04.03.1946
Efri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (5050)

88. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Mig langaði aðeins til þess að gera fyrirspurn til hv. allshn. út af því frv., sem ég flutti um breyt. á l. um útsvör. Allshn. skilaði nál., þar sem hún leggur til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá þess efnis, að afgr. ekki frv. strax, þar sem verið sé að vinna að heildarendurskoðun útsvarsl. og ráðgert, að frv. um það efni verði lagt fyrir það Alþ., sem nú situr.

Eftir minni ósk tók n. málið til athugunar á ný, eftir að hæstv. félmrh. hafði lýst því yfir, að það verði ekki gert í bráð eða á því tímabili, sem um er að ræða, því að það verði ekki gert nema málið fari til mþn.

Nú vildi ég gjarnan heyra það frá hv. formanni allshn., hvað n. hugsi sér um, afgreiðslu þessa frv., hvort hún hugsi sér að bíða með það þar til mþn. hefur athugað það, eða láta það ganga fram nú þegar á þessu þingi.