21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (3836)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja örfá orð, áður en málið fer til n., til ábendingar fyrir þingn. þá, sem fær það til athugunar.

Á fyrra ári flutti mþn. í sjávarútvegsmálum till. um landshöfn við Faxaflóa, en það frv. kom ekki til umr. í þinginu. Þannig var til komin þessi hugmynd um landshöfn. Á þessu þ. hefur hv. þm. N.-Þ. flutt frv. um landshöfn á Þórshöfn. Það er því fyrsta frv., sem komið hefur til umr. á Alþ. um þetta efni. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er hið næsta og er í sama formi og frv. hv. þm. N.-Þ. Þó er það frábrugðið í tveimur atriðum, sem ég, vil vekja athygli á.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að ásamt hafnargerð reisi ríkið verbúðir og fiskvinnslustöðvar. Þetta er nýmæli í hafnarlögum og grundvallaratriði, sem hv. alþm. hljóta að taka afstöðu til við síðari umræður málsins.

Frv. hv. þm. N.-Þ. er flutt skv. beiðni þeirra, sem hlut eiga að máli, eins og grg. ber með sér. Ekki verður það séð af grg. þessa frv., að svo sé háttað um þetta mál, enda kom það ekki fram í ræðu hv. flm. Mér er kunnugt um, að menn heima í Hornafirði gáfu auga frv. mþn. um landshöfn, en þó mun ekki liggja fyrir beiðni frá þeim um flutning þessa frv. Í júlí s. 1. var haldinn sýslufundur í A.-Skaftafellssýslu, þar sem fram kom erindi hafnarn. í Hornafirði um ábyrgð sýslunnar fyrir láni til hafnarbóta þar. Sýslunefndin ræddi málið og samþ. með öllum atkv. að verða við beiðni hafnarn., en ekki var rætt um landshöfn á þeim fundi, eða a. m. k. engin ályktun gerð, sem hnígur í þá átt.

Í byrjun þessa Alþ. ritaði ég hafnarn. bréf út af höfninni og væntanlegri hafnargerð á Hornafirði. Ég hef ekki enn þá fengið neitt svar við þessu bréfi, og engar till. eða óskir hafa komið frá hafnarn., sem gangi í þá átt, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og mér er kunnugt um — ég hef kynnt mér það — að skrifstofu Alþ. hafa ekki borizt neinar óskir eða skilríki, sem lúti að þessu.

Þar sem þetta mál ber að með þessum hætti, þá tel ég ekki eðlilegt og jafnvel ekki viðeigandi að það sé afgr. í skyndi nú á þinginu, án þess að fyrir liggi umsögn og álit hafnarnefndar Hafnarkauptúns og hreppsnefndar Nesjahrepps, þ. e. a. s. þeirra, sem eru aðilar um þetta mál fyrst og fremst heima í héraði. — Þetta vildi ég sérstaklega taka fram, áður en málið fer til nefndar, og leggja á þetta nokkra áherzlu, og ég vænti þess, að hv. sjútvn., sem fjallar um þetta mál, taki þessar aths. mínar til athugunar við afgreiðslu málsins.