15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (3991)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Páll Þorsteinsson:

Þegar þetta mál var til 2. umr., bar ég fram brtt., sem ég gerði þá grein fyrir, en varð síðan við tilmælum, sem fram komu um að ég tæki þær aftur til 3. umr. Nú hefur menntmn. fjallað um málið og tekið að miklu leyti upp efni brtt. minna, og hefur hv. þm. Snæf. nú gert grein fyrir þeim till.

Þó er eitt atriði, sem ekki náðist samkomulag um, en það er varðandi tilraunastöðina á Keldum, og flyt ég á þskj. 818 brtt. þar að lútandi. Svo er fyrir mælt í þessu frv., að tilraunastöðin á Keldum skuli falla undir læknadeildina, og er það tilfært, að þetta verði svo að vera til að fullnægja skilyrðum, sem Rockefellerstofnunin hafi sett varðandi rannsóknir búfjársjúkdóma. Ég gat ekki sætt mig við þessa afgreiðslu og held því fram, að öllum skilyrðum sé fullnægt, ef þessi stofnun er lögð undir stjórn háskólans, og gegn þeirri skoðun minni hafa ekki enn þá komið nein rök. Þess er vert að geta, að hér er um nokkurt fjárhagsmál að ræða, og væri að öllu leyti heppilegra að binda þessa starfsemi við aðrar rannsóknir og tilraunir landbúnaðardeildar. Ég get ekki látið hjá líða að benda á, að hv. n. virðist öðrum þræði fallast á þetta sjónarmið, t. d. vill hún gefa dýralæknum nokkurn íhlutunarrétt. — Ég sé annars ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa brtt. og læt þetta því nægja.