26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Ásgeir Ásgeirsson:

Í fyrri ræðu minni hélt ég mér mest við þær till., sem fyrir liggja. Ég bar saman þær till., sem liggja hér fyrir frá hv. 2. minni hl. landbn., eða þeim hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Skagf. Ég sýndi fram á, að með þeim till. væri krafizt einræðis f. h. stéttarfélags bænda yfir verðlagsmálum þeirra. Hv. síðasti ræðumaður, sem er jafnframt tillögumaður, vék lítið að þessum till., sem fyrir þinginu liggja, en það, sem við hv. þm. þurfum að taka afstöðu til, eru einmitt þessar till. Hv. síðasti ræðumaður hélt því fram, að hér væri alls ekki verið að gera þær kröfur, að stéttarfélag bænda hefði einræði yfir verðlagsmálunum. Út af fyrir sig er þetta þakkarvert og sýnir, að það hafa verið gerðar of stífar kröfur. En ég skal þó til áréttingar lesa upp þessa till., sem nú liggur fyrir við 3. umr. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög þessi falla úr gildi frá og með 1. sept. 1946, og tekur þá stjórn stéttarsambands bænda ásamt fulltrúum frá sölufélögum landbúnaðarins samkv. reglugerð stéttarsambandsins við verkefnum þeim, sem búnaðarráð og verðlagsnefnd landbúnaðarafurða fer með samkv. lögunum, ef önnur lagafyrirmæli hafa þá ekki verið sett um framkvæmd þessara mála.“

Hér er ekkert undan skilið. Það er óskorað vald, sem enginn annar getur skipt sér af, hvorki Alþingi né ríkisstj. Hér er höfuðgallinn á þessu máli. Hér er stýrt svo hátt, að ekki er hægt að standa við það einu sinni í umr., hvað þá ef hv. tillögumenn kæmust í meiri hl. hér á þingi. Það er hægt að gefa þessi loforð, en það er ekki hægt að efna þau. Hv. þm. segir, að bændum sé að vísu leyft að rækta landið, en þeim sé alveg meinað að skipta sér af verðlaginu. En það er eitthvað annað en að skipta sér af verðlaginu, sem hér er heimtað. Hér er heimtað að ráða öllu óskorað án allra afskipta nokkurs annars. Það er í þessu, sem er gengið svo langt, að það er því líkast sem ríkisvaldið klofni, ef þetta vald ætti að vera í höndum stéttarfélags, um leið og það er einkasala á innlendum markaði, og ef þetta vald ætti að vera í höndum einhvers stéttarfélags, þá ræður ríkisstj. ekki lengur fjármálum ríkisins, því að hún hefur ekkert um það að segja, hvað mikinn styrk þurfi að borga til að halda atvinnuvegunum gangandi eða til að gera neytendurna skaðlausa eða til að halda vísitölunni niðri. Hún hefur ekkert um það að segja, sem mesta þýðingu hefur fyrir fjármálastjórn landsins.

Hér stendur nú svo sérstaklega á, að það er birt, hvaða kröfur eru gerðar f. h. bænda. Það kom fram í síðustu ræðu og hefur komið fram áður í þessum umræðum, að ef stéttarfélag bænda hefði í haust átt að ráða, hefði verðið verið hækkað um 20% frá því, sem áður var, 9,4% frá því í fyrra og svo 9,6% ofan á það nú, ég hef ekki tölurnar alveg návæmlega, en það er í kringum 20% samanlagt, og það er almennt vitað, að þetta þýðir það, að ef hefði átt að halda verðlagi óbreyttu frá því, sem nú er, þá hefði ríkissjóður þurft að greiða í þessu efni um 40 millj. króna. Það þarf því ekki að ganga í grafgötur um, hvert hefur verið stefnt í haust með þessum valdakröfum og hvert var ætlað að komast. Ef við gerum ráð fyrir, að neytendur séu kringum 80 þús., þá kemur þar á hvern neytanda 500 krónur, eða á hvert 5 manna heimili 2500 krónur, sem ríkisvaldið hefði átt að greiða til að halda niðri vísitölunni. Eitthvað er skakkt í öllu þessu, ef til vill í grundvallarútreikningnum, ef þetta er virkilega svona, að kaupgetan sjálf geti ekki klárað þetta verðlag, sem bændur þurfa að fá, á annan hátt en þann, að ríkisvaldið þurfi að kosta til 2500 krónur á hvert 5 manna heimili í landinu eða að kaupið hækki meira en nokkru sinni hefur þekkzt áður hjá þeim stj., sem við völd hafa setið. Og þó að vísitölunni yrði haldið niðri, þá væri þetta raunverulega sú hæsta vísitala og mesta kauphækkun, sem þekkzt hefði. Og þeir, sem eru með þessar kröfur hér, eru þó um leið aðalpostularnir, sem prédika um að færa niður dýrtíðina. Ef þessir menn fengju þessum kröfum sínum framgengt, þá væri þar með stigið það stærsta spor, sem nokkru sinni hefði verið stigið til að hækka dýrtíðina.

Hv. síðasti ræðumaður rökstyður það, að nú ætti að fela einni stétt einræðisvald í verðlagsmálunum, með því, að nú sé ekki lengur hægt að treysta landbrh. Áður hafa þeir þá treyst honum til að draga taum einnar stéttar, en nú væri það ekki lengur hægt og þess vegna þyrfti að gera þessa breyt., og breyt. er að kljúfa ríkisvaldið í tvennt, ef á að fá stéttarfélagi bænda, sem framsóknarmenn telja sig sjálfsagt vissa með að fá meiri hl. í, mikinn hluta ríkisvaldsins, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, en lofa stj., sem þingið setur, að hafa einhvern afgang, sem væri þó heldur máttlaus í öllum höfuðmálum. Ef það er svona, að það þurfi að kljúfa ríkið á sama hátt og varð, þegar Salómon dó og ríki Gyðinga klofnaði, hvenær sem Framsókn fær hvíld frá stjórnarstörfum, þá er lítið orðið eftir af okkar einingu. Menn verða að hafa það hugfast, að hagsmunir framleiðendanna og neytendanna fara saman, og það er ekki til frambúðar hægt að tryggja bændur með öðru en öruggri kaupgetu í kaupstöðunum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri, tími minn er að enda, en mér hefur þótt koma fram nokkuð skýrt við þessar umr. eins og áður, að þær kröfur, sem hér hafa verið gerðar, eru settar svo langt yfir markið, að þær verða ekki samþ. af neinum meiri hl., þó að þingmeirihl. breyttist eitthvað.

Þá er einnig á það að minnast, að þeir, sem halda fram þessum till., heimta ekki eingöngu, að stéttarfélag bænda eigi hér eitt öllu að ráða, heldur vilja þeir ákveða, að ríkissjóður greiði allan kostnað við stéttarfélag bænda. Hv. síðasti ræðumaður minntist þannig á það, að hann talaði um, að hv. þm. A.-Húnv. hefði verið hér með eitthvert austrænt eða austur-húnvetnskt lýðræði, þar sem hann taldi ekki sjálfsagt, að ríkissjóður innheimti stéttarfélagsgjöld bænda. Það hefur hingað til verið íslenzkt lýðræði að láta ríkissjóð ekki innheimta stéttarfélagsgjöld. Og þó að þessir hv. flm. telji þetta ekki hættulegt, þá gæti það samt orðið hættulegt fordæmi, því að ef það yrði látið viðgangast, þá ætti ríkisvaldið alveg eins að taka að sér að innheimta slík gjöld fyrir Alþýðusambandið og kalla það skatt, og svo yrði því fé varið til stéttarhagsmuna og mótstarfs gegn stj. og allra þeirra hluta, sem þeir gætu skipt sér af. Ég hygg, að affarasælast sé fyrir stéttarfélag bænda, þegar það verður stofnað, eins og önnur félög, að leggja áherzlu á að vera sem óháðast, en álíta ekki, að þingið eigi að vera nokkurs konar útibú frá þeirri stofnun.

Aðrar till. en þessar liggja ekki fyrir nú, en það eru til fleiri möguleikar að koma þessu fyrir. Eitt verður samt að gera sér ljóst, að stj. verður aldrei sleppt úr þessu, meðan svo miklar fjárkröfur eru gerðar til ríkissjóðs sem nú er gert.