26.04.1946
Sameinað þing: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (4230)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Hermann Jónasson) :

Það mun mörgum þykja eigi að ósekju, að borið sé fram og rætt hér á Alþ. vantraust á hæstv. ríkisstj. Ein ástæðan af mýmörgum og nærtækust eru sjálf þingstörfin. Aðalblað Sjálfstfl. sagði með nokkru rembilæti, er þinghald hófst í haust, er leið, að þingstörf mundu ganga fljótt, þingið verða stutt vegna hins farsæla samstarfs. Með vinnubrögðum þingsins, góðum eða lélegum, dæmdi stjórnin sig sjálf, sagði þetta stjórnarblað. — Þinginu átti að ljúka fyrir jól. Það hefur alltaf átt að ljúka því síðan fyrir hver mánaðamót. Þegar vantraustið var lagt fram, ákvað stjórnarliðið, að nú skyldi öllum þingstörfum lokið fyrir páska, nema vantraustinu. Þetta átti að sýna landsmönnum og sanna í verki, að Framsfl. hefði tafið þingstörfin fram yfir hátíðina. En þegar stjórnarliðið rölti heim til sín kl. 12 aðfaranótt skírdags, var það ekki aðeins lotlegt og syfjulegt, heldur og sneypulegt, því að 20–30 þingmálum, er það ætlaði að afgreiða, var enn ólokið. Enn einu sinni mistókust vinnubrögðin og herbragðið við Framsfl. fór í hundana. Er nú svo komið, að reglulegt Alþingi 1945 stendur fram á sumar 1946.

Ofan á þennan eindæma seinagang og þar af leiðandi fjársóun kemur svipurinn á öllu þinghaldinu. Valdi forseta sameinaðs Alþingis er misbeitt til þess að stöðva mál í miðri atkvæðagreiðslu, er sýnt þykir, að hún gengur á móti ríkisstj., sbr. þál. til að afstýra því, að menntmrh. hækkaði útvarpsgjöldin. Því er misbeitt til að koma í veg fyrir, að mál óþægileg ríkisstj. fáist tekin á dagskrá og rædd. Má þar nefna till. Gísla Sveinssonar alþm. um flugvellina og þál. mína um herstöðvamálið, till. mína um rannsókn á nazistastarfsemi hér á landi o. fl. Munu allir greindir og hugsandi menn skilja, hvílíkur háski þingræðinu er búinn, er ríkisstj. hélzt uppi það athæfi að kjósa forseta, sem hún getur til þess notað að vild að troða á þeim frumrétti Alþingis að ræða landsmál, vegna þess að ríkisstj. telur sér þau óþægileg eða jafnvel tilveru sinni hættuleg. En í samræmi við þetta eru vinnuaðferðir formanna í einstökum þingnefndum. Þeir hafa verið látnir misbeita aðstöðu sinni til þess að koma í veg fyrir, að mál, sem send eru þingnefnd, kæmu þaðan aftur, sbr. jarðræktarlagafrv. — Þannig eru þingstörfin öll saman ofin af seinagangi og rangsleitni.

Þessi ríkisstj. lofaði miklu, en efndir loforðanna standa í öfugu hlutfalli við lengd þingsetunnar.

Ríkisstj. lofaði alveg sérstaklega að beita sér fyrir hagstæðum afurða- og milliríkjasamningum. Efndir eru þannig, að utan Moskvu-ferðar Einars Olgeirssonar hafa næstum allan tímann eftir styrjöld verið aðeins tveir menn öðru hverju á meginlandi Evrópu til þess að vinna íslenzkum vörum markaði. Þannig eru vinnubrögðin á því tímabili, sem allra mest er undir komið, að vörur okkar séu kynntar að nýju. En Norðmenn hafa umboðsmenn í hverju landi og öllum stærri borgum til þess að opna norskum vörum markaði í samkeppni við okkur. Með vitund og vilja ríkisstj. eru hins vegar tugir manna úti um allt til að kaupa inn alls konar glingur og glysvarning. Sendur er fjöldi fulltrúa á ýmsar ráðstefnur. Þeir voru sjö á flugmálaráðstefnunni. Svo augljós og óverjandi er trassaskapurinn og mistökin í þessum þætti utanríkismálanna, að kommúnistar þora ekki að reyna að verja þau. Þeir hafa þvert á móti reynt að koma af sér ábyrgð á sofandahættinum með þeim kattarþvotti að lýsa yfir í Þjóðviljanum, að vinnuaðferðir ríkisstj. í markaðsmálunum væru óþolandi. Þeir hafa og látið ráðherra sinn, Áka Jakobsson, lýsa hinu sama yfir hér á Alþingi.

Samningarnir við Svíþjóð eru enn eitt dæmið. Þegar átti að senda fulltrúa til að semja við Svíþjóð, neituðu kommúnistar, að Stefán Jóhann eða Arent Claessen færu. Ef aðrir væru valdir, töldu hinir ráðherrarnir það móðgun við Stefán og Claessen. Niðurstaðan varð sú, að engir voru sendir í tæka tíð til að semja við Svía. Fulltrúa Íslands í Stokkhólmi var seint og síðarmeir falið að reyna að fá samningana frá síðasta ári framlengda, en tókst það ekki. Þegar Svíar höfðu lokið við að gera samninga við aðrar þjóðir fyrir árið 1946–`47, um sölu á timbri, tilbúnum húsum og öðrum vörum, sem okkur vanhagar mest um, þá loksins er sendur maður til að reyna samninga. Afleiðingar þessa eru meðal annars timburskortur, er þegar hefur valdið stórtjóni.

Hvernig hefur ríkisstj. staðið við stóru loforðin í húsnæðismálunum? Hún hefur setið og haldið að sér höndum hátt á annað ár, vitandi það, að spekúlantar hafa fengið byggingalóðirnar hjá bænum og setið fyrir kaupum á byggingarefni, síðan keypt upp vinnuaflið, byggt og byggt og selt og selt — með gegndarlausri okurálagningu. Fáir menn eru þessari atvinnugrein kunnugri en tveir af ráðherrunum. Nú er verðþenslan og okrið á húsbyggingunum komið á það stig, að ýmsir telja, að þótt nægilegt sé af húsum í smíðum í Reykjavík, hafi fólk ekki efni á að búa í þessum nýju húsum. Ársleigan fyrir tvö herbergi og eldhús er nú 5–6 þús. kr. og fyrir 3 herbergi og eldhús 9–10 þús. kr. samkvæmt mati sjálfrar húsaleigunefndarinnar, enda hefur byggingarkostnaður sexfaldazt síðan fyrir styrjöld. Sigfús Sigurhjartarson sagði í útvarpsræðu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vetur, að auðvelt hefði verið að koma húsnæðismálunum í gott lag, ef skipulagi hefði verið komið á vinnuaflið, úthlutun lóða og sölu byggingarefnis. Þetta er rétt. En það er um leið ægilegur dómur yfir ríkisstj. Þúsundir manna, sístækkandi hópur, sem beint eða óbeint býr við þessa ríkisstjórnarhúsaleigu, horfir fram á örbirgð. Þetta fólk verður margt að spara til hins ýtrasta, til þess að geta komizt af. Braskararnir, sem unnið hafa í skjóli ríkisstj., sitja ósýnilegir við borð þúsunda manna í hinum nýju, dýru húsum og éta þar af hvers manns diski, ef til vill í áratugi, en víðs vegar um allt land verður fólk að hýrast í hreysum, vegna skorts á byggingarefni og fagmönnum, sem húsabraskararnir hafa hvort tveggja sogað til sín. — Þegar sýnt var, að ríkisstj. gerði ekkert, lagði ég fram af hálfu míns flokks frv. um húsbyggingar. Löngu síðar flutti ríkisstj. frv. um sama efni með nokkrum breyt. og stórskemmdum að því er snertir réttindi byggingarsamvinnufélaga. Þessi lög koma því eftir dúk og disk og eru stórgölluð.

Þá er framkvæmd ríkisstj. á siglingamálum og strandferðum. Í stað þess að flytja vörur frá útlöndum beint til hafna víðs vegar um land, sem er sanngirniskrafa þeirra, er úti um land búa, er vörunum hrúgað saman í Reykjavík með ærnum aukakostnaði og án þess að höfð sé fyrirhyggja um skipakost til þess að flytja vörur á hafnir úti um landið. Í blaðinu „Dagur“ var nýlega skýrt frá því, að flutninga- og farþegaskip hefði ekki komið .til höfuðstaðar Norðurlands í mánuð. Eimskip hafði sent skip til Siglufjarðar nýlega með múrsteina í síldarverksmiðjur, en ekki mátti það sinna neinum öðrum aðkallandi flutningum. Horfir nú víða til vöruþurrðar úti um landið, auk margs konar annarra óþæginda, vegna þessa óþolandi sleifarlags ríkisstj. á strandferðunum. En þessa sömu daga birtist grein í Morgunblaðinu um strandferðir líklega betri spegilmynd af hugsunarhætti stjórnarliðsins en ætlazt var til. Þar er sagt, að taka verði Esju í millilandasiglingar, þegar hún kæmi úr viðgerð. Það þurfi svo margir að skreppa til útlanda, að hrein fásinna sé að nota lúxusskip til að flækjast kringum landið fyrir fáeinar útkjálkahræður. Það eigi að nota minni skip handa þessu fólki úti um land, enda geti það ferðazt í bílum og í flugvélum. Önnur eins gegndarlaus fyrirlitning og fram kemur í þessari Morgunblaðsgrein og í framkvæmdum ríkisstj. sjálfrar á strandferðunum hefur fólkinu úti um land tæpast verið sýnd síðan stjórnin varð innlend.

Þessari ríkisstj. hafði verið bent á og raunar lagt fyrir hana í till. utanrmn. að sérmennta íslenzka menn til þess að taka við rekstri flugvallanna, er herinn hverfur héðan. En til þess þarf marga sérmenntaða menn. En þrátt fyrir allt skraf um brottflutning herliðsins, sem allir sæmilegir Íslendingar vilja, að hverfi héðan, eigum við enn ekki nándar nærri nóg hæfra manna til að annast rekstur vallanna. Þó höfum við samið við erlenda aðila um lendingu á flugvöllunum og erum því skuldbundnir til að reka þá. Nú, þegar enski herinn kveður, verða kommúnistar, sem stjórna flugmálunum, að biðja 200 enska hermenn að vera hér kyrra til þess að unnt sé að reka flugvellina svo að viðunandi sé. Þannig er þá ráðslagið og fyrirhyggjan. Ríkisstj. er svo önnum kafin að loka fyrir innflutning á salti frá Spáni, aðalmarkaðslandi okkar fyrir styrjöld, að hún hefur ekki tíma til að sinna smámálum. Þó eru horfur á því sums staðar, að fiskurinn, sem sjómenn okkar draga á land, grotni niður eða róðrar stöðvist vegna saltleysis, sem ekki var fyrirhyggja um að kaupa til landsins.

Ekki ætti þó stj. að skorta aðstoðarmenn. Hún hefur skapað 30–40 nefndir, flestar hálaunaðar, síðan hún tók við völdum. Embættismönnum hefur fjölgað svo gegndarlaust, að engin dæmi eru til slíks. Ef Alþingi afgreiðir ný 1ög, er ætíð séð fyrir því um leið, að til væri talsvert af feitum embættum. Nú síðast lög um tunnuverksmiðju, auðvitað undir sérstakri stjórn, en ekki undir stjórn síldarútvegsnefndar. Lög um niðursuðuverksmiðju ríkisins, ekki rekin af stjórn síldarverksmiðjanna, heldur auðvitað undir sérstakri nýrri stjórn. Ný nefnd er skipuð til þess að sjá um byggingu síldarverksmiðja — hingað til í verkahring stjórnar verksmiðjanna. Fróðir menn telja, að fámennustu flokkarnir séu að komast í þrot með menn í embætti og nefndir, þrátt fyrir góðan vilja og mörg störf á hvern mann.

Ég vík aftur að loforðum ríkisstj. Hún lofaði því að afgreiða fyrir kosningarnar nú í sumar endurbætta og fullkomna stjórnarskrá. Það voru skipaðar tvær nefndir. Sérfræðingur var sendur viða um lönd til að kynna sér og gefa nefndinni skýrslu um helztu stjórnarskrár veraldar. Það er meira en hálft ár síðan sérfræðingurinn kom heim, en enginn hefur séð neina skýrsluna ennþá, og mundi hann sjálfsagt hafa gefið hana, ef ríkisstj. hefði viljað. Á þetta loforð ríkisstj. eða efndir þess er ekki minnzt lengur. Þegar ég bar fram frv. um breyt. á stjskr., er heimilaði að kalla saman sérstakt stjórnlagaþing til þess að setja lýðveldinu nýja stjskr., fékkst það ekki rætt, sem mun einsdæmi í þingsögunni um frv. til stjórnlagabreytingar. Og þó er þetta enn þá ósæmilegra og lítilmannlegra, þegar þess er gætt, að stjórnarflokkarnir lofuðu þjóðinni því að afgreiða stjórnarskrármálið á þessu þingi.

Almenn tryggingalöggjöf hefur nú verið samþ. Deildar munu verða meiningar um, hve fullkomin hún er eða réttlát. Úr frv. voru í meðförum Alþ. felldar niður að miklu leyti ekknatryggingar og vísir til atvinnutrygginga alveg. Jafnaðarmenn segjast hafa orðið að ganga að þessum kostum til þess að fá sjálfstæðismenn til að samþykkja löggjöfina. En það er enn eitt sýnishornið af heilindum stjórnarsamstarfsins, að nú hafa kommúnistar sett alla áróðursvél sína í gang til þess að sannfæra landsfólkið um, að jafnaðarmenn hafi fórnað ekknatryggingunum og atvinnutryggingunum fyrir þann kaupskap við Sjálfstfl., að lögin yrðu þannig úr garði gerð, að jafnaðarmenn réðu framkvæmd tryggingalaganna og gætu notað þær sem flokkstæki og skipað allan embættismannaskara trygginganna í embætti um allt land. Þannig eru vinnubrögð kommúnistanna. Væntanlega upplýsist í þessum umræðum, hvernig þessu er háttað.

Áður en ég minnist á nýsköpunina, verð ég að undirstrika þann gagngerða skoðanamun og ágreining, sem er og verið hefur milli Framsfl. og stjórnarflokkanna síðan 1942, um verðþensluna og fjármálastefnuna. Okkur framsóknarmönnum hefur alltaf verið ljóst, að auðvelt er með verðbólgu að skapa falska velmegun og láta allt fljóta meðan á styrjöldinni stóð og eftir hana meðan þjóðirnar voru að seðja vöruhungrið. En við álítum þessa verðþenslustefnu stjórnarflokkanna síðan 1942 ábyrgðarlausa og óverjandi, vegna þess að með því er þjóðin með sjálfskaparvíti leidd út í stöðvun framleiðslunnar, atvinnuleysi og allar hörmungar þess undireins og verðfallið kemur, í stað þess að miða fjármálastefnuna við að afstýra þessu. En á þessu sviði er ríkisstj. langt á undan tímanum. Hún telur það nú þegar til sigra, að vegna feitmetishungurs erlendis eru í svipinn góðar horfur á háu verði fyrir lýsi og síldarafurðir. En hún hefur neyðzt til að taka ábyrgð á verði saltfisks, hluta af verði freðfisks, láta ríkið taka skip á leigu til að flytja ísfiskinn á markað erlendis, eftir að eigendur skipanna höfðu neyðzt til að hætta vegna taprekstrar. Hún hefur enn fremur orðið að taka ábyrgð á greiðslu útflutningsvara til sumra þjóða til þess að geta selt vöruna við nægilega háu verði, svo að framleiðslan fljóti. Allt þetta hefur þegar gerzt, til þess að afstýra stöðvun framleiðslunnar, áður en til verðfalls hefur komið og þrátt fyrir vöruhungur erlendis og hæsta eftirstríðsverð sökum þess. Enn virðist ríkisstj. þó ekki sjá né skilja, að hún stefnir til skipbrots. Um endurnýjun framleiðslunnar var og enginn ágreiningur. Það var heldur enginn ágreiningur um það milli Framsfl. og stjórnarflokkanna að leggja til hliðar 300 milljónir í erlendum gjaldeyri til þess að kaupa svokallaðar nýbyggingarvörur. En um framkvæmdina var ágreiningur. Þegar stjórnarsamningurinn var gerður 1944, töldu núverandi stjórnarflokkar enn ekki nauðsyn að sinna dýrtíðarmálum. Það er satt og rétt, sem Morgunblaðið sagði um þetta í forustugrein 17. febr. s. l. Ég les það orðrétt: „Þetta varð til þess, að Framsókn skarst úr leik. Hún neitaði allri samvinnu í ríkisstjórn, ef ekki yrði byrjað á því að leysa dýrtíðarmálið.“ Lausn á því máli töldum við framsóknarmenn, að mundi öllu öðru fremur og það eitt vekja vilja og áhuga einstaklinga og félagsheilda til að leggja fjármuni í ný framleiðslutæki og skapa grundvöll undir heilbrigða nýsköpun, örugga framleiðslustarfsemi og velmegun þjóðarinnar.

Framsfl. vildi, að gerður yrði útreikningur og áætlun um búskap þjóðarinnar og hvaða framleiðslutæki bæri að kaupa. Framsfl. vildi, að hið opinbera aðstoðaði einstaklinga og bæjarfélög við útvegun hagkvæmra lána, með leiðbeiningum sérfróðra manna við kaup á tækjum og endurnýjun framleiðslunnar, en hið opinbera tæki ekki af þeim ráðin og ríkið gerðist forsjá þeirra. Núv. ríkisstj. hefur þverbrotið allar, þessar reglur. Í stað þess að stöðva dýrtíðina hefur hún sífellt aukið hana. Í stað þess að vinna að framkvæmdum samkv. áætlun veldur ríkisstj. beint og óbeint vaxandi handahófsframkvæmdum og glundroða, þar sem vinnuaflinu er ofþyngt, sbr. nú síðast byggingu 15 millj. kr. útlendingahótels meðal margs annars. Í stað þess að láta einstaklinga og bæjarfélag hafa forgönguna, velja og ráða í aðalatniðum, tók ríkisstj. af þeim ráðin.

Ríkisstj. kaupir 30 nýja togara við allt að tvöföldu verði, eftir því sem enskir útgerðarmenn sögðu þm. Barð. Þetta eru gufutogarar, en ýmsir sérfróðir menn töldu, að ekki væri áhorfsmál, að kaupa bæri dieseltogara, sem eru miklu sparneytnari. Þannig togara kaupa nú franskir útgerðarmenn. Líkur benda því til, að þessi nýsköpun sé þegar úrelt. Þessi flausturslegu kaup afsakaði ríkisstjórnin með því, að ef þessu boði væri ekki, mundi ekki hægt að fá skip smíðuð næstu árin. Það er fullsannað, að þessi staðhæfing var röng. Sumir einstaklingar hafa þegar keypt skip, aðrir hafa tilboð á hendinni. Það mun og rétt, sem atvmrh. upplýsti, að í skipasmíðastöðvum í Ameríku er þegar atvinnuleysi. — Einstaklingar fást ekki til að kaupa nema 12 þessara togara þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni, framboð lögboðinna kjaralána og afskriftir með skattafríðindum. Til þess að koma hinum togurunum út og í rekstur bæjarfélaga verður ríkisstj. að láta meiri hluta sinn á Alþingi lögbjóða Landsbankanum að lána kaupendunum mestallt andvirðið og ríkið taki byrgðina á lánunum.

Af 35 bátum, sem ríkisstj. hljóp til að semja um smíði á, er enn enginn seldur. Einstaklingar hafa síðan samið um smíði á allmörgum bátum erlendis, og kosta þeir allt að helmingi minna. Ríkisstj. hætti þá við smíði 8 bátanna, sem samið hafði verið um við Landssmiðjuna — ríkisfyrirtæki. Annars staðar er ríkið bundið við samningana og er þegar fyrirsjáanlegt milljónatap á þeim, án þess að skipasmíðastöðvarnar græði. Við Íslendingar erum svo heppnir að eiga margt ágætra skipasmiða, sem eru fyllilega jafnokar erlendra skipasmiða og færir um að standast samkeppni við þá. En nú leita landsmenn kaupa á skipum erlendis, því veldur verðmismunurinn. En hann stafar eingöngu af þeim aðstöðumun, að erlendis er verðbólgu haldið í skefjum. Hér er verðþensla ríkisstjórnarinnar að koma enn einni atvinnugrein innlendri á kné, þeirri iðngrein, sem átti það sízt skilið og þjóðarnauðsyn er að efla sem allra mest.

Hér verð ég aðeins að minnast á gjaldeyrismálin. Ríkisstj. hefur tekizt að eyða gjaldeyriseign þjóðarinnar með furðulegum hraða. Af nýbyggingarpeningunum hafa þegar verið veitt gjaldeyrisleyfi fyrir 230 millj. Eftir eru í dollurum um 70 millj. kr. En þá stenzt það á endum. Við eigum ekki einn einasta dollara, sem ekki er þegar búið að ráðstafa, nema afgang þessara nýbyggingarpeninga. Fyrir þessu hef ég fengið sannanir, enda fyrir nokkru svo vitað orðið, að Þjóðviljinn 10. þ. m. segir orðrétt:

„Nú er svo komið, að dollarainnstæðurnar eru búnar nema það, sem lagt hefur verið á nýbyggingarreikning.“ Enn segir Þjóðviljinn, að þó sé haldið áfram að leyfa innflutning á alls konar óþarfa og drasli fyrir dollara. Heildsalar og aðrir braskarar heimta og yfirmaður utanríkisviðskiptanna og viðskiptaráðherra, Pétur Magnússon, lætur undan.“ Dáfögur lýsing á stjórnarfari stjórnarflokkanna og samstarfinu á því heimili. Það er nú ekki unnt að kaupa næstum neitt af matvörum og ýmsum öðrum nauðsynjavörum nema gegn greiðslu í dollurum. Nýlega skipaði ríkisstj. að taka milli 10 og 20 millj. kr. af dollurum nýbyggingarráðs til þess að greiða eyðsluvörur, þar á meðal 15 lúxusbíla handa ríkisstj. og liði hennar. Það er því þegar hröðum skrefum lokið að eta upp til kaupa á eyðsluvörum það, sem Alþ. lagði til hliðar í dollurum til að kaupa fyrir nýrbyggingarvörur. Auk þess þurfa námsmenn vestra verulega fúlgu til þess að komið verði í veg fyrir, að þeir þurfi að hætta við námið í Bandaríkjunum. En svo upplýsir Ólafur Friðriksson það í Alþýðublaðinu, að við höfum selt til Danmerkur fyrir danskar krónur eða pund, sem lítið fæst keypt fyrir í bráð, vörur, sem við höfum borgað fyrir með dollurum. Nemur þetta minnst 16 millj. kr. Borið er fyrir að vörur þessar hafi ekki verið okkur nógu hentugar. Hvers vegna var þá leyft að flytja þær inn? En þessi umsetning kvað gefa mjög álitlegan verzlunargróða. Og gæðingar ríkisstj. fá keypta dollara til þess að geta flutt fé sitt úr landi og þegar heildsalar eru látnir skila sannanlegum ólöglegum gróða sínum, skila þeir honum í íslenzkum krónum, þótt verulegur hluti gróðans sé í dollurum og geymdur erlendis sem inneign í dollurum.

Ég kem þá að herstöðvamálinu. Gangur þess er þannig í stuttu máli: Bandaríkin biðja um herstöðvar á Íslandi um langan tíma síðastliðið haust. Ríkisstj. var ósammála og eftir langa mæðu sendi hún Bandaríkjastjórn furðulegt svar, sem mátti skilja á marga vegu. Óskiljanlegt svar var það eina, sem hún gat komið sér saman um. Stjórn Bandaríkjanna svaraði og kvaðst skilja svarið sem jákvætt um herstöðvar um langan tíma. Forsrh. svaraði þá að nýju og sagði, að ekki mætti skilja svar sitt þannig. Síðan fær þingið eða þjóðin ekkert um málið að vita. En ýmislegt hefur þó kvisazt. Vitað er, að Bandaríkjastjórn sendi nýtt svar og bað um að samtöl hæfust, til þess að hvor þjóð gæti sett fram sín sjónarmið og komizt að einhverri niðurstöðu. Þegar kommúnistar fengu að vita þetta, gerðu þeir flokkssamþykkt um að rjúfa stjórnarsamstarfið, ef forsrh. yrði við þessari ósk Bandarlíkjastjórnar — og þetta tilkynna þeir honum. — Kommúnistar neyddu því ráðherrann til þess að velja um tvennt: að taka enga afstöðu eða missa ráðherratign. Nú voru góð ráð dýr. Forsrh. snýr sér til Bandaríkjastjórnar, aðallega fyrir milligöngu sendiherrans í Washington, bróður síns, og biður hana í guðanna bænum að taka þennan kaleik frá sér fram yfir kosningar. Með hvaða móti ráðherrann fær málinu frestað, er ekki nægilega upplýst enn þá til þess að um það verði rætt að sinni. En forsrh. virðist þó hafa gert sér ljóst, að hann var byrjaður á hættulegum og ósæmilegum vinnubrögðum bak við þjóðina og Alþ., sem átti setu þessa sömu daga, því að um það sama leyti fær hann samþ. á ráðherrafundi með samhljóða atkvæðum, að málinu og öllum skjölum þess skuli haldið leyndu fyrir þingi og þjóð. Þetta síðasta hneyksli varð uppvíst fyrir fáum dögum. Einn stúdentinn á stúdentafundinum, Jóhannes Elíasson, sýndi fram á, að kommúnistar væru samsekir um leyndina með því að sitja í ríkisstj. og styðja hana. Þeir gætu hvenær sem þeir vildu, rofið leyndina með því að hóta að segja af sér og hætta að styðja þessa stjórn. Ráðherrar kommúnista urðu þá svo smeykir, að þeir hlupu á sig og birtu yfirlýsingu í Þjóðviljanum þess efnis, að þeir hefðu innan ríkisstj. beitt sér gegn leyndinni, — sem er vitanlega engin afsökun. En þá var það, að ráðherrar jafnaðarmanna gáfu yfirlýsingu um það í Alþýðublaðinu, að allir ráðh. hefðu samþykkt leyndina á ráðherrafundi fyrir jól. Þjóðviljinn át þá ofan í sig fyrri yfirlýsingu ráðherra sinna — og kommúnistakempurnar kváðu hafa beðið um, að ekki yrðu fleiri yfirlýsingar um þetta birtar. — En við vitum meira. Hér á Alþ. lýsti forsrh. yfir því í vetur, að gefnu tilefni, að her Bandaríkjanna hefði fullan rétt til að dvelja hér. Allir ráðh. voru viðstaddir og samþykktu þetta með þögninni.

Málið tekur nú að skýrast, þótt margt sé þar í myrkrunum hulið. Forsrh. vinnur sér til pólitísks lífs að gera ekkert í herstöðvamálinu opinberlega. Kommúnistar samþykkja, að hann fái málinu frestað með leynilegum aðgerðum samtímis og Alþingi á setu. Í ljós kemur síðan, að herinn er hér með samþykki allrar ríkisstj. Kommúnistar samþykkja, að haldið skuli leynd yfir öllu saman. Kommúnistar fá hins vegar þá aðstöðu að rægja Bandaríkin daglega vegna dvalar hersins og í skjóli leyndarinnar. Í erlendum blöðum birtist ógrynni af furðulegum sögum um málið. Þetta tínir Þjóðviljinn saman og í skjóli óvissunnar notar hann það til þess að blása að glóðum tortryggni og óvildar til Bandaríkjanna. Dvöl herliðsins í landinu og leyndin er þeim ekkert atriði nema sem ákjósanlegt vopn í áróðurssókn að settu marki. Þess vegna hafa þeir óbeint og beint samþykkt hvort tveggja: Það markmið kommúnista að kveikja og kynda úlfúð og tortryggni meðal Íslendinga og Engilsaxa getur engum dulizt lengur. Bretar kaupa um ¾ af öllum okkar útflutningsvörum. Í blöðum kommúnista birtist látlaust níð um Breta. Í sama eintaki kommúnistablaðsins og hrósað er happi yfir því, að Bretar hafi þá vikuna keypt fisk héðan fyrir 6–10 millj. kr., er brezka stjórnin rægð. Bretar hafa hér þó engar herstöðvar og æskja engra. — Það, sem Íslendingum er lífsnauðsyn, er náin samvinna við Engilsaxa og Norðurlandaþjóðirnar og sérstakt samstarf við Engilsaxa um öryggismál Íslands án þess að hér sé erlendur her. Vinnubrögð kommúnista, að kynda bál úlfúðar og tortryggni milli Íslendinga og þessara sjóða, hafa það markmið að koma í veg fyrir þá vináttu, er slíkt samstarf þarf að byggjast á, og ástæðurnar vita allir landsmenn, sem vilja vita um þær. Þessi háskalega iðja er rekin í skjóli forsrh., í skjóli blaðs hans, til þess að hann fái að sitja í stólnum og halda leynd yfir því, senn gerzt hefur, þar á meðal þætti sjálfs sín. — Heiðarleg vinnubrögð, drengileg og djörf í utanríkismálum er eina vörn og vígi smáþjóðar. Glati hún sæmd sinni meðal þjóðanna, brýtur hún þar með niður allar varnir, og það er hætt við, að hún glati þá sjálfstæðinu um leið. En gerir ríkisstj. sér þess grein, að það er þetta, sem kann að vera að gerast? Framkoman í herstöðvamálinu er orðin vansæmandi bæði út á við og inn á við. Það nálgast senn naprasta háð að tala um lýðræði í landi, þar sem ríkisstj. sjálf bindur fyrir augu Alþ. og þjóðarinnar í stærsta vandamáli hennar og gefur þannig ábyrgðarlausum æsingamönnum tækifæri til að gera það að aðaliðju sinni og áhugamáli nú um skeið að toga þjóðina og teygja af réttri leið —, frá sjálfri sér til austurs eða vesturs. Til þess að bjarga eigin lífi í bráð leynir ríkisstj. þjóðina málavöxtum í örlagaríkasta máli hennar og gefur þeim, sem virðast hafa minnsta samvizku í sjálfstæðismálum Íslendinga og versta, langþráð tækifæri til að leika sér með fjöregg þjóðarinnar og blekkja hana í þeirri gerningaþoku, sem ríkisstj. sjálf hefur búið til utan um þetta herstöðvamál. En um hvaða mál á þjóðin annars að fá að vita, ef ekki stærsta vandamál sitt. Til hvers eru kosningar, og hvers vegna eru þær kallaðar æðsti dómstóll þjóðarinnar, ef kjósendur fá ekkert að vita um málin, sem þeir eiga að dæma í? Væri það ekki fjarstæða og frekleg móðgun við dómara að skipa honum að dæma í máli án þess að þekkja málavöxtu? Það er þetta, sem ríkisstj. býður þjóðinni. Ég álít það mjög hættulegt, vegna þess að mér finnst það sýna sljóvgun eða vanþroska hjá þjóðinni, ef hún þolir þá stjórn, sem beitir hana slíkum vinnubrögðum.

Ég hef rakið vinnuaðferðir og stefnu ríkisstj. í fáeinum málum. Mörg fleiri munu verða nefnd.

Síðan skera atkvæði úr um vantraustið. Kemur þá í ljós, hverjir þm. ætla sér að ganga til kosninga undir merkjum þessa stjórnarsamstarfs, undir fána stjórnarstefnunnar og framhaldi þeirra vinnubragða, sem þessi ríkisstj. hefur sýnt og vænta má meðan henni endist aldur. Töldum við framsóknarmenn nauðsyn til bera, að þetta lægi ljóst fyrir öllum landsmönnum áður en þingi er slitið og kosningabarátta hefst.