10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Jón Pálmason:

Ég þarf varla að svara hv. 2. þm. S.-M. miklu. Hann vill bera það saman, ef skipuð væri stjórn af útlendingum í einhverju ríki og þegar landbrh. skipar bændur til þess að fara með mál sín. Svona augljósa fjarstæðu þýðir ekki að bera á borð. Það er ekki mótsögn í því, þó að ég segi, að það sé ekki bændastéttin, sem ræður yfir málum þessum, en það eru engu að síður bændur. Svo má minna á það, að þeir, sem hafa farið með þessi mál, hafa haft sjónarmið, sem ekki hafa alltaf verið hagfelld fyrir bændur, og oft rekið þau þannig, að það hefur beinlínis verið á kostnað okkar bænda, og svo mundi einnig hafa farið, hefðu þeir hinir sömu skipað þessum málum áfram.