07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (4455)

103. mál, húsaleiga

Flm. (Hermann Jónasson) :

Ég bjóst ekki við því, að hv. þm. mundi taka þessum leiðbeiningum, og vissi ég það, að íslenzka máltækið, sem allir þekkja, það hefur rétt fyrir sér, eins og fleiri gömul íslenzk máltæki. En viðkomandi þessu, sem hann sagði um slúðursögur, geta menn séð sannleiksást hv. þm. Hann segir, að ég vilji afnema húsaleigul. nú þegar til þess að koma stj. í vanda, alveg þvert ofan í það, sem ég tók hér fram í viðurvist allra, sem hér eru viðstaddir, og þegar hv. þm. segir ósatt um þetta atriði í margra votta viðurvist, hverju getur maður þá ekki búizt við af hv. þm., þar sem hann kemur sér við og ekki eru vitni viðstödd. Annars, hvort sem hann hefur sagt þetta um þá eða ekki, þá er það alveg vitað mál, að þetta er satt, því að hann staðfestir það hér með því að segja, að ég mundi vilja afnema húsaleigul. til þess að koma stj. í vanda, hann endurtekur þau ummæli, sem hann sagðist ekki hafa sagt á fundinum. Ég vænti þess, að hv. þm. skilji þetta og muni, hvað hann var að ljúka við að segja. Slúður okkar ætlaði ég ekki að fara að minnast á. Við segjum margt, sem er ekki eins og það ætti að vera, en aldrei hef ég enn verið dæmdur né nokkur annar þm. eins og þessi hv. þm., sem var dæmdur í hálft þriðja þúsund króna sekt fyrir slúðursögu, sem hann hafði um mig. Ég hafði ekki svo mikið við að birta þetta, vegna þess að það var fullkomlega ljóst þeim fyrir vestan, vegna þess að þeir telja það enga nýlundu, þó að þeir fái það staðfest með dómi. Það vita allir, að hv. þm. er ekki sérstaklega áreiðanlegur, og því miður auðsjáanlega ekki hægt að kenna honum það héðan af. Um lokaða fundi og ólokaða á hann auðvitað við ummæli, sem ég hafði eftir honum af lokuðum þingfundi hér, þar sem borið var upp, hvort ætti að skýra þjóðinni frá efni fundarins. Síðan var birt efni hins lokaða fundar daginn eftir, og þess vegna er þetta orðið opinbert mál. En hvort þar hefur verið sagt rétt eða rangt frá, þá vitna ég til samþm. minna. Og það mætti kannske dálítið ráða af því, hvor okkar fer betur með heimildir, þegar hv. þm. leyfir sér hér að koma fram og ásaka mig fyrir það, að ég hafi ekki farið rétt með í viðurvist þeirra manna, sem hann talaði um og umræðurnar heyrðu. En þetta sýnir meðal annars samvizkusemi af vissri tegund, sem fáir þm. munu óska sér til handa, eða þá vöntun á einhverju öðru í dómgreind þessa hv. þm, sem ég ætla ekki að gera skóna hvað er. Eins og þetta með bátana. Að hugsa sér að koma með svona rök. Það hafi dregizt bátasmíðin í Svíþjóð, og af því geti menn séð, að ekki sé rétt að fela sænskum mönnum að setja upp húsin. Veit hv. þm. ekki, af hverju drátturinn stafar? Veit ekki allur heimur um verkfallið í stáliðnaðinum í Svíþjóð? Ég þarf ekki að fara út í að ræða samningana um bátana. Það var dómsmrh., sem kom með þau tilboð frá Svíþjóð, og sendiherrann í Stokkhólmi fór eftir tilvísun dómsmrh. um það, hvar bezt væri að fá þessi skip.

Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég skal aðeins að lokum segja þetta viðkomandi því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði : Hann segir, að það eigi að rannsaka ýmislegt, og taldi það upp. Ég hef áður gert grein fyrir því, að það er fljótgert að framkvæma allt það, sem talið er upp í þáltill. Það er viku verk að vita, hver húsnæðisskorturinn er. Það er ekki annað en ganga á bæjarskrifstofurnar og sjá, hvaða hús er verið að byggja. Það er reikningsdæmi eftir eina viku að sjá, hver húsnæðisskorturinn er. Ég vil ekki vera að þreyta hæstv. Alþ. með upptalningum, en á því er enginn vafi að allt þetta er hægt að framkvæma á stuttum tíma og áður en byggingar hefjast í vor. Og að lokum þetta: Það kann að þykja ósanngjarnt gagnvart húseigendum að gera þetta áður en húsaleigul. eru afnumin. en þeir munu fá að þreifa á því, að l. verða ekki afnumin fyrr en búið er að bæta úr húsnæðisskortinum, og þess vegna á að gera þessar ráðstafanir, sem auðvelt er að gera í sumar, og með því eina móti, að þetta sé framkvæmt í sumar, verður hægt að afnema húsaleigul., þegar við komum saman á þing í haust. En að leggja fyrir rannsókn í haust um það, hvað þurfi að gera til þess að bæta út húsnæðisskortinum, það þýðir það, að framkvæmdir eru útilokaðar, og þannig verður auðvitað farið með málið. Þetta er sá stóri munur á þessum tveim aðferðum.

Ég ætla svo ekki að orðlengja um þetta frekar, en aðeins segja það að lokum við hv. þm. Barð., að ég vil enn gefa honum eitt ráð. Það er ekki leiðin að reiðast við þm. eða aðra, þótt haft sé rétt eftir þeim það, sem þeir segja, hvort sem það er á fundi í fasteignaeigendafélaginu, lokuðum eða ólokuðum fundum í Alþ. Bezta ráðið er að hugsa meira og tala ekki af sér.