26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (4494)

50. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. allshn. hefur þegar skýrt frá, hefur það orðið ofan á í n. að leggja til, að að þessu sinni væri ekki veittur íslenzkur ríkisborgararéttur neinum af þeim mönnum, sem hafa sent umsóknir um ríkisborgararétt, öðrum en þeim, sem eru Íslendingar eða af íslenzku bergi brotnir. Hins vegar liggja hér fyrir umsóknir frá allmörgum exlendum mönnum, og það hefur ekki annað komið fram en að þeir uppfylli þau skilyrði, sem lögum samkv. eru sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, mun það hafa verið nokkurn veginn algild venja undanfarið að veita ríkisborgararétt þeim, sem um hann hafa sótt og uppfyllt hafa þessi skilyrði. Þrátt fyrir það, þó að meiri hl. n. hafi nú viljað víkja frá þessari venju og færi fyrir því þau rök, sem hv. frsm. gerði hér áðan, þá hef ég og hv. 1. þm. Eyf. þó talið ástæðu til að halda venjunni einnig nú, og höfum við leyft okkur að flytja till. um það að veita ríkisborgararétt, auk Íslendinga. einnig þeim erlendu mönnum öllum, sem um hann hafa sótt og uppfylla þau skilyrði, sem lögum samkv. eru sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar til erlendra manna. Hv frsm. gat þess, að flestir þeirra útlendinga, sem hér eiga hlut að máli, hefðu á sínum tíma orðið að hrökklast frá föðurlandi sínu ýmist af pólitískum ástæðum vegna ofsókna gegn þeim eða af ofsóknum gegn þeim af öðrum ástæðum, t. d. vegna þess, að þeir væru af kynflokki, sem ekki átti griðland í viðkomandi landi á þeim tíma. Þó að ég þekki þetta fólk ekki persónulega, flest af því, þá geri ég ráð fyrir því, að þetta sé rétt, — að ástæðurnar til þess að þetta fólk er hingað komið séu þær, að það hafi orðið af þessum ástæðum að hrökklast frá föðurlandi sínu og síðan orðið að dveljast hér í 10 ár og innt af höndum nytsöm störf í þágu þessa þjóðfélags. Þegar þetta fólk nú óskar eftir því að fá að öðlast hér ríkisborgararétt, að því er gert er ráð fyrir með það fyrir augum að halda áfram búsetu hér á landi og halda áfram þeim nytsömu störfum, sem það hefur starfað að undanfarið, þá finnst mér í rauninni alveg sjálfsagt, að orðið sé við slíkri beiðni, að þeim verði veittur ríkisborgararéttur. Gæti hver litið í sinn eigin barm og séð, að menn þessir hafa átt við ýmis óþægindi að stríða vegna þess, af hvaða ástæðum þeir eru hingað komnir. Og „faktískt“ talað eiga sumir þessara manna engan ríkisborgararétt, að því er telja má sökum núverandi ástands. Hér ber að athuga, að ýmsir þeirra eru frá Þýzkalandi, en þar er nú ekki ríki. Því fylgja vitanlega óþægindi, ef menn þessir ætla að ferðast milli landa án allra skilríkja. Þess vegna held ég, að það sé ekki rétt hjá hv. frsm. n., hv. 9. landsk., að það mundi ekki valda þeim neinum óþægindum, þótt dragist til næsta þings að veita þeim ríkisborgararéttinn og þeir fengju hann ekki í sumar. Ég er á alveg gagnstæðri skoðun. Má telja, að óþægilegt sé fyrir hvern sem er að fá hvergi ríkisborgararétt. Ég álít, að einmitt þær ástæður, sem til þess urðu, að menn þeir, er hér um ræðir, leituðu hingað og beiddust landsvistarleyfis, geri það enn frekar sjálfsagt, að íslenzka ríkið bregði nú skjótt við og veiti ríkisborgararéttinn, enda hafa mennirnir sótt um hann. Réttur þessi er þeim nauðsynlegur, og þess utan hafa þeir unnið hér ýmis mikilvæg störf.

Ég vil mælast til þess fyrir mína hönd og hv. 1. þm. Eyf., að hv. þdm. taki til athugunar, hvort ekki sé ástæða til að sýna mönnum þessum þegar þá gestrisni að veita þeim ríkisborgararétt, en sú veiting verði þó háð skilyrðum íslenzkra laga.