18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (4730)

170. mál, byggingareftirlit ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég get skilið það, að hv. þm. A.-Húnv., sem þekkir mistök þau sem orðið hafa í kjördæmi hans á Skagaströnd við byggingar, sem þar er verið að reisa, telji, að hann þekki mistök. Það er vitað, að timbrið var keypt miklu dýrara en þurfti, og er nú verið að semja um afslátt af áður umsömdu verði. Og þó áttu nefndir að sjá um þetta. Svona mistök eiga ekki að koma fyrir.

Í sambandi við það, hver eigi að bera kostnaðinn af byggingareftirlitinu, þá álít ég, að ekki sé hægt að segja við mann, sem fengið hefur erfðafestu á jörð og þarf að byggja þar upp: Nei, góði minn, það opinbera hefur eftirlit með þessu og þú verður að hlíta því, sem það segir, og borga allan kostnað við það. Ég held, að þetta sé ekki hægt að segja skv. l. um erfðafestu og óðalsrétt.