12.03.1946
Efri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að tala mikið um þetta mál, en ræða sú, sem síðasti ræðumaður flutti, kom mér til að segja nokkur orð. Hv. 1. þm. Eyf. minntist á social-demókratiska glugga, sem sólina legði inn um til Alþfl. Það eru fleiri, sem hafa tekið eftir því, að þessir gluggar eru lokaðir. Í Alþýðublaðinu í dag er fullt af afmælisgreinum. Endar sú síðasta þeirra á þá leið, að Alþfl. hafi því miður gengið úr vistinni í bráðina. — Ég held, að afstaða Alþfl. í þessu máli sýni það greinilega, sem 1. þm. Eyf. tók fram, að Alþfl. er genginn úr vistinni, svo að það er engin tilviljun, að þessi grein birtist í dag.

Ég hef ekki heyrt öllu lélegri vörn fyrir málstað en síðustu ræðu hv. 3. landsk. — Hann segir það kost á lögunum, að verðlagningarvaldið sé í höndum ráðherra. Röksemdafærslan er sú, að þetta sé vegna þess, hvernig nú er ástatt um ríkisframlög til að greiða hluta af verði landbúnaðarafurða. Hv. þm. hlýtur að vita, að þetta eru ósannindi. Bændur hafa aldrei beðið um einn eyri af þessu framlagi. Þeir hafa þvert á móti samþ. á fundum, að þeir vildu vera lausir við það. Hvers hafa þeir óskað? Að fá að verðleggja sína vinnu og vöru og taka svo á sig skaðann, ef einhver yrði, það er einmitt í dag, sem neytendurnir eru að sækja framlag sitt, til að fá eins konar neyzlustyrk fyrir kjötið. Svo er annað, sem hv. þm. hefur ekki áttað sig á. Hann segir það eðlilegt, að verðlagningarvaldið sé í höndum ráðh., vegna þess að niðurgreiðslan sé í hans höndum. — En hér er annað frv. frá ríkisstj. til að greiða niður verð á saltfiski, og enn fremur till. um að greiða þær uppbætur til 1. okt. og enn fremur till. um að verðuppbæta freðfisk o. fl. Allt þetta er gert til þess að hægt sé að greiða verkamönnum kaup. En framleiðendurnir verða að biðja um þetta framlag til þess að geta haldið framleiðslunni áfram.

Það er skýlaus játning hv. þm., að það eigi að setja þessi lög vegna þess, að hluti af kaupi bænda sé greiddur úr ríkissjóði. Af þessu ætti ekki að koma til mála, að verkamenn fengju að ráða kaupi sínu. Ég veit ekki, hvort þetta er það, sem hann hefur ætlazt til, en allir sjá, að þessi yfirlýsing um fylgi við þetta frv. er yfirlýsing um það, að hann sé fylgjandi, eða hafi verið fylgjandi gerðardómslögunum. — Ég vil í því sambandi minnast á gerðardómslögin. Hv. þm. byrsti sig áðan og talaði um með æsingi, hver von væri af Framsfl. Ég held nú samt, að fæstir geti neitað því, að gerðardómslögin frá ársbyrjun 1942 hafi verið ólíkt réttlátari en þau lög, sem hér er verið að setja, gagnvart bændum. Munurinn á gerðardómslögunum og þessum lögum er sá, að gerðardómslögin voru almenn, þjóðfélagslegs eðlis, til að halda niðri verðlagi og verðbólgu, og náðu jafnt yfir allar stéttir þjóðfélagsins, en þessi lög ganga yfir eina stétt, aðeins yfir bændur, og eru því lög, sem eiga engan rétt á sér í þjóðfélaginu. — Ég ætla svo ekki að tala meira um gerðardómslögin.

Nú er svo komið, að hér liggja fyrir framan okkur frv. um meðgjöf á saltfiski, freðfiski o. fl., sem ríkissjóður á að borga. Það má segja um fjármálaóreiðu hæstv. ríkisstj. líkt og einn hv. þm. sagði hér niðri í gær. Hann sagði, að það væri engu líkara en menn væru að keppast um að gera sem mestar kröfur í bú.

Það vita allir, að lögin um fiskimálasjóð, lögin um húsbyggingar í kaupstöðum o. fl., o. fl. ná aldrei tilgangi sínum, eins og nú er komið, og það stafar fyrst og fremst af því, að hlaupið var frá gerðardómslögunum og dýrtíðinni sleppt lausri. Því hefur verið haldið hér fram, að það væri landbúnaðarvöruverðið, sem skapaði dýrtíðina. Þetta er auðvitað hin mesta fjarstæða, og þeir, sem halda þessu fram, vita meira að segja, að það er vitleysa, enda er það svo, að dýrtíðin og hækkað kaupgjald kemur hvergi harðara niður en á bændum. Ég skal nefna eitt dæmi, sem sýnir ljóslega, hvernig kaupgjald í sveitum hefur hækkað margfalt á við vöruverð.

Vífilsstaðahælið gat fyrir stríð fengið vetrarmann fyrir 700 kr. yfir veturinn, en nú getur það ekki fengið mann fyrir minna en 1000 kr. á mánuði, þ. e. um fjórtánföld hækkun, enda er það orðið svo, að maður lítur varla í dagblað án þess að sjá þar auglýstar jarðir til sölu.

Ég vil nú gefa Alþfl. það heilræði á 30 ára afmælinu að hætta lausamennskunni, og hv. 3. landsk. vil ég ráða til að sýna slíka hugarfarsbreytingu með atkv. sínu við afgreiðslu þessa máls hér í dag.