26.04.1946
Sameinað þing: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (4245)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Þessar umræður, sem hér hafa farið fram, eru að ýmsu leyti ójafn leikur. Fyrst og fremst vegna þess, að stjórnarandstaðan hefur aðeins fjórða hlutann af tímanum á móti stjórnarflokkunum, en þó enn meir af þeirri ástæðu, hve málefnin eru misjöfn.

Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, lýsti ríkisstj. þannig, að ókunnugir mættu álykta, að ríkisstj. og þingmeirihluti sá, sem að henni stendur, væri hópur glæpamanna, sem stefndu þjóðarskútunni í beinan voða og ekkert gerðu annað en afglöp. Mér er ljóst, að margt hefur gerzt, sem betur mætti fara í ríkisstj., en þrátt fyrir það hefur með stjórnarsamvinnu þeirri, sem efnt var til í okt. 1944, verið komið fram stærri og merkari málefnum á stuttum tíma en dæmi eru til áður í stjórnmálasögunni. Málefni stjórnarflokkanna í heild eru því að mörgu leyti betri en áður hefur þekkzt, og afstaða Framsfl. til stjórnarandstöðunnar því hin erfiðasta. Framsfl. hafði áður það hlutskipti, meðan hann vann með Alþfl., að inna af hendi mikið og merkilegt umbótastarf. En nú er svo komið, að þessi fortíð virðist vera gleymd, og í stað þess er Framsfl. að ýmsu leyti orðinn afturhaldssamasti stjórnmálaflokkurinn í landinu, undir forustu hv. þm. Str., Hermanns Jónassonar.

Straumhvörfin í Framsfl. urðu í raun og veru í ársbyrjun 1942, þegar sá flokkur setti með Sjálfstfl. lög um dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum og ætlaði að banna verkalýðnum allar kjarabætur. Þessi tilraun mistókst með öllu, sem betur fór, fyrir öfluga andstöðu Alþfl. og verkalýðssamtakanna. En síðan hefur Framsfl. verið á stöðugum flótta frá sinni eigin fortíð og dregizt lengra og lengra í afturhaldsáttina. Þessi gamli samherji Alþfl. er því í rauninni alþýðunni tapaður undir núverandi forustu hans. Og hlutverk Alþfl. hlýtur því að vera að halda uppi því, sem Alþfl. og Framsfl. áður gerðu sameinaðir, víðsýnni og frjálslyndri umbótastefnu, byggðri á lýðræði og jafnrétti þegnanna.

Ég tel ekki þörf að karpa við hv. þm. Str., Hermann Jónasson, en kýs heldur að sýna fram á, hvernig ýmsar framkvæmdir núverandi stjórnar samrýmast gamalli og nýrri baráttu og stefnu Alþfl.

Alþfl. hefur á 30 árum í raun og veru gerbreytt lífi okkar Íslendinga. Flestum Íslendingum mun vera ljóst, að hann hefur átt frumkvæðið að nær öllum félagslegum umbótum þessara áratuga, svo sem afnámi sveitarflutninga, rýmkun almenns kosningarréttar, kosningarrétti þurfamanna, alþýðutryggingalögunum eldri, auknum slysatryggingum, lögum um byggingu verkamannabústaða og fleira og fleira. En þó að almenningi sé þetta mjög ljóst, hvern þátt Alþfl. hefur átt í þessari félagsmálalöggjöf, þá fer því fjarri, að allir veiti því eftir,tekt, að hið sama gildir um þær stórkostlegu breytingar, sem orðið hafa á atvinnuháttum landsmanna hin síðari árin. Alþfl. hefur ætíð haft skipulagningu atvinnuveganna á stefnuskrá sinni og í samræmi við það átt frumkvæði að ýmsum merkum framförum, sem hafa gerbreytt atvinnuvegunum. Í samvinnu við aðra flokka hefur þessum málum miðað áfram. Málefnaaðstaða hefur ætíð ráðið afstöðu Alþfl. Stundum hefur lítið áunnizt, en þó alltaf eitthvað, og aldrei hefur verið stigið spor aftur á bak. Þetta er eðli hinnar lýðræðislegu þróunar. Hefur mikill árangur náðst á skömmum tíma, svo sem sýnt mun verða með óhrekjandi rökum.

Fyrsta bygging síldarverksmiðja ríkisins var framkvæmd samkvæmt lögum, er sett voru á Alþ. 1928. Frv. til þeirra laga var flutt m. a. af Alþýðuflokksmanninum Erlingi Friðjónssyni. Næstu till. um stækkun síldarverksmiðja ríkisins flutti ég á Alþ. árið 1933. Og ætíð síðan hefur Alþfl. staðið að stækkun síldarverksmiðja ríkisins, nú síðast hinum miklu nýbyggingum, sem verið er að framkvæma á Skagaströnd, nýbyggingum, sem undirbúnar hafa verið af stjórn síldarverksmiðja ríkisins með þátttöku fulltrúa Alþfl. Alþfl. barðist fyrir skipulagningu síldarsöltunar og kom fram lögum um síldarútvegsnefnd á Alþingi í árslok 1934. Þessar tvennar framkvæmdir, bygging síldarverksmiðja ríkisins og stofnun síldarútvegsnefndar, hafa gerbreytt síldarútveginum og afkomu allra þeirra mörgu manna, sem hann stunda. Áður var síldarútvegurinn ótryggastur allra atvinnuvega. Þegar mikið aflaðist, söltuðu menn sig á höfuðið. Og ef lítið aflaðist, höfðu menn enga síld til að salta, og allt fór á höfuðið af þeim ástæðum. Síldarleysisárin eru miklu færri en góðu síldarárin, en hvort tveggja var sama ógæfan áður en síldarútvegurinn var skipulagðir. Nú er svo komið, að þegar vel aflast, er síldarútvegurinn einhver tryggasti atvinnuvegur landsmanna, vegna skipulagningar sinnar. Þessar miklu umbætur hafa orðið fyrir frumkvæði Alþfl. og voru umdeildar mjög, þó að þær hafi nú náð svo mikilli viðurkenningu, að þær eru ekki lengur flokksmál, heldur vilja allir flokkar eigna sér þær.

Skipulagning saltfisksölunnar var lögfest af ráðherra Alþfl., Haraldi Guðmundssyni, á árinu 1934. Þá voru tímamót í þeim atvinnuvegi. Kaupmátturinn var að þverra í viðskiptalöndunum, háir tollmúrar voru hlaðnir, samkeppni innanlands og utan var taumlaus og markaðslöndin lokuðust hvert á fætur öðru. Ógurlegt hrun og atvinnuleysi blasti við landsmönnum af þessum ástæðum. Alþfl. hafði margsinnis varað við þeirri hættu, sem stafaði af því að einhæfa allar vonir þjóðarinnar og framtíð við saltfiskmarkaðinn. Aðeins ein tilraun hafði verið gerð af hálfu framtakssamra einstaklinga til þess að koma frystum fiski á erlendan markað, en mistekizt. Þá kom Alþfl. fram löggjöfinni um fiskimálanefnd og fiskimálasjóð. Fiskimálanefnd reisti fyrsta innlenda hraðfrystihúsið, hún gerði hverja tilraunina af annarri með að senda hraðfrystan fisk á erlendan markað. Sumar tilraunirnar mistókust. Fiskimálanefndin varð fyrir þungum ádeilum og harðri gagnrýni. Pólitískir andstæðingar gerðu hverja tilraunina af annarri til þess að hrinda starfi hennar í rústir, en allt kom það til einskis. Alþfl. var þarna enn á réttri braut í atvinnumálunum og stefna hans sigraði. Einstaklingar og félög tóku upp aðferðir fiskimálanefndar og notuðu sér reynslu þá, sem fengizt hafði með starfi hennar, reistu hraðfrystihús með styrk eða lánum úr fiskimálasjóði, og nú er svo komið, að hraðfrystihúsin geta flutt út árlega um 40000 smálestir af fiskflökum, eða jafnvel meira.

Þarna hafði enn, fyrir frumkvæði Alþfl., verið framkvæmd skipulagning á atvinnuvegi, sem nálgast byltingu í atvinnuháttum, — friðsama byltingu, sem tryggir atvinnu landsmanna eftir því, sem unnt er að tryggja hana á þessum tímum óvissunnar. Þessi skipulagning atvinnuveganna er hið sama og nú er almennt nefnt nýsköpun. Alþfl. hefur ætið barizt fyrir því, að fjármagni þjóðarinnar skyldi varið til þess að byggja upp heilbrigt atvinnulíf handa öllum landsmönnum. Nýsköpun sú, sem nú er verið að framkvæma samkvæmt stefnuskrá núverandi ríkisstj., er því í fullu samræmi við áratuga baráttu Alþfl. og í beinu framhaldi af henni eins og hún hefur lýst sér í stofnun síldarverksmiðja ríkisins, stofnun síldarútvegsnefndar og byggingu hraðfrystihúsa. Kaup á atvinnutækjum, svo sem togurum, vélbátum, strandferðaskipum, milliferðaskipum, vélum í síldarverksmiðjur, landbúnaðarvélum, vélum til rafvirkjunar í stórum stíl ásamt ýmsu öðru til framleiðslu, að ógleymdum stórkostlegum byggingarframkvæmdum til þess að draga úr húsnæðisleysi almennings í kaupstöðum, aðstoð við sjávarútveg, stórum aukið framlag til nýbyggða og landnáms í sveitum, — allt er þetta í fullu samræmi við gamlar og nýjar kröfur Alþfl. um skipulagning atvinnuveganna. Á sama hátt eru hin merku og miklu skólafrv., sem nú hafa verið afgreidd, í beinu framhaldi af stefnu Alþfl. í menntamálum fyrr og síðar.

Vaxandi skilningur annarra flokka á nauðsyn þess, að ríkið hafi afskipti af atvinnumálunum, er Alþfl. gleðiefni. Sjálfstfl. hefur með stjórnarsamningnum og í verkinu viðurkennt, að einstaklingsframtakið var þess ekki umkomið að leysa það mál af eigin rammleik hvað innkaup atvinnutækja snertir. Það varð því að ráði, að ríkið réðist í að beita sér fyrir innkaupum í stórum stíl. Hins vegar er ágreiningur um það, hverhafa skuli rekstur hinna stærstu atvinnutækja með höndum, og sá ágreiningur er enn óleystur. Honum hefur verið skotið á frest fyrir því, sem var mest aðkallandi: útvegun og innflutningi atvinnutækjanna: Sósfl., sem hefur breytt um nafn, af því að gamla nafnið var orðið slitið og ekki vænlegt til að afla flokknum fylgis, tekur nú þátt í umbótastarfinu á grundvelli Alþfl., þrátt fyrir það að hann hafi áður talað um slíkar umbætur með fyrirlitningu og kallað þær „Óla skans dans“.

Stjórnarsamvinnan er því samvinna flokka með ólíkar skoðanir, þó að framkvæmd hennar og ýmis lagasetning hafi í mörgum efnum verið mjög í anda þess, sem Alþfl. hefur haldið fram fyrr og síðar. Þessi samvinna er byggð á lýðræðisgrundvelli og er að mörgu leyti nýstárleg. Hún hefur stundum gengið erfiðlega, og það hefur kostað mikla lagni, einkum af hálfu hæstv. forsrh., að samræma hin ólíku sjónarmið flokkanna. Samningar hafa tekizt um framkvæmd einstakra mála, en Sjálfstfl. heldur að sjálfsögðu stefnu sinni, sem er andstæð stefnu Alþfl. Og um Sósfl. er það að segja, að hann á erfitt með að hlíta venjulegum lýðræðisaðferðum, þar sem flokknum er annað tamara sem gömlum kommúnistaflokki. Forustumenn hans eru allflestir svokallaðir Moskvusinnar. Og þó að allur þorri kjósenda hans séu lýðræðissinnar, á það mjög langt í land, að forvígismönnunum hafi skilizt þær aðferðir, sem nauðsynlegar eru til lýðræðislegrar samvinnu á þingræðisgrundvelli. Kom þetta m. a. mjög ljóslega fram í ræðu hv. 11. landsk. hér í útvarpinu áðan.

Þann tíma, sem stjórnarsamvinnan hefur staðið, hefur mörgum merkilegum málum verið komið í framkvæmd. Afgreidd hafa verið ýmis stór frv. Með þeim er lagður grundvöllur að merkilegum framförum og þjóðfélagsumbótum. En til þess að þau komi að fullu gagni, verður að stjórna landinu á hreinum lýðræðisgrundvelli og með þingræðismeirihluta. Hlutdeild stjórnarflokkanna í málum þeim, sem fram hefur verið komið, er auðsæ af stjórnarsamningunum og hefur áður verið rakin. Alþfl. hefur sett merki sitt á stjórnarsamningana, allmiklu meira en hinir flokkarnir, og er það einkum vegna þess, að stefna Alþfl. er meir í samræmi við kröfur hinna nýju tíma en stefnur hinna flokkanna, og er það vel farið, að hv. 11. landsk., Sigurður Thoroddsen, minntist á það áðan, að Alþfl. setti úrslitakosti þegar gengið var til stjórnarsamninga í október 1944. Í hverju voru þessir úrslitakostir fólgnir? Meðal annars afgreiðslu launalaganna og almannatryggingalaganna og nánari ákvæðum, til þess að tryggja nýsköpunina, sem við allir erum að hæla okkur af. Sósfl. setti enga úrslitakosti. Hans áhugamál á þeim tíma var það eitt að komast í ríkisstjórn.

Fortíð Alþfl. í framkvæmdum þeim, sem ég áður nefndi um ýmsar þjóðfélagslegar umbætur og mannréttindamál á lýðræðisgrundvelli, er alveg í samræmi við þær kröfur, sem nú eru efst á baugi hjá þeim lýðræðissinnum, sem ekki vilja lengur una kúgun auðvalds og einræðis, heldur krefjast andlegs frelsis, stjórnmálafrelsis og fullkomins lýðræðis í atvinnumálum.

Hæstv. forsrh. hefur rakið í stórum dráttum afgreiðslu þingmála, og sé ég ekki ástæðu til að fara út í einstök þeirra, önnur en þau, sem sérstaklega heyra undir mitt ráðuneyti. Og af þeim vildi ég einkum nefna tvö stórmál, sem snerta líf svo að segja hvers einasta borgara í landinu. Annað málið, almannatryggingarnar, var umsamið í stjórnarsamningnum og hefur það nú fengið afgreiðslu. Hitt málið, sem almennt er kallað húsnæðisfrv., var óumsamið, en er þrátt fyrir það nú orðið að lögum. Vil ég leyfa mér að rekja gang þessa máls á Alþ. og frv. sjálft í stórum dráttum.

Eftir þál., sem Alþ. samþykkti í jan. 1945, leitaði ég eftir því við bæjarstjórnir, hreppsnefndir og starfandi byggingarsamvinnufélög, að þau sendu félmrn. till. um breytingar á núverandi byggingarlöggjöf, og var ætlazt til þess, að þessir aðilar bentu á nýjar leiðir, hver á sínum stað, ef tiltækilegt þætti. Mörg svör bárust frá þessum aðilum, og fól ég Jónasi Guðmundssyni, eftirlitsmanni sveitar- og bæjarmálefna, að vinna úr tillögum þeim, sem borizt höfðu, og að semja að nýju kafla um þau atriði, sem nauðsynlegt taldist að lögfesta. Var þannig unnið úr tillögum ýmissa aðila, sem byggingarmál hafa með höndum víðs vegar á landinu. Var frv. um þetta efni lagt fyrir Alþ. og flutt af félmn. Ed. fyrir áramót, og er nú frv. þetta orðið að lögum með nokkrum breytingum.

Fyrsti kafli frv. þessa er breyt. á núgildandi lögum um verkamannabústaði. Aðalbreyt. eru þær, að tekjuhámark þeirra, er laganna njóta, er fært úr 4 þús. kr. í 7 þús. kr. og ómagaviðbótin hækkuð úr 500 kr. í 1000 kr. fyrir hvert barn. Þá er og eignahámark hækkað úr 5 þús. í 10 þús. kr. og vísitöluuppbót að auki. Þá er tillag bæjarsjóða hækkað úr 2 kr. í 4 til 6 kr. og framlag ríkissjóðs að sama skapi, eftir því, hvað mikið sveitarsjóður leggur fram. Tekjur byggingarsjóðs verða þannig árlega um 1 millj. og 900 þús. kr., ef lægsta heimild er notuð, en geta orðið um 2 millj. og 500 þús., sé heimildin notuð til fulls. Eru tekjur sjóðsins þannig tvö- eða þrefaldaðar frá því, sem nú er, eftir því hvað sveitarfélögin treysta sér til að leggja fram. Þá er heimild til að lengja lánstíma frá 42 árum allt upp í 75 ár. En vextirnir eru ákveðnir 2%, en voru áður samtals vextir og afborganir 4% á ári. Þá er heimild til að lána allt að 90% af kostnaðarverði. Vaxtalækkunin og lenging lánstímans getur orðið mjög þýðingarmikil, einkum vegna þess, að þegar lagt er í íbúðarbyggingar á dýrum tíma, þá er hægt að létta mönnum byrðina af hinum dýru íbúðum með því að lengja lánstímann. Má t. d. nefna, að árgjaldið af 60 þús. kr. íbúð af láni til 42 ára með 2% vöxtum er 1770 kr., en var fyrir breytinguna 2400 kr. Með því að hækka sjóðinn svo mjög sem hér hefur verið gert, má til dæmis nefna, að sé lánsfjár aflað með 4% ársvöxtum til 55 ára og útlán veitt til sama tíma með 2% vöxtum, verður árleg meðgjöf kr. 1,51 með hverjum 100 kr., og nægja þá árlegar tekjur byggingarsjóðsins til meðgjafar með láninu, er nemur 126 millj. og 490 þús. kr. Nú er það síður en svo ætlunin að letja þá, sem geta lagt fram fé til bygginga. En hinsvegar eru þau ákvæði, sem lögfest hafa verið, þess eðlis, að þau hljóta að hvetja þá, sem eitthvað geta lagt af mörkum, til þess að leggja sig alla fram til að eignast þak yfir höfuðið.

Annar kafli laga þessara er um samvinnubyggingarfélög. Helzta breytingin, sem gerð hefur verið á þeirri lagasetningu, er sú, að nú eru leyfð fleiri en eitt félag á hverjum stað og aukin heimildin til ríkisábyrgðar úr 60% í 75% af kostnaðarverði húsanna. Þá eru jafnframt lögfest ákvæði til þess að hindra spákaupmennsku með hús þau, sem byggð eru af samvinnubyggingarfélögum. Þessir tveir fyrstu kaflar laganna eru byggðir á þeirri reynslu, sem fengizt hefur með núverandi löggjöf. Og þar sem sú löggjöf hefur þegar borið góðan árangur, má treysta því, að nú, þegar búið er að auka til muna hlunnindi þau, sem áður hafa verið ákveðin með þessum lögum, þá muni þau koma að miklu betri notum en áður og byggingar eftir þeim aukast að miklum mun.

Með 3. kafla laganna er ætlað að útrýma heilsuspillandi íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum. Er þetta algert nýmæli í íslenzkri löggjöf og þess efnis, að ríki og sveitarfélög hlaupa undir bagga með þeim, sem búa í heilsuspillandi íbúðum og geta ekki bætt úr húsnæðisleysi sínu á nægilega skömmum tíma. Ber sveitarstjórn skylda til að ráða bót á húsnæðisvandræðum og nýtur hún til þess aðstoðar ríkisins. Ætlazt er til, að skýrslum sé safnað um heilsuspillandi íbúðir í kaupstöðum og kauptúnum. Og þegar sveitarstjórn hefur fært félmrn. sönnur fyrir því, að nauðsyn sé slíkra íbúðarbygginga, mun ríkissjóður lána slíku sveitarfélagi 75% af byggingarkostnaði til 50 ára með 3% ársvöxtum. Auk þess leggur ríkissjóður fram 10% af byggingarkostnaði, en sveitarstjórn 15%. Stefnt skal að því að útrýma heilsuspillandi íbúðum á eigi lengri tíma en fjórum árum.

Fjórði kafli frv. er einnig algert nýmæli. Er þar svo kveðið á, að meðan skortur er á íbúðum í landinu og erfiðleikar um innflutning byggingarefnis, skuli viðskiptaráð, meðan það starfar, ella sú stofnun, sem ríkisstj. ákveður, segja til um, hvernig byggingarefni verði notað, sem flutt er til landsmanna, og enn fremur hverjar byggingar skuli ganga fyrir um byggingarefni. Þá er einnig ákveðið, að byggingarfélag, sem kemur á sameiginlegum innkaupum á byggingarefni fyrir félagsmenn sína, skuli hafa sama rétt og aðrir innflytjendur byggingarefnis til þess að fá innflutningsleyfi og fá keyptan gjaldeyri. Það hefur verið fundið að lögum þessum, að ekki sé gengið frá því í frv. sjálfu, hvar taka skuli fé til þessara bygginga. Er þar því til að svara, að meðan erfitt var um lánsfé í landinu, dugði ákvæðið um ríkisábyrgð til þess að byggingarsjóðurinn fengi fé til framkvæmda. Nú er óvenjulega mikið um fé manna á milli í landinu, og verður því að teljast líklegt, að ríkisábyrgð geti ekki komið að sömu notum og áður, ekki sízt þar sem vitað er, að aðalbankastjóri Landsbankans, sem jafnframt hefur verið formaður byggingarsjóðs verkamanna frá byrjun, hefur ætíð verið byggingarfélögunum mjög innan handar um lánsútvegun.

Þá hefur það og verið fundið að lagasetningu þessari af hálfu framsóknarmanna, að of mikill munur væri gerður á réttindum manna, og kemur þar fram hin nýja stefna, sem Framsfl. er farinn að prédika, ef einhver munur er gerður á fátækum og ríkum, — að sá munur sé óréttlátur. Með lagasetningu þessari tel ég, að stigið sé mjög stórt spor í þá, átt að auka húsnæði manna í landinu og útrýma húsnæðisleysi, og er það meginatriðið. Hins vegar er það verkefni fyrir þá, sem mynda félögin, að koma því í framkvæmd að gera húsbyggingar ódýrar. Er það auðvelt á þann hátt að auka tæknina við húsbyggingar og enn fremur þarf að komast að sameiginlegum innkaupum í stórum stíl fyrir byggingarfélögin. Hvort tveggja er hægt að gera með frjálsum samtökum, án þess að nokkur lagasetning komi til, og er það verkefni þeirra, er félögin stofna, að hraða framkvæmdum þessa máls, þegar Alþ. hefur veitt þá miklu aðstoð, svo sem gert er með lögum þessum.

Þó að undarlegt megi virðast, beitti formaður Framsfl., hv. þm. Str., sér mjög á móti þessari lagasetningu, einkum af þeirri ástæðu, að hann taldi, að hún væri óréttlát í garð þegnanna. En annað veifið hefur þessi sami hv. þm. haldið því fram, að frv. hefði verið hnuplað frá sér! Komst hv. þm. Str., Hermann Jónasson, svo að orði um þetta í útvarpsumræðum frá Alþ. 11. des.: „Framsfl. flutti frv. um byggingarsjóði. Því var ekki sinnt. En eftir nokkra daga kom fram frv. frá dómsmrh. Þegar svo farið var að lesa þetta saman sást, að frv. var svo að segja grein fyrir grein eins og það frv., sem ég hafði lagt fram, og prentvillurnar og skekkjurnar með.“ Ráðaleysi Framsfl. í stjórnarandstöðunni komur berlega fram í þessum ummælum, þegar þau eru borin saman við þá deilu, sem stjórnarandstöðublaðið Tíminn hefur öðru hvoru haft í frammi gegn þessu máli. Formaður flokksins beitir sér á móti málinu á Alþ., en vill eigna sér sjálfum málið í útvarpsumræðunum!

Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, lagði í ræðu sinni mikla áherzlu á, að ríkisstj. hefði brugðizt loforðum, sem hún hefði gefið um húsnæðismálin. Ríkisstj. hefur engin loforð gefið. Um þetta var aldrei samið þegar ríkisstj. var mynduð. Ríkisstj. er því hér að framkvæma mál utan við stjórnarsamninga og efna meira en lofað var. En hvað gerði þm. Str. í þessum málum meðan hann sat í ríkisstj. frá stríðsbyrjun og þangað til í júní 1942? Bókstaflega ekki neitt. Öll spákaupmennska, brask og spilling í húsaleigu og húsasölu stafar frá stjórnartíð Hermanns Jónassonar. Núv. ríkisstj. er því að reyna að bæta fyrir vanrækslu þessa þm. meðan hann sat í ríkisstj., og ætti hann því að vera þakklátur fyrir, að svo er gert, en ekki að fjandskapast gegn málinu.

Þó að húsbyggingalögin séu mjög veigamikil og eitt hið merkasta mál, sem afgreitt hefur verið á Alþingi á seinni árum, þá eru lögin um almannatryggingar enn þá þýðingarmeiri. Þau lög voru nú afgreidd í dag á Alþ., og með þeim er fengin hin mesta réttarbót, sem á einu þingi hefur verið lögfest til handa alþýðunni í landinu. Og vona ég, að það viti á gott, að lög þessi voru afgreidd um sumarmálin.

Það er kunnugt, að Alþfl. hefur háð stöðuga baráttu til þess að bæta kjör og auka réttindi ekkna, munaðarlausra, fátækra, ellihrumra og sjúkra. Í þessari baráttu Alþfl. á Alþingi hafa mörg spor verið stigin og misjafnlega stór. Alþýðutryggingalögin, sem gengu í gildi 1936, voru mjög stórt spor. Þau lög voru afgreidd í samvinnu við Framsfl., og þurfti að beita mjög hörðu við hann til þess að fá hann til að uppfylla gerða samninga. Var það þó aldrei gert að fullu og látið undir höfuð leggjast að afgreiða atvinnuleysistryggingar, sem þó hafði verið lofað í samningum. Síðan hafa miklar umbætur verið gerðar á alþýðutryggingalögunum, og einna mestar árið 1943. En afgreiðsla almannatryggingalaganna á þessu þingi er þó langstærsta skrefið, sem stigið hefur verið í þessum efnum, og markar tímamót í tryggingamálum hér á landi. Lögin eru þó ekki eins fullkomin og Alþfl. hefði óskað, og enn fremur vantar í þau kafla um atvinnuleysistryggingar og atvinnustofnun ríkisins, enda var sá kafli eigi tilbúinn af hálfu mþn. fyrir þingið. Enn fremur er ýmislegt í þessum l., sem Alþfl. hefði heldur viljað láta vera rífara en lögin segja. En þó verður með þessari lagasetningu að mörgu leyti létt af mönnum þeim ótta, sem þeir bera fyrir afleiðingum af ellilasleika, veikindum og slysum.

Ég mun ekki fara út í þetta mál í einstökum atriðum. Hv. 3. landsk. þm., Haraldur Guðmundsson, sem mest allra manna hefur unnið að tryggingamálum landsins, fyrst með margra ára starfi á Alþ., síðar með forstjórn Tryggingastofnunar ríkisins og enn í mþn. að undirbúningi þessara 1. og síðan mestallan þingtímann, mun í umr. annað kvöld skýra lög þessi í einstökum atriðum. Ég vil þó að þessu sinni geta þess, að núverandi kostnaður til þessara mála, sem frv. er ætlað að taka yfir, er sundurliðaður þannig : Einstaklingar greiða 13,1 millj., atvinnurekendur 4,2 millj., sveitarfélög 10,3 millj., og ríkissjóður 12,4 millj., eða alls um 40 millj. En með lögum þeim, sem Alþ. hefur nú afgreitt um almannatryggingar, skiptist kostnaðurinn þannig: Hinir tryggðu greiða 20,5 millj., atvinnurekendur rúmar 11,5 millj., sveitarfélög um 13 millj. og ríkissjóður rúmlega 21 millj. — eða alls áætlast útgjöldin samkvæmt almannatryggingalögunum um 66 millj. Hækkun frá núverandi kostnaði einstaklinga 60%, atvinnurekenda 181%, sveitarfélaga 30% og ríkissjóðs 75%.

Jafnvel þótt eflaust megi margt að þessum lögum finna, standa þau til bóta og er hér um eitt hið merkasta mál að ræða. sem nokkurn tíma hefur verið afgreitt frá Alþ. Afstaða flokkanna hefur verið sú, að Sjálfstfl. hefur fallizt á frv. eins og það var lagt fyrir Alþ. í höfuðatriðum, en þó bundið fylgi sitt því skilyrði, að lækkuð yrðu hin áætluðu árlegu útgjöld ríkisins til trygginganna um 3–4 millj. kr. og enn fremur, að ábyrgð ríkisins af framkvæmd laganna yrði takmörkuð. Hefur það orðið til þess, að felldur var niður útfararstyrkur, lækkaður að nokkru leyti ekknastyrkur, og enn fremur var fellt niður framlag til Atvinnustofnunar ríkisins, sem áætlað var 3 millj. kr. í hinu upprunalega frv. Hins vegar hefur verið hækkað nokkuð framlag til ekkna, sem komnar eru yfir fimmtugt, og bætt við í hóp þeirra, sem sjúkradagpeninga hafa, atvinnurekendum, sem að mestu byggja atvinnu sína á eigin vinnu.

Að gefnu tilefni frá hv. 11. landsk., Sigurði Thoroddsen, hlýt ég að gera afstöðu Sósfl. að umtalsefni. Sósfl. hefur í Ed. fallizt á kröfur Sjálfstfl. um að minnka framlag ríkisins til trygginganna og jafnframt flutt ásamt öðrum nm. úr meiri hl. félmn. till. um að binda ábyrgð ríkisins við ákveðna upphæð, 7,5 millj. kr. Eftir að þetta hafði verið gert, fluttu fulltrúar Sósfl. á Alþ. hækkunartill., sem nema mundu um 10 millj. kr. á gjöldum Tryggingastofnunarinnar, og till. til lækkunar á tekjum hennar, sem nema mundi um 3 millj. kr. Þar sem flokkurinn hins vegar hefur lýst sig fylgjandi frv., verður þessi afstaða að teljast í fyllsta máta ábyrgðarlaus.

Framsfl. hefur hins vegar á Alþ. tekið afstöðu á móti frv. og gert tilraun til þess bæði í efri deild og í neðri deild Alþingis að fá því vísað frá með rökst. dagskrá. Hefur hann sýnt eindæma óvild gegn þessari lagasetningu, og sýnir sú afstaða bezt þá breytingu, sem orðið hefur á flokknum frá því að hann lét til leiðast að setja alþýðutryggingalögin árið 1936 með Alþfl. Afstaða Framsfl. gegn tryggingamálunum markast einna bezt af nál. formanns Framsfl., hv. þm. Str., á þskj. 795, þar sem hann telur upp ýmislegt, sem breytt er til batnaðar frá núgildandi lögum, svo sem auknar slysatryggingar, auknar ellitryggingar, víðtækari barnatryggingar, heilsugæzlu og fleira, en leggst þrátt fyrir það á móti samþykkt frv. Afstaða þm. kemur glögglega fram í nál. hans á þskj. 795. Þar segir hann meðal annars : ,„Þá er og rétt að benda á það, að með þessari löggjöf er þjóðartekjunum skipt svo mjög, að líklegt er, — að ekki sé sagt víst, — að til þess að það atriði verði framkvæmanlegt, þurfi að gera víðtækar ráðstafanir á núverandi fjármálakerfi þjóðarinnar.“ Er hér enn komið að hinni nýju stefnu Framsfl., að telja það þjóðarnauðsyn, að sem mestum mun verði haldið á fátækum og ríkum og tekjujöfnun hættuleg. Annars er ótti hv. þm. í sambandi við það áhugamál sitt og almannatryggingarnar alveg ástæðulaus. Ég hef áður sýnt fram á, að öll áætluð hækkun vegna laganna um almannatryggingar nemur um 26 millj. kr. árlega og skiptist á hina tryggðu, sveitarfélög, atvinnurekendur og ríkissjóð. Hér af er hækkun ríkisins eins um 9 millj. kr. árlega. Ekki er þetta nein eignajöfnun, þó hún geti komið mörgum, sem annars yrðu nauðstaddir, til góða, og ekki ætti upphæðin sjálf að skelfa Framsfl. Eða skyldi hv. þm. ekki muna eftir því, að á einu ári voru bændum landsins greiddar 26 millj. kr. í uppbætur á landbúnaðarafurðir úr ríkissjóði og ekki þurfti neinnar sérstakrar aðgerðar á fjármálakerfi landsins til þeirra ráðstafana. Þessi upphæð er tilfærð á landsreikningi fyrir árið 1943 og raunar gerð tilraun til að fela hana. Afstaða Framsfl. í þessu máli brýtur berlega í bága við hagsmuni alþýðunnar í landinu og sýnir hið ótrúlega fálm stjórnarandstöðunnar.

Aðeins tveir framsóknarmenn á Alþingi gerðust til þess að greiða frv. atkvæði. Voru það hv. þm. N.-M., Páll Zóphóníasson og Páll Hermannsson. Lét hv. 1. þm. N.-M., Páll Hermannsson, svo um mælt, að hann greiddi atkv. með frv., af því að með því væri stofnað til nýs þjóðfélags. Ég tel þetta of mikið sagt hjá hv. þm. N.-M., því að vissulega er ekki stofnað nýtt þjóðfélag með lögum um almannatryggingar, þó að samþykkt laganna auki mjög öryggi allra þeirra í þjóðfélaginu, sem verða fyrir óhöppum eða sjúkdómum, elli eða ómegð, og verða þannig til þess að bægja óttanum frá dyrum margra þeirra, er lítils mega sín og engum auði hafa safnað. Alþfl. hefur með samþykkt laganna náð ágætum árangri í margra ára baráttu fyrir því að útvega mönnum réttindi fyrir náðarbrauð og Alþingi Íslendinga er sómi að því, að okkar endurreista lýðveldi hefur sett tryggingalöggjöf, sem að atvinnuleysistryggingunum undanskildum jafnast á við það bezta hjá nágrannaþjóðunum.

Alþýðan á Íslandi hefur með margra ára baráttu eignazt réttinda- og félagsmálalöggjöf, sem er hin víðtækasta, er þekkist. Það er verkefni hennar að standa vörð um þessi réttindi og auka þau og efla, svo að land okkar verði jafnan fremst í flokki annarra í þessu efni. Ef við skörum fram úr öðrum á þennan hátt, þá er vel farið.