23.11.1945
Efri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að taka mikinn þátt í þessum umr. almennt, en ætla að gera grein fyrir því, hvernig ég ætla að greiða atkv. um þessa till. Ég tel það koma ákaflega greinilega í ljós, þegar rætt er um dýrtíðarmálin, að þessi flækja verður alltaf stærri og stærri og þeir, sem við hana fást, eru farnir að flækja sig meira og meira í hana sjálfir. Þetta er alveg eðlilegt, vegna þess, að það verður stöðugt þrengra það svið, að hægt sé að gera ráðstafanir í þessum málum sem ekki hækki verulega vísitöluna, á annan hátt en að gera ráðstafanir, sem eru óheiðarlegar, því að það er raunveruleg fölsun á vísitölunni, sem menn eru æ meir að komast inn á. Það er ákaflega skoplegt, þegar maður hlustar á ræður eins og þær, sem hér eru fluttar um þetta mál, þar sem verið er að blanda því saman og flytja um það hrókaræður, hvort dýrtíðin sé með þessum ráðstöfunum aukin í landinu, því að hvaða till. sem samþykktar eru hafa engin áhrif á dýrtíðina í landinu, en hafa hins vegar áhrif á það, hvort vísitalan er fölsuð eða ekki. Þannig er byrjað að blanda saman tvennu alveg gerólíku: Vísitölunni, sem er mælikvarðinn á dýrtíðinni, og dýrtíðinni sjálfri, og það er farið að gera hæstv. ríkisstj. svo erfitt fyrir, að gengur landráðum næst, ef menn ganga ekki inn á að falsa mælikvarðann.

Ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, að koma langt inn á þessi dýrtíðarmál. Það má vel vera rétt, sem hér hefur komið fram, að ekki sé stund til þess að ræða þau ýtarlega í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, en það má þó minnast á það í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh., þar sem hann minntist á, að ríkisstj. gerði allt, sem í hennar valdi stæði, til að halda dýrtíðinni niðri, og minntist þá á innflutninginn frá útlöndum, að nú einmitt þessa dagana er verið að gera samninga, þar sem mér er sagt, að gert sé ráð fyrir ráðstöfunum, sem væntanlega halda dýrtíðinni uppi meira en flest eða allt annað. Það getur vel verið, að þær sögur, sem um þetta ganga, séu rangar, og væri fróðlegt að heyra frekara um þetta mál. Nú, þegar samningar eru gerðir um kaup á íslenzka skipaflotanum, fullyrða margir, að ekki sé hægt að ganga frá samningunum nema með því móti að banna frjálsar siglingar og frjálsan markað á flutningsgjöldum til landsins. Þeir álíta, að það sé komið svo, ef þessir samningar eru gerðir og frjálst heimsmarkaðsverð á flutningsgjöldum fær ekki að ráða, hér eins og annars staðar, að þá geti ekkert af skipum Eimskipafélagsins siglt, og þeir, sem flytja vörur með þessum skipum og verða að borga allt að þreföld flutningsgjöld, geti það ekki nema með þeim afleiðingum, að það komi fram á vöruverði þeirra, sem enginn kærir sig um. Þessi flækja er hvert sem maður lítur og kemur m. a. fram í siglingamálunum, þar sem varðar einna mestu, að við getum fengið að búa við það markaðsverð, sem gildir í siglingum, því að það mundi hafa hagkvæm áhrif á allt verðlag í landinu. Það má minnast þess í þessu sambandi, að það komu hingað nokkur skip, sem fluttu timburfarm utan við samtök Eimskipafélagsins, og var verð á því 30–40% lægra en annars hefði verið vegna lægri flutningsgjalda., Þess vegna er það, þegar rætt er um þessi mál, mjög smávægilegt atriði, hvaða till. verði samþ. Ég get í þessu sambandi bent þeim, sem flytja. till. um þetta mál af áhuga fyrir því, að vísitalan sé ekki fölsuð, á það, að till. í sambandi við smjör, kartöflur, sem teknar eru upp snemma, og dilkakjöt, sem slátrað er fyrir venjulegan slátrunartíma, snertir þetta mál mjög lítið. — Vildi ég t. d. minnast lítillega á húsaleiguvísitöluna. Ég hef heyrt það staðhæft, að hún sé fölsuð um 15–21 stig, enda vita menn, hvernig húsaleigan er. Það kom t. d. maður til mín í gær, og sagði hann, að hann hefði fengið íbúð, sem kostar 1300 kr. á mánuði, og yrði hann að leigja hana til 5 ára. Þessar till., sem hér liggja fyrir, hafa því mjög lítil áhrif á þessi mál: Vísitalan er fölsuð á svo fjölda mörgum sviðum, og þeir, sem flytja þessar brtt., til þess að koma í veg fyrir, að hún verði fölsuð, hvað snertir þær vörutegundir, sem áður er á minnzt, þeir gera vissulega ekki hreint fyrir sínum dyrum, því að fölsunin er margfalt stærri á öðrum sviðum og þá fyrst og fremst að því er snertir húsaleiguna, þar sem sumir verða að borga 1300 kr. í húsaleigu, sem mönnum er reiknað 25–300 kr. í vísitölunni. Þessir menn, sem verða að sæta þessum kjörum, vinna í sömu stofnunum, sömu vinnu fyrir sama kaup og aðrir, sem búa í gömlum íbúðum, en eru annars settir 900–1000 kr. neðar á mánuði en hinir með þessum vísitöluútreikningi. Það er þess vegna ekki hægt að halda þessum málum þannig áfram, og það er engin leið til út úr þeim nema sú eina að reyna að færa dýrtíðina niður, svo sem till. eru gerðar um, að byrjað verði að vinna að, af hv. 1. þm. Eyf. Það er eina leiðin í málinu, hitt er endalaus flækja. — Hef ég nú drepið á sárafá dæmi þessa og er þó af nógu að taka, en þau sýna, m. a. húsaleigan, í hverjar ógöngur þessi mál eru komin. Núverandi ástand í þessum málum er orðið alveg óþolandi og er ekki hægt að láta þegnana búa við tvenns konar rétt í einu þjóðfélagi. Ég álít þess vegna og hef alltaf álitið, að leiðin í þessu máli væri ekki að reyna til þess að falsa vísitöluna, heldur það að láta hana koma fram eins og hún er og að reyna að bæta meinið með því að taka það öðrum tökum en nú er gert heldur en að halda þessum skollaleik áfram. Vísitalan verður að koma fram eins og hún er, og það bætir ekkert — jafnvel ekki í svip að vera að falsa vísitöluna frá því, sem hún raunverulega er. Þess vegna eru þær till., sem hér liggja fyrir frá hv. meiri hl. fjhn., ekki samkvæmt því, sem ég hef nú sagt, þótt þær séu í meira samræmi við það, sem mér hefði getað fallið í geð, heldur en þær till., sem liggja fyrir í brbl. eins og þau voru lögð hér fyrir. Hv. 1. þm. Reykv. sagðist ekki geta greitt atkv. með brbl. eins og þau lægju fyrir, vegna þess að engin vissa væri fyrir því, að sú ríkisstj., sem nú situr að völdum og hann ber svo mikið traust til, sitji við völd næsta ár, — þá gætu verið teknir við vondir menn, og að hann vildi ekki gefa þeim svona mikið vald, sem ríkisstj. er með þessum brbl. gefið í hendur, því að í 2. mgr. 1. gr. þeirra er ríkisstj. gefið vald til þess að ákveða, hvað sé hæfilegt neyzlumagn þeirrar vöru, sem þar um ræðir. En um leið og hv. þm. lýsir því yfir, að hann geti ekki fylgt málinu, vegna þess að svo geti farið, að einhverjir vondir menn hafi tekið við völdum næsta haust, þá leiðir það af afstöðu minni til hæstv. ríkisstj., að við vitum, hvaða ríkisstj. situr að völdum í dag og á morgun, og getum því með miklu meiri rökum sagt, að við treystum núverandi ríkisstj. alls ekki til þess að meta þetta, enda sýnir það sig, eftir því sem hv. 1. þm. Eyf. upplýsti hér, að á Akureyri fái menn skömmtunarseðla í staðinn fyrir smjör, og þótt annars staðar á landinu fáist erlent ódýrara smjör, sem reiknað er með í vísitölunni, þá verði þeir að kaupa þar smjör, þegar það fæst, á 20–30 kr. hvert kíló, — að þessar framkvæmdir, sem smjörvísitalan er reiknuð eftir, er helber skollaleikur, því að það neyzlumagn, sem miðað er við, er ekki nema lítið brot af því neyzlumagni, sem það er á hvern einstakling í landinu. Mér finnst því fyrri brtt. hv. meiri hl. fjhn. um þessar 25% til viðbótar, sem reikna skal með vísitölunni, vera eðlileg. Og enn fremur mun ég fylgja síðari brtt., sem snertir verðlag á dilkakjöti, sem slátrað er fyrir venjulegan slátrunartíma, og kartöflum, sem teknar eru upp óvanalega snemma, að þar er tekið fram : „. . . . enda sé á boðstólum nægilegt magn af þessum vörum með því verði, sem reiknað er með í vísitölunni . . . . “, og það af þeirri einföldu ástæðu, að leiðin út úr dýrtíðarmálunum er ekki fölsun á vísitölunni, heldur verður að taka þessi mál og ráða fram úr þeim eins og þau liggja fyrir. Þessi fölsun leiðir aðeins til enn meiri flækju á málinu, og er þegar komið meira en nóg af slíku. Og þetta, sem hér liggur fyrir og hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. telja sig vera að berjast fyrir, breytir þessum málum aðeins smávægilega í samanburði við þá stórkostlegu fölsun, sem á sér stað á vísitölunni á húsaleigunni í Reykjavík.

Ég skal svo efna það loforð, sem ég gaf í upphafi máls míns, að fara ekki að ræða þessi mál of almennt, en vildi gera þessa grein fyrir atkv. mínu.