09.04.1946
Neðri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (4833)

212. mál, ljósmæðralög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. n. fyrir skýringar hans á þeim atriðum, er ég drap á, og hefur n. þá gert grein fyrir þessu. Mér skilst, að það standi til að halda áfram uppbótum til ljósmæðra, þó að aðrir hafi þær ekki. En nú er þetta ekki fram tekið í frv., og yrði það þá að vera á valdi ráðh., hvort því yrði framfylgt. Ég teldi því réttara að gera þessi ákvæði gleggri, að ljósmæður héldu þessum uppbótum.

Þetta er ekki stórt mál, en ég hef vakið máls á þessu til þess að fá skýrari línur. Ég vildi gjarnan varpa því fram, hvort n. vildi ekki fresta málinu í dag og athuga, hvort ekki væri ástæða til þess að gera þessi ákvæði alveg ótvíræð. Það eru þó mjög mikilsverðar upplýsingar frá hálfu n., að landlæknir og n. hugsi sér ekki að lækka laun ljósmæðranna.