19.10.1945
Neðri deild: 11. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (4393)

27. mál, hafnargerð í Hornafirði

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er shlj. frv., sem flutt var á síðasta þingi. Felur það í sér tvær breyt. á þeim 1., sem nú gilda um þetta efni, í fyrsta lagi að gefa heimild til að hækka framlag það, sem varið er til hafnarbóta á þessum stað. Er það orðið óhjákvæmilegt, vegna þess að þarna þarf að hefjast handa um allstórfelldar framkvæmdir, en þegar sú áætlun var gerð, sem upphæðin var miðuð við, hafði vitamálastjórnin ekki lokið þeirri rannsókn, sem nauðsynleg var á hafnarstæðinu, og fyrir lá þá ekki sú áætlun, sem síðar hefur komið fram um þetta.

Eins og öllum er kunnugt, er Hornafjörður mikil útgerðarhöfn. Þarf ekki annað en að líta á verzlunarskýrslur síðustu ára til að sannfærast um, að þessi staður er mjög ofarlega í röðinni sem útflutningshöfn á landinu.

Í öðru lagi er lagt til í þessu frv., að hluti ríkissjóðs til hafnargerðarinnar verði nokkru ríflegri en ákveðið er í gildandi 1., og er sú till. fram komin með tilliti til þess, að Hornafjörður er allsherjarfiskihöfn heils landsfjórðungs á vetrarvertíðinni.

Að öðru leyti læt ég mér nægja að vísa til grg., sem fylgir frv., og fskj., sem prentað er á þskj. 27.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.