29.04.1946
Neðri deild: 129. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (4512)

50. mál, ríkisborgararéttur

Þórður Benediktsson:

Herra forseti. Ég hef lagt fram brtt. í þessu máli á þskj. 1018. Frv. var afgr. úr Nd. fyrir viku og sent til Ed. Þar fékk það fljóta og illa afgreiðslu, eins og sést á þskj. 1003. Ed. hefur fellt úr frv. 18 menn, sem væru hverju ríki til sóma að hafa sem ríkisborgara. Allir vita, hver styrkur hverju ríki er í góðum þegnum. Ég veit ekki, hvort Ed. telur hvern þegn sem byrði á ríkinu. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að maður þekki alla þá, sem hér eru, en margt af því er ágætt fólk. Hér er t. d. Róbert Abraham söngstjóri, nokkrar Jósepssystur, nokkrir ungir námsmenn, rakari frá Ísafirði, húsgagnasmiður, tungumálakennari o. fl. Ég skora nú á d. að sýna ekki þann illvilja í garð mætra manna að samþ. ekki brtt. mína.