10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Þótt þetta mál fari sennilega til þeirrar n., sem ég á sæti í, þykir mér rétt að fara um það nokkrum orðum við 1. umr.

Hæstv. landbrh. lét í ljós, að þetta frv. skyldi koma í stað þeirra ákvæða, sem gilt hafa um verðlagningu landbúnaðarafurða. Nú er það samt skoðun margra, að vafasamt sé, hvort hin fyrri verðlagsákvæði séu úr gildi fallin. En um þau er komizt svo að orði, að þau skuli gilda meðan núverandi styrjaldarástand helzt. Og hvaða ástand var það, sem orsakaði þetta? Markaðir voru lokaðir, nema enski markaðurinn, og innanlands var ástandið þannig, að erfitt var að keppa við erlenda framleiðslu. Þetta voru ástæðurnar, sem urðu til þess, að þessi lög voru sett, og ég held, að breytingin á þessu ástandi sé næsta lítil. Þýzkaland og Norðurlönd eru lokuð enn þá og örðugt um sölu til Danmerkur. Aðeins er opinn enski markaðurinn, eins og áður, og ástandið innanlands algerlega óbreytt. M. ö. o.: Ég sé ekki betur en ástand það, sem skapaði þessi lög, sé algerlega óbreytt. Hæstv. ríkisstj. virðist líta öðruvísi á þetta mál og hefur nú numið úr gildi fyrri ákvæði um þessi mál.

Ég hefði talið einsætt, að þetta mál hefði verið látið falla í fyrri farveg, en ekki gerð sú gagnbreyting, sem nú er raun á orðin. Á síðari árum vaknaði óánægja hjá bændum út af því, hve veikan þátt bændur áttu í verðlagningu landbúnaðarafurða. Þeir undu þessu þó sökum þess, að vel var á þessum málum haldið, en hefðu þó kosið að fá meiri íhlutun. Óhætt mun að segja, að þessi óánægja hafi aukizt eftir að þing og stjórn urðu ráðþrota og urðu að kasta flækjunum til bænda. Þannig var það þegar 6 manna n. var stofnuð, en hún leysti verk sitt af hendi þannig, að allir voru ánægðir, eins og kunnugt er, og ekki síður bændur en aðrir, þótt þeirra hlutur væri ekki of stór. En þeir undu því vel, að sú lausn var fundin, sem bæði framleiðendur og neytendur höfðu gengizt undir. Eftir að Alþingi 1944 hafði gefizt upp og leitaði til bændastéttarinnar og hún tók því eins vel og menn mega muna á búnaðarþingi í fyrra haust, fór sú krafa vaxandi, að bændur fengju að ráða þessum málum sjálfir. Það var þess vegna ekki í sjálfu sér nein goðgá að breyta þessu frá því, sem var, en ég þori að fullyrða, að bændur urðu bæði hryggir og reiðir, þegar ljóst varð, hvernig hæstv. ríkisstjórn framkvæmdi þá breytingu.

Nú segir hæstv. landbrh., að hann hafi orðið við kröfum bænda, þar sem bændur ráði þessu nú sjálfir. Ég held, að ekki þurfi að ræða þetta mál lengi til að ljóst verði, að verðlagningarvaldið er í höndum þess manns, sem skipaði þá menn, sem nú teljast fará með þetta vald. Eða hvað mundu verkamenn segja um slíkt? Mundu þeir segja, að verklýðsstéttin hefði ráðin, ef þannig væri farið að við þá? Hvað mundu sjómenn segja um slíka lausn á þeirra deilum, sem nú standa yfir? Ég held, að þeir mundu ekki telja sig hafa ráðin, ef þannig væri að þeim búið.

Ég ætla ekki að segja neitt um þá menn, sem eiga að heita fulltrúar bænda í búnaðarráði, en ég held, að ekki þurfi að athuga þetta mikið til að sjá, að margir þeirra hefðu aldrei verið þangað kjörnir af bændum. Þetta er ekki hægt að sanna nema óbeint. En ef við lítum á þá menn, sem bændur yfirleitt velja, þá fáum við eina sönnun þess, að þessir menn eru ekki fulltrúar bænda. — 6 manna n. verðið vakti vonir um, að fundinn væri nokkur grundvöllur, sem byggja mætti á að minnsta kosti að því er varðaði innanlandsverðið. Nú hefur verið horfið frá því að leggja þetta verð til grundvallar og vitnað í, að búnaðarþing hafi samþ. hið sama í fyrra. En þess ber að gæta, að þá var tilskilið, að bændum yrði tryggt sama verð fyrir útfluttar afurðir. Það var eins konar verzlun, sem bændur gátu haft hag af. Nú er þetta ekki svo. Það er sleppt 9,4% af því verði, sem bændur áttu kröfu til, og þetta þótt gengið hafi yfir eitt hið versta sumar hér sunnan og vestan lands, og kemur það vitanlega niður á aðalframleiðsluvöru bænda á þessum svæðum. Mætti líkja áhrifum þessa sumars á afkomu bænda við aflabrestinn á síldarvertíðinni. Samt er ákveðið að lækka afurðaverð þeirra þetta mikið frá því, sem það var samkv. 6 manna n. álitinu, þar sem miðað var við sömu kjör og verkamenn hafa. Þannig er kaup bænda lækkað á sama tíma og aðrar stéttir halda sínum tekjum eða fá þær hækkaðar.

Mér virðist þetta svo hatramleg meðferð, að furðu sæti. Taka fyrst af þeim verðlagningarvaldið og lækka síðan kaup þeirra. Og ég er þess fullviss, að bændur munu ekki þola slíka meðferð. Þetta er sérstaklega hart vegna þess, að bændur munu vera sú stétt, sem gædd er mestum félagsþroska. Þótt gengið væri fram hjá búnaðarþingi með þetta, þá setti það á stofn stéttarsamband bænda, sem tók til starfa í sumar og mun eflast í framtíðinni. Tel ég einsætt, að þetta stéttarsamband fái verðlagningarvaldið í sínar hendur. Ég mun láta þetta nægja um sinn, nema tilefni gefist.