02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Mér er ánægja að svara fyrirspurnum þeim, sem hv. 2. þm. S.-M. hefur beint til mín.

Varðandi fyrstu fyrirspurn hv. þm. er því til að svara, að þessi frásögn í Þjóðviljanum hlýtur að vera á einhverjum misskilningi byggð, því að það hefur aldrei komið til tals að veita einstaklingum innflutningsleyfi fyrir almennum neyzluvörum. Það eina, sem talað hefur verið um í þessu sambandi, er það, að kaupfélögin gætu fengið innflutningsleyfi fyrir vissum vörutegundum hvert út af fyrir sig, í stað þess að Samband ísl. samvinnufélaga hefur fengið leyfi fyrir öllum þeim erlendu vörum eða öllum þeim kvóta, sem kaupfélögunum er ætlaður. Þetta mál kom til umr. í viðskiptaráði fyrir rúmlega einu ári, og var þar þá gerð samþykkt um það, að ekkert væri þessu til fyrirstöðu, ef þess væri sérstaklega óskað. Mun þessi samþykkt hafa verið gerð að gefnu tilefni frá einu kaupfélagi, en í sambandi við vinnudeiluna kom þetta til tals aftur, án þess að ríkisstj. gæfi nokkra yfirlýsingu í sambandi við þetta, en á það var bent, að þessi samþykkt lægi fyrir. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert því til fyrirstöðu, að einstök kaupfélög, ef þau óska þess, fái gefin út leyfi beint á sitt nafn, en þá hafa þau að sjálfsögðu ekki heimtingu á meiru en sem er í réttu hlutfalli við hlutdeild þeirra í heildarkvóta S.Í.S.

Síðan spurði hv. þm. um það, hvers vegna hefði ekki verið gefinn út frílisti, en þetta er ekki alveg rétt orðað. — Samkv. l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð, sem samþ. voru á þessu þ., var tilætlunin sú að leyfa frjálsan innflutning á öllum þeim vörum, sem ekki væru sérstaklega undanþegnar. Rétt um það leyti, sem átti að gefa út reglugerð um þetta, barst fregnin frá Bretlandi um það, að við mættum ekki eiga von á því að geta selt þar neitt af frystum fiski á þessu ári. Af þeim ástæðum þótti ekki ráðlegt að gefa innflutninginn frjálsan, meðan óvíst var um markaði.

Hins vegar hefur verið fylgt sömu reglu og áður um leyfisveitingu. Ekki hefur verið hindraður innflutningur nema á vörum, sem óþarfar voru taldar. Dregið hefur og verið úr leyfisveitingum, því að beðið var eftir, hvernig sölu á freðfiski yrði háttað. Ég geri ráð fyrir, að ef úr rætist um sölu á fiskinum, þá verði gengið frá þessum frílista, en vitanlegt er, að vörur, sem greiðast í dollurum, verða háðar leyfisveitingum. Annars held ég, að þetta hafi ekki verulega þýðingu fyrir utanríkisverzlunina.

Viðvíkjandi 3. atriðinu, um endurútflutningsverzlun, þá hefur þetta verið gert að umræðuatriði utan dagskrár áður. Mér er ekki kunnugt um fullkomlega, í hve stórum stíl þetta hefur farið fram. En eftir þær umræður hef ég tekið þetta fastari tökum. Ég hef fengið menn með sérþekkingu, sem athuguðu hverja vöru. Síðan hefur ekki verið leyfður endurútflutningur, nema þessir menn hafi talið vörurnar óhæfar og óseljanlegar. — Á árunum 1941–1942 reyndust sumar vörur frá Bretlandi óseljanlegar og hafa verið endurútfluttar. Auk þeirra erlendu vara, sem hafa verið fluttar út, hefur verið innlend framleiðsla, sem unnin hefur verið úr útlendu efni, t. d. ullarlopi fyrir þó nokkra upphæð. Megingildi þessarar vöru liggur í vinnunni. Einnig hefur verið stöðvaður farþegaflutningur milli landa, síðan þetta var hér til umræðu. Það hefur verið talsverður fjárhagslegur hagnaður af þeim vörum, sem fluttar hafa verið inn og unnið hefur verið úr hér og síðan fluttar út. Hitt hygg ég, að sá frjálsi gjaldeyrir, dollarar, sé ekki meira en það, að engu máli skipti.