06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (5009)

59. mál, byggingarlánasjóður

Flm. (Hermann Jónasson) :

. . . . . . Það hefur komið fram, að full þörf er á, þessu ákvæði, og það horfir áreiðanlega til bóta.

Ég hef þá rakið þá nýbreytni, sem felst í þessu frv. Það eru lægri vextir fyrir lántaka, það eru meiri fjárráð sjóðsins en áður, teiknistofa fyrir sjóðinn og réttur hans til innflutnings á byggingarefni. Ég er ekki í vafa um, ef frv. verður að lögum, á það eftir að bæta mikið um í kaupstöðum og þorpum, en það eru einkum þau svæði sem þetta frv. nær til. Ég vil jafnframt upplýsa, að þetta frv. er miðað við þá reynslu, sem fengizt hefur í sambandi við verkamannabústaði og samvinnubústaði, og samið af mönnum, sem hafa haft með þau mál að gera. En það hefur líka verið að nokkru sniðið eftir sænskri löggjöf um þetta efni, sem þar hefur reynzt mjög vel. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að frv. sé í engu ábótavant, heldur er ég fullviss, ef deildin og Alþingi vilja yfirvega það, má bæta það mikið, því að betur sjá augu en auga.

Ég vil einkum benda á, ef frv. færi í aðra nefnd en félmn., eins og ég hef ætlazt til, t. d. fjhn., þyrfti að lagfæra 9. gr. frv. — Ég mun nú ekki lengja mál mitt meir við þessa umr., en óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og félagsmálanefndar.