30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (4912)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Jónas Jónsson) :

Eins og ég tók fram við 1. umr., er þetta frv. með nákvæmlega sömu ummerkjum og skilið var við það í þessari d. fyrir ári síðan. Fyrir óhapp náði það ekki samþykki í Nd., og er nú málið komið áleiðis aftur til Ed.

Ég býst við, að ekki þurfi að viðhafa miklar umr. um þetta, en þó vil ég aðeins nefna lauslega nokkra þá staði, sem hér um ræðir, og vil fullyrða, að á bak við hvert af þessum nöfnum stendur ákveðinn vilji til að hrinda skólunum áleiðis.

Skólinn á Hallormsstað er orðinn gömul stofnun, en bygginguna þarf nauðsynlega að stækka, og sama máli gegnir um skólann á Akri í Norður-Þingeyjarsýslu, þar er einlægur vilji á bak við, að þessu verði hrundið í framkvæmd. Laugar eru elztar af þessum skólum, og stendur þar til nokkur viðbótarbygging. Laugalandsskóli er ágæt stofnun, sem þarf að stækka. Skólinn nálægt Varmahlíð í Skagafirði er einkafyrirtæki, sem mjög dugleg ung kona byrjaði að reka á eign sinni, rétt hjá Varmahlíð. Þessi stofnun hefur verið svo góð, að þótt hún geti ekki tekið nema 20 stúlkur, bárust þangað 200 umsóknir. Blönduós er mjög gömul og virðuleg stofnun, og á Reykhólum stendur til að gera heilan skólabæ, og eru um það margar till. fyrir þinginu. Helgafell í Snæfellsnessýslu er gamall sögustaður, sem auk þess hefur áskotnazt veruleg fjárhæð að gjöf frá konu einni í Ameríku, sem hefur séð um skólann og gaf þessa fjárhæð til minningar um mann sinn. Þá er það skólinn við Stafholtsveggjahver í Borgarfirði, fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, og Laugavatnsskóli í Árnessýslu, þar sem fyrirhuguð eru mikil samskot, en ekki byrjað á þeim enn þá, Skógar í Rangárvallasýslu og Kirkjubæjarklaustur á Síðu. Þar er sjóðsmyndun mikil í sýslunni, sem bundin er við það, að komið verði þar upp kvennaskóla.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það var í fyrra.