12.10.1945
Efri deild: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (4896)

17. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Jónas Jónsson:

Ég held, að það sé að einhverju leyti misskilningur hjá hæstv. ráðh. að gera ráð fyrir, að ástæða sé til að bíða eftir þessu nefndarfrv., sem hann gat um, vegna þess að þeir, sem eru í þeirri n., eru ókunnugir þessum málum, hafa ekkert við þau fengizt og standa ekki í neinu sambandi skýru eða eðlilegu við þá krafta, sem hafa borið þessi mál fram hingað til. Ég ætla jafnframt að geta þess, að ég býst við, að fram komi önnur frv. innan skamms, nokkuð svipuð því, sem nú er borið fram vegna Reykjavíkur, til að fullkomna það kerfi, sem nú er komið á. Ég vil aðeins láta hæstv. ráðh. vita það til sannindamerkis um, hvað lítið gagn hefur verið að þessu nefndarfargani, að einn skóli var drepinn í fyrra fyrir tilstuðlan manna, sem eru nákomnir þessum hæstv. ráðh., þ. e. skólinn á Löngumýri í Skagafirði. N. sá ekki ástæðu til að láta hann lifa, en í fyrra voru 100 umsækjendur um þann skóla. Er það góður samanburður á áhuga þessara manna og þeirra, sem sækja vildu skólann. Ef hæstv. ríkisstjórn tekst að koma fram frv. af þessu tagi á þessu þingi, mun þurfa að lesa þau vandlega ofan í kjölinn, og ég hygg, að þau verði meira til skemmtunar en til gagns fyrir þjóðina.