12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3943)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Sökum þess, að hæstv. dómsmrh. fór rangt með viss atriði viðvíkjandi störfum mínum meðan ég sat í ráðherrastóli, hlýt ég að gefa skýrslu, sem fer í bága við það, sem hann sagði, og var óþarft, ef hann hefði talað við mig um þetta mál.

Það er ekki ágreiningur milli okkar hæstv. ráðh. um sjálfa till. Mér kom ekki til hugar að skrifa undir nokkuð annað en að þeir Þjóðverjar, sem saklausir væru, fengju hér landsvistarleyfi, og þar að auki er algerlega lagt á vald hæstv. ríkisstj., hvenær þetta leyfi er veitt. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh., að ég tel ekki æskilegt að hafa í landinu hóp manna, sem telur sér skylt að hlýða lögum annarra þjóða. En þeir Þjóðverjar, sem ekkert hefur sannazt á og eru saklausir, ættu ekki að gjalda hinna seku. Njósnir eru vitanlega reknar á öllum tímum, og vitanlegt er, að njósnarkerfi Þjóðverja í Danmörku var fullkomið. Nú fyrir skömmu er komin út bók um njósnir Þjóðverja á Norðurlöndum og þá m. a. á Íslandi. Þetta er nokkurs konar reyfari og eru þar nefndir menn, sem eru saklausir, og væri full þörf á að fá sannari heimildir. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að aðalnjósnarinn á Íslandi mun hafa verið Gerlach.

Aðaltilefni þessarar till. telur hæstv. dómsmrh. að sé bréf, sem ég hafi fengið, og segir, að ég hafi ekki borið það undir samstarfsmenn mína. En þetta bréf var nýlega lagt fyrir utanrmn. og mun hæstv. forsrh. minnast þess.

Annað atriði, sem hæstv. dómsmrh. minntist á, eru einnig staðlausir stafir. Hann hélt því fram, að slælega hefði verið gengið fram í því á sínum tíma að komast fyrir starfsemi þýzkra njósnara hér á landi. En það var gert allt, sem hægt var, til að finna einhver spor. Við fengum upplýsingar um að gefa sérstaklega gaum að Gerlach, en viss atvik höfðu komið mér til að gruna þennan mann áður, enda munu ekki finnast í skjölum þessa manns vinsamleg ummæli til mín. Þegar eftir að lögreglustjóri var kominn heim úr ferð sinni til Danmerkur, lét ég hafa gætur á Gerlach. Hann kvartaði undan þessu við mig, en ég sagði honum, að ég hefði hann grunaðan, og strax þegar upplýst var, að hann hefði sendistöð, var séð um að eyðileggja hana. — Ég gæti sagt þessa sögu lengri, en hv. alþm. er þetta nokkuð kunnugt, en það, sem vakir fyrir mér í þessu máli, er það, að hinir saklausu verði ekki látnir gjalda hinna seku. Viðvíkjandi njósnum hér var ekkert að finna í Danmörku eða hjá ensku leyniþjónustunni. Það var því teflt á tvær hættur að ganga lengra í þessu máli en gert var. Sex vopnaðir menn voru hafðir til taks og maðurinn stöðugt skyggndur. — Þá talar það sínu máli, að þeir menn, sem komu hingað til að sækja um herstöðvar, voru sendir svo búnir með sama skipinu og þeir komu með.

Nei, það var ekkert vanrækt í þessu efni. Ég get látið hæstv. ráðh. fá skýrslur þeirra manna, sem út voru sendir til að athuga þetta mál, en á þeim er ekkert að græða annað en það, að upplýst var, að æðar þýzka njósnarkerfisins lágu hér heim.

Ég vil svo að lokum lýsa yfir því, að ég tel alveg hættulaust að samþ. þessa till., og skil satt að segja ekki, af hverju mótspyrna hæstv. ráðh. er sprottin.