrk til tóvinnuskóla, sem hún hygðist stofna að Svalbarðseyri við Eyjafjörð. Sendi hún ágæta greinargerð. Verkefni það, sem skólanum er ætlað, er hvers konar ullariðnaður. Þá kveður hún svo að orði, að nú byðist góður staður norðanlands, sem er Svalbarðseyri. Þar eru húsakynni allmikil síðan á dögum Björns heitins Líndals. Núverandi ábúandi notar húsnæðið ekki nema að nokkru leyti, og getur hún fengið húsnæðið við mjög vægu verði eða kr. 200.00 á mánuði. Raforku frá Laxárfossum verður veitt til Svalbarðseyrar á næsta hausti, og verður hún notuð bæði til ljósa og suðu. Undirbúningur að þeirri leiðslu er þegar hafinn. Vatnsveita og frárennsli er hvort tveggja í góðu lagi, og yfirleitt er myndarbragur á öllu. Þá sendir hún kostnaðar- og rekstraráætlun yfir eins árs rekstur. Virðist kostnaður vera um 50 þús. Stofnkostnaður er talsverður: innanstokksmunir, borðbúnaður og önnur áhöld: Þá minnist fröken Halldóra á, að þegar hún átti sjötugsafmæli, hafi sér verið gefnar 12 þús. kr. Þessa gjöf kveður hún sig fúsa til að leggja fram til skólans.

Ég hef nú rakið þetta mál allrækilega, og er það af nokkuð sérstöku tilefni. Mér hefur verið tjáð, að máli þessu hafi verið tekið á nokkuð sérstakan hátt í fjvn. Það hafi vakið hlátur mikinn og kátínu meðal nm., og af því að hlátur er hollur, þá er vel farið, að n. sé svo glaðsinna sem mér er tjáð, og er þá og þess að vænta, að hún verði þm. ekki til annars en gleði og þeir taki máli þessu vel. Annars get ég ekki séð, að annað en gott sé um það að segja, þar sem það er þessi kona, sem sótt hefur um styrk til kennslu í tóvinnu og slíku. Ég hef verið nokkuð lengi hér og oft heyrt minnzt á Halldóru Bjarnadóttur og aldrei nema með mikilli virðingu. Þegar hún sneri sér til nýbyggingarráðs, hefðum við kannske getað sagt, að þetta málefni heyrði ekki undir ráðið, en ef aðeins ætti að anza því, sem beinlínis heyrir undir það, væri mörgu ósvarað. En okkur virtist einsætt að taka undir málaleitun þessa, þar sem Halldóra Bjarnadóttir vill halda áfram þessum störfum, þótt farin sé nokkuð að eldast. Hins vegar er svo nafn hennar, en það tryggir nytsemi þessarar nýjungar, sem hún berst fyrir. Það vita allir, hvað liggur eftir þessa konu. Hún segir sjálf í bréfi sínu:

„Ég hef haft sýningar til og frá um öll Norðurlönd, í Englandi (London) og á 50 stöðum hjá löndum vestanhafs og í þarlendum skólum. Alls staðar hefur verið lokið lofsorði á íslenzku listvinnuna úr ullinni. Ég hef fengið hvatningu frá mörgum mönnum hér á landi, körlum jafnt sem konum, um að ráðast í þessa skólastofnun og leita aðstoðar stjórnarvalda að koma henni í framkvæmd.

Ég er þess fullviss, að stofnun þessi kemst upp, áður langt um líður, þó að ekki yrði af framkvæmdum að þessu sinni, því að þeir, sem þessum málum unna, hljóta að sjá, að svo búið má ekki standa, ef hinn ágæti íslenzki listtóskapur á ekki að týnast. En það er nokkur hætta að draga þetta mál á langinn, með því að fleiri og fleiri heltast úr lestinni, sem kunna hin ýmsu handbrögð, sem eru sérstök fyrir okkur Íslendinga. Þá er það og sérstakt nauðsynjamál að kynna mönnum og kenna að nota þau áhöld og verkfæri, sem létta og flýta fyrir ullarvinnu heimilanna.

Persónulega langar mig til að mega taka þátt í að hrinda þessum skóla af stað. Ég hef unnið að heimilisiðnaðarmálum nú í 20–30 ár og gefið út ársritið „Hlín“ í 28 ár á eigin kostnað, en það fjallar mikið um heimaiðnað og er mjög útbreitt.

Ég geri ráð fyrir, að krafizt verði við stofnun þessa skóla eins og annarra, sem ríkið styrkir, að fé sé lagt fram á móti ríkisstyrknum. Það er réttmætt og eðlilegt. Enn sem komið er, er ekki neitt fé framlagt í þessu skyni, því að hugmyndin er tiltölulega ný. En ég geri ráð fyrir, að hægt verði að afla henni fylgis, ef áherzla verður á það lögð og áhugi virðist vera fyrir málinu á æðri stöðum. Ég vil leggja fram sem minn skerf til þessa skólahalds það fé, sem mér barst sem gjöf frá hinum ýmsu félögum og félagasamböndum kvenna í landinu á sjötugsafmæli mínu fyrir ári síðan, 12 þús. kr., og ekki þætti mér ólíklegt, að mér tækist að safna öðru eins þessu máli til framgangs um land allt. Að mínu áliti mundi þessi skóli nægja fyrir landið í heild að svo stöddu.“

Okkur í nýbyggingarráði skildist, að kennslu mundi verða hagað á þann veg, að stúlkur, sem þarna lærðu, kenndu aftur öðrum. Áður en við gerðum nokkuð í þessu máli snerum við okkur til Kvenfélagasambands Íslands og báðum um álit þess, og barst þaðan svohljóðandi svar 19. sept. :

„Þér hafið með bréfi dags. 6. þ. m. sent oss erindi frú Halldóru Bjarnadóttur á Akureyri um stofnun tóskaparskóla og jafnframt óskað, að K. Í. léti í ljós álit sitt á málinu. Er þá fyrst á að minnast, að á landsþingi K.Í. 1943 bar frú Halldóra Bjarnadóttir mál þetta fram án þess að binda það við ákveðinn stað, og var þá eftirfarandi samþykkt gerð:

„Landsþing K.Í. 1943 telur mjög æskilegt, að komið verði á fót sem fyrst tóskaparskóla fyrir land allt, til þess að fyrirbyggja, að hinn gamli, íslenzki ullariðnaður, er náð hefur meiri fullkomnun en nokkurs staðar annars staðar á Norðurlöndum, falli í gleymsku.“ “

Þetta virðist mér nægilegt til að sýna, að ef fjvn. hefur litið svo á, að nýbyggingarráð hafi rasað þarna fyrir ráð fram, þá höfum við kallað til ráða þann félagsskap, sem telja má vel hæfan til að dæma í þessum efnum. Ég kann ekki að benda á neinn hæfari dómara hér á landi, jafnvel ekki hv. form. fjvn. Við höfum því farið til réttra aðila. — Síðan sendi nýbyggingarráð erindi ásamt bréfi Halldóru Bjarnadóttur til ráðherra. Var málið útskýrt eins og það lá fyrir. Nýbyggingarráð ætlaði ekki að fara fram á neina ákveðna upphæð, heldur fara þess á leit, að skóli þessi væri styrktur með hæfilegri upphæð.

Ég hef viljað segja nokkuð ýtarlega sögu þessa máls vegna ummæla, sem sögð hafa verið í mín eyru um þessa virðulegu íslenzku konu, ummæla, sem mér þættu nokkuð undarleg, ef bak við þau stæðu allir meðlimir fjvn. Mér hefur virzt fjvn. líta á þetta sem hégómamál, og get ég ekki skilið þá afstöðu, þar sem um er að ræða, að önnur eins kona og Halldóra Bjarnadóttir fer út í að stofna skóla í þessum lofsverða tilgangi. Hún vill nota tækifærið, þegar hún fær hentugt húsnæði nálægt öðrum stærsta bæ landsins. Ég hef heyrt um mál þetta talað sem hégómamál, og vil ég nú gefa fjvn., sem svo vel hefur skemmt sér yfir þessu máli innan sinna eigin veggja, tækifæri til að skemmta sér hér í þingsölunum. N. hefur ekki séð ástæðu til að taka umsókn Halldóru Bjarnadóttur til greina, og getur verið, að n. hafi einhverjar fyrirætlanir í þessu efni á prjónunum.

Það munu allir sammála Halldóru Bjarnadóttur um, að þeim fer alltaf fækkandi, sem kunna til listvefnaðarins. Þeim konum fer fækkandi, sem geta kennt þessa listgrein, og Ísland á ekki margar Halldórur Bjarnadætur í þessu efni. Ef n. telur ekki allt þess konar óþarfa og skaðræði, þá vona ég, að hún taki þær staðreyndir, sem ég hef bent á, til greina. Nú fyrir nokkrum dögum var auglýst eftir nokkrum nemendum í skóla, og virðist sem áhugi Halldóru Bjarnadóttur sé ungur og vakandi. Ég vil benda þingheimi á, að það er vel þess vert að athuga, hvort ekki eigi að hjálpa þessum vísi hennar að skóla við Eyjafjörð, þessum skóla, sem hún er að stofna. Þess er að vænta, að þ. sjái sér fært að greiða atkvæði með erindi Halldóru Bjarnadóttur, sem talin hefur verið standa öllum öðrum framar í þessari iðngrein, tóskapnum og listvefnaðinum, hér á landi.