26.02.1946
Neðri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vék að því í ræðu sinni hér, að það mundi liggja eins nærri eða jafnvel nær, skildist mér, að gefa skýringu á því, af hverju dýrtíðin óx meira á þeim tíma, sem ég átti sæti í ríkisstj., heldur en nú síðustu árin, og það mundi hafa meiri þýðingu fyrir Alþ. að vita það en að eyða tíma þingsins til þess að vita, hvernig nú væri ástatt og hvernig hæstv. núverandi fjmrh. héldi á þessum málum. Þetta virðist mér ákaflega einkennilegur hugsunarháttur hjá hæstv. fjmrh. Því að þó að það skipti miklu, hvernig þetta stóð fyrir sex eða sjö árum, þegar ég átti sæti í ríkisstj., þá virðist hitt þó skipta meira máli, hvernig þetta stendur nú og hvers má vænta af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. er að gera. Þetta bendir mér á, að hæstv. fjmrh, vilji ekki ræða, heldur draga athygli frá því, sem nú er að gerast, og virði ég honum það til vorkunnar. — Annars voru margar ástæður til þess, að dýrtíðin óx á árunum 1940–1942 eða út árið 1941, sem hann nú þekkir margar mjög vel. En ég get sagt hæstv. ráðh. það — ég veit ekki, hvort það verður í 10. eða 20. skipti — að meginástæðan til þess, að ekki var strax á árinu 1940 gerð alvarleg tilraun til þess að sporna við þeirri hættu, sem aukning dýrtíðar hefur í för með sér, var sú, að þeir tveir ráðh., sem áttu sæti í ríkisstj. þá úr Sjálfstfl., neituðu algerlega ekki aðeins að vera með róttækri löggjöf til þess að nota stríðsgróðann til þess að hamla á móti dýrtíðarhækkuninni, heldur með því að neita að samþ. framkvæmd þeirra dýrtíðarlaga, sem loks fékkst fram vorið 1940 og átti að vera til þess að sporna á móti hækkun dýrtíðarinnar. Og í hvert skipti sem upp á því var stungið í ríkisstj. að hefjast handa fyrir alvöru í þessum málum, þá stóð í því efni á fyrrverandi starfsbræðrum mínum í ríkisstjórninni. Og ástæðan til þess, að ég fór úr ríkisstj. árið 1942, var sú, að ég vildi ekki bera ábyrgð á því, að ekkert væri gert í þessum málum. Og að stjórnin sagði af sér haustið 1941, var af því, að ég og samstarfsmaður minn í ríkisstj., hv. þm. Str., við vildum ekki bera ábyrgð á því, að ekkert væri gert af viti eða neinni fyrirhyggju til þess að koma í veg fyrir vöxt dýrtíðarinnar. Síðan var gerð tilraun til þess af Sjálfstfl. að stöðva þessa öfugþróun árið 1942, og allir vita, að Sjálfstfl. sveikst undan merkjum, þegar verst stóð á, og þurrkaði burt þau bönd, sem bundu flokkana saman, og lagði á þá braut, sem hann hefur runnið á síðan — ekki gengið, því að hann hefur, verið á flótta —, og þá óx dýrtíðin á einu ári undir stjórn núverandi hæstv. forsrh. um meira en helming. Og síðan hefur þessi þróun haldið í sömu átt, með meiri og minni hraða, þó að fyrir hafi legið skýlausar yfirlýsingar um, að Sjálfstæðisflokksmenn hafi ætlað að stöðva dýrtíðina.

Þá spurði hæstv. fjmrh., hvort ég þekkti nokkurt land, þar sem hægt væri að fá fram lækkanir á kaupi meðan atvinnuvegirnir geta borið kaupgjaldið, eða hafa ekki stöðvazt, skildist mér. Ég er nú ekki svo kunnugur í öðrum löndum. En í fyrsta lagi vil ég benda hæstv. ráðh. á það, sem hann ætti að vera farinn að heyra, vegna þess að það hefur verið endurtekið svo oft, að það er enginn að stinga upp á kauplækkun eingöngu í sambandi við dýrtíðina, heldur að fram fari í landinu allsherjar lækkun allra þeirra liða, sem gera verðmyndun. Þess vegna er þessi spurning hæstv. ráðh. algerlega út í hött. En fyrst hæstv. ráðh. spurði þannig, vil ég nota þessa spurningu til þess að spyrja hann aftur: Ber að skilja það svo, að hann sé með þessu að halda því fram, að íslenzkir atvinnuvegir þoli það kaupgjald og þá dýrtíð, sem nú er? Ég held, að hæstv. fjmrh. verði annaðhvort að játa, að þessi spurning hans hafi verið að öllu leyti markleysa, eða hann verði að svara þessari spurningu jákvætt og halda því fram, að undanfarið hafi svo verið ástatt, að íslenzka framleiðslustarfsemin hafi þolað og þoli þann framleiðslukostnað, sem hefur verið hér á landi, og verðbólgu þá, sem við nú búum við. Og þetta væri hreinleg játning af hendi hæstv. fjmrh., sem er líka landbrh., — og ég veit ekki hvað meira. — Ég hélt, að þessi hæstv. ráðh. vissi það og játaði það a. m. k. í hjarta sínu, að þessu er einmitt öfugt farið og dýrtíðin er búin að vera allt of mikil fyrir íslenzka atvinnuvegi í mörg missiri. Samt er stefnt til þess að auka hana. Og það þarf ekki langt að fara til þess að fá játningu um það efni. Hvers vegna hafa verið borgaðar úr ríkissjóði stórar fjárfúlgur til þess að halda niðri verðlagi og kaupgjaldi? Er það ekki af því, að verðlagið sé of hátt fyrir atvinnuvegina? Hvað mundu bændur segja um þetta, sem þannig er ástatt fyrir, að þeir fá, vegna aðgerða hæstv. ráðh., ekki það verð, sem þeim er ætlað eftir mati sex manna n.? Hvernig stendur á því? Það er af því, að hæstv. ráðh. segir: Verðlagið má ekki vera eins og sex manna n. gerði ráð fyrir, vegna þess að það hefur áhrif á kaupgjaldið til hækkunar og það er of hátt. Er þetta ekki enn ein játning í þessu efni? (Fjmrh.: Hver fór austur á Skeiðin?). Ég fór þangað, til þess að segja, að verðlagið væri of hátt fyrir framleiðsluna, alveg eins og kaupgjaldið. Ég hef ekki snúizt eins og nafar í gati, eins og hæstv. ráðh. hefur gert í þessu máli. Ég hef ekki sagt eitt í dag og annað á morgun í þessu efni. Ég hef reynt að skapa þá skoðun í landinu, að hér sé stefnt í óefni, og hef ekki sungið eitt í dag og annað á morgun um þá hluti. Ég hef tekið á mig þær óvinsældir, sem því eru samfara að segja sannleikann í þessum efnum, alveg frá byrjun. Og það er ekki aðeins þetta, sem færa má fram til stuðnings því, hve fáránlegt þetta skraf hæstv. fjmrh. er. Það má líka benda í þessu sambandi á það, hvernig ástatt er um sjávarútveginn. Og hvernig er ástatt um sjávarútveginn? Hvernig stendur á því, að útvegsmönnum dugar ekki 45 aura verð fyrir fiskinn? Hvernig stendur á, að hæstv. ráðh. verður að koma hér og segja: Var rétt að stöðva útgerðina nú? Var rétt fyrir ríkisstjórnina að stöðva útgerðina nú? Var ekki réttara fyrir ríkisstjórnina að taka á sig ábyrgð á því að ákveða verðhækkun á fiski — En hvers vegna þurfti þessi verðhækkun að eiga sér stað? Af því að framleiðslukostnaður og verðlag var orðið of hátt. Það er vegna þess, að hæsti markaður, sem fáanlegur er fyrir fiskinn, nægði ekki til þess, að útgerðarmenn fengju nóg verð fyrir hann. Og hæstv. fjmrh. segir svo, að almenningur í landinu fallist ekki á að lækka dýrtíðina, þar sem fyrir liggi það ástand í landinu, að atvinnuvegirnir þoli það verð, sem nú er. Svo segir þessi sami hæstv. ráðh. í sömu ræðunni: Var rétt af ríkisstj. að láta útgerðina stöðvast? Var ekki réttara að gera þessar ráðstafanir? Það var vitanlega sjálfsagt, að ríkisstj. gerði ráðstafanir til þess, að útgerðin héldi áfram. En það var ekki um þessa leið eina að ræða til þess, og sannleikurinn er, að það framlag, sem lagt var fram í þessu efni, var ekki sjávarútvegsins vegna. Það var hægt að fara aðra leið fyrir sjávarútveginn í þessu efni, að lækka framleiðslukostnaðinn, leið, sem sjálfsagt var að fara. Þetta fé, sem reitt verður fram, ef á þarf að halda, og þessi ábyrgð er ekki gefið vegna sjávarútvegsins, heldur til þess að ríkisstj. geti hangið við völd nokkrum mánuðum lengur. Núverandi hæstv., ríkisstj. gat ekki tekið öðruvísi á málinu, og þess vegna verður að fara þessa bráðabirgðaleið, til þess að það komist ekki upp fyrir kosningar, hvernig ástatt er.

Hæstv. fjmrh. minntist ekkert á þau nýjustu afrek, sem verið er að vinna til þess að stöðva dýrtíðina, þ. e. a. s. þær kröfur, sem nú eru frammi varðandi nýjar kaupgjaldshækkanir. (Fjmrh.: Það er ekki vert að ræða það of mikið hér). Það er óhætt að minnast á það. Hæstv. fjmrh. endurtók það, að ekki hefðu átt sér stað almennar kaupgjaldshækkanir í landinu á undanförnum árum, heldur hækkanir á kaupgjaldi til samræmingar. En er það þá til samræmingar, sem nú er krafizt um kauphækkanir? Er það til samræmingar því, sem hæstv. fjmrh. og landbrh. hefur gert í verðlagsmálum landbúnaðarins? Er það til samræmingar við kaupgjald, sem nýbúið er að samræma annars staðar á landinu? Er það til samræmingar við tekjur hlutarsjómanna? Er það til samræmingar við afurðaverðið? Nei, það er ekkert af þessu, heldur er það byrjun á nýju ósamræmi, nýrri dýrtíðaröldu og nýjum ófagnaði. Hitt er svo sú sorglega hlið á því máli, að þeir, sem krefjast þessara hækkana, hafa allt of mikið til síns máls um það, að þeim veiti ekki af þeim fjármunum, sem þeir með kröfum sínum keppa eftir að fá. Og það er af því, hvernig hefur verið haldið á skiptingu stríðsgróðans. Það er auðvitað hart á því, að maður, sem hefur 1200–1300 kr. á mánuði í kaup, geti komizt af. Það hefði reyndar þótt fyrirsögn fyrir nokkrum árum, ef sagt hefði verið, að svo mundi verða haldið á málum í þessu efni, að til þess mundi leiða, sem nú er fram komið. Það var gert lítið úr þeirri hættu, sem af verðbólgunni stafaði, og því haldið fram, að það væri verið með dýrtíðinni að skipta stríðsgróðanum. Og þeir, sem vöruðu við þessu, voru kallaðir afturhaldsmenn og verkalýðsböðlar, þeir sem töldu það böl, að framleiðslukostnaðurinn hækkaði svo mjög, og héldu því fram, að eftir stríð mundi allt viðkomandi framleiðslu keyrast í hnút fyrir það, að framleiðslukostnaður væri of hár, svo að framleiðslan bæri hann ekki. Og hver er svo staðreyndin? Og hvernig er t. d. ástatt um húsaleigukostnaðinn í Reykjavík? Hér er verið að byggja, og ríkisstj. heldur við mátulegri verðbólgu meðan verið, er að byggja. Þetta mun heita nýsköpun. Og hvernig verkar þessi nýsköpun? Margir verða að borga fyrir greni 400–500 kr. á mánuði. Hvernig kemur þetta út hjá mönnum, sem hafa 1300 kr. í kaup á mánuði? Þeir verða alltaf fleiri og fleiri, sem verða að búa við þessa nýsköpun. Og svo segja menn: Okkar tekjur eru ekki svo miklar, að við þolum þessa hækkun, og svo heldur svikamyllan áfram með hækkun kaupgjalds og vöruverðs á víxl. En þeir, sem standa á gömlum merg, hafa hagnazt í skjóli þess eymdarfyrirkomulags, sem átt hefur sér stað í þessum efnum, og hagræða sér svo eftir að skipting stríðsgróðans hefur staðið hæfilega lengi og verðbólgan verið mátulega mikil. —Þannig er sú svikamylla, sem hér hefur verið látin mala. Afleiðingarnar eru að koma í ljós. En þeir, sem prédika fyrir mönnum um blessun verðbólgunnar, mega ekki heyra þetta nefnt. Og markmiðið er það eitt að vaða áfram í sukkinu og stefna að því marki að láta sem minnst á þessu bera fram yfir kosningar. Það er nú eina markmiðið Og sú stefna, sem mörkuð er með þessu dýrtíðarfrv., sem hér liggur fyrir, er þessi stefna, ef stefnu skyldi kalla. — Svo kemur hæstv. ráðh. og segir: Vill hv. þm. S.-M. benda mér á, hvernig það gengur í öðrum löndum að fá kauplækkanir, þegar atvinnuvegirnir geta borið það kaupgjald, sem greitt er? Og svo skýtur hann fram í, þegar ég er að tala um kröfurnar, sem nú eru uppi um kaupgjaldshækkanir hér: Er ekki rétt að tala sem minnst um það, sem hér er að gerast í þessu hjá okkur? En ég held, að það væri einmitt full ástæða til að tala um það hér. Og ég hef ekki orðið var við, að það þyrfti að ganga á sokkaleistunum, þegar menn hafa verið að skalta og valta með verðlagsmálefni bændanna eins og þeim hefur sýnzt. Og svo sagði hæstv. fjmrh., að flestar stærstu stéttir landsins óskuðu ekki eftir lækkun á dýrtíðinni. Mikið er að heyra þetta. Ég dreg í efa, að hæstv. ráðh. segi satt. Hitt hygg ég miklu nær sanni, að þó að þessum hæstv. ráðh. og öðrum mönnum ýmsum hafi orðið það á að ganga lengra í því að prédika fyrir mönnum blessun dýrtíðarinnar, verðbólgunnar og þess ástands, sem nú er þessu samfara hjá okkur, að þá séu hinir fleiri, sem sjá í gegnum þetta skraf og vita meira um það, hvernig ástandið er í raun og veru í landinu, en jafnvel þeir, sem bera þetta upp í sig. Ég held, að menn í sjóþorpum sjái, hvernig komið er fyrir sjávarútveginum, og vilji ekki taka undir þetta með hæstv. fjmrh. Ég held, að bændur landsins mundu heldur ekki taka undir þessi orð hæstv. fjmrh. Og mér er nær að halda, að sístækkandi hópur launamanna landsins, bæði innan og utan verkalýðsfélaganna í landinu, mundi ekki taka undir þessi orð hæstv. ráðh. Og ég held, að svona sé það þrátt fyrir þá prédikun, sem stjórnarflokkarnir hafa haldið uppi um ágæti þessa ástands. Ég held, að staðreyndirnar hafi talað hærra máli en málpípur ríkisstjórnarinnar. Þetta er mín skoðun. Og ég held, að það yrði vel séð í landinu að yfirgefa glæfrastefnu þá, sem í þessu efni hefur verið haldið fram og farið eftir, og snúið væri við. Ég held, að þjóðin mundi kunna að meta það, ef henni væri sagt satt í málinu, fremur en að dylja hana um ástandið og reyna að fá menn til þess að trúa á ágæti dýrtíðarinnar og verðbólgunnar. Ég held þess vegna, að hæstv. fjmrh, ætti að endurskoða þessa skoðun sína. Ég held, að ástandið sé þannig í þessum efnum, að flestum ofbjóði það og að menn beri mikinn kvíðboga fyrir því, hvernig fara muni nú á næstu missirum. Og ég held, að menn mundu miklu heldur vilja, að reynt væri að taka þessum málum skynsamlega en að látið sé undan síga á þann hátt, sem gert er. Ég held, að verkamenn í Dagsbrún og verkalýðsfélögunum, sem nú eru að fara fram á kauphækkanir, geri það vegna þess, að undir þeirri forustu, sem nú er í landsmálum, þá haldi þeir, að skárri úrræðum sé ekki hægt að koma fram, en að þeir hafi þó alls ekki neina tröllatrú á þessu úrræði. Og ég held, að þeir mundu hafa miklu meiri trú á því að nema nú staðar og breyta alveg um stefnu, ef jafnhliða væru gerðar ráðstafanir í þjóðfélaginu, sem þeir gætu sætt sig við, ráðstafanir til þess að gera þá breyt. á verðlagi í landinu yfirleitt, sem þarf til þess að menn geti lifað. En þetta verður erfiðara og erfiðara með hverjum deginum, sem líður, af því að mikið fé hefur verið fest í tryggingum og öðru, meðan allt stóð sem hæst. En ég held, að því fari fjarri, að það sé lengur nokkur veruleg trú á því í landinu, að það sé blessun fyrir menn, að þetta gangi eins og það er. Ég er alveg á gagnstæðri skoðun við hæstv. fjmrh. um þetta. Ég held, að flestar stærstu stéttir landsins óski í raun og veru eftir lækkun dýrtíðarinnar. Og ég beinlínis ákæri hæstv. fjmrh. og engu síður aðra af þeim, sem hafa unnið með honum, fyrir það að hafa gert tilraunir til þess að fá menn til þess að láta sér lynda það ástand, sem verið hefur, í stað þess að fá menn til þess að líta á það sem böl, sem þyrfti að lækna. Það er alveg óskaplegt að hugsa til þess, að heilir hópar forustumanna þjóðarinnar skuli hafa gengið fram fyrir skjöldu síðustu missirin til þess að fá menn til þess að líta svo á, að það sé einhver blessun, hvernig gengið hefur um fjárhags- og viðskiptamálin í landinu, og sérstaklega þegar þess er gætt, að í hópi þeirra manna eru menn, sem nokkrum missirum áður og sumir örstuttu áður höfðu ekki átt nógu sterk orð til að lýsa því böli, sem af verðbólgunni stafaði að þeirra áliti. Það er alveg furðulegt, að annað eins skuli geta hafa átt sér stað eins og sú kúvending, sem þar hefur orðið. Hvar er hægt að finna öruggari vott alvöruleysis?

Ég minntist hér með nokkrum orðum á afgreiðslu fjárl., svo sem til þess að benda á það atriði einnig í sambandi við þessar deilur, sem staðið hafa um stefnu í fjárhagsmálunum. Hæstv. fjmrh. notaði nú tækifærið til þess að hreyta að mér nokkrum orðum í því sambandi og sagðist ekki vita, hvort nokkur þm. hefði greitt atkv. með fleiri hækkunartill. við fjárl. en ég. Í raun og veru er þetta aukaatriði, hvað gerist um einstakar till. í sambandi við fjárl. Því að við vitum það allir, sem hér erum inni, að það, sem gerir fjárl. svona óviðráðanleg og svona gífurlega há, er það, hvernig ástatt er í landinu um verðbólguna. En ég sá nú ekki betur en að það félli í hlut stjórnarandstöðunnar við þessa fjárlagaafgreiðslu — og þá ekki síður fyrri fjárlagaafgreiðsluna, sem þessi hæstv. ráðh. hefur verið við riðinn, — að bjarga hæstv. ráðh. frá ábyrgðarleysi sumra þeirra, sem þykjast styðja þá stjórn, sem hann starfar í. Og ég vil minna þennan hæstv. ráðh. á það, að áður en fjárlagaafgreiðslan fór fram, bauð ég honum fyrir hönd stjórnarandstöðunnar samvinnu við fjárlagaafgreiðslu við 3. umr., til þess að koma í veg fyrir, að sá ógurlegi flaumur af brtt., sem fyrir lá, yrði samþ. Þetta samkomulag átti að standa með fjvn. um þessi mál og taka einhverjar till., eftir samkomulagi við n., til samþykktar, sem nauðsynlegastar væru frá almanna sjónarmiði, og samþ. þær til viðbótar. En hæstv. fjmrh. sagðist ekki geta ráðizt í þetta samkomulag, af því að hann gæti ekki ráðið við sitt lið. Þess vegna vil ég ekki, að hæstv. fjmrh. sé að núa mér því um nasir, að ég hafi greitt atkv. með kannske óhæfilega miklu af brtt., að hans dómi. Hæstv. fjmrh. hafði ekki vald á því að gera samkomulag um þetta, af því að einstakir menn í liði ríkisstj. kröfðust þess að fá sérstök hlunnindi fyrir sín kjördæmi í sambandi við afgreiðslu fjárl., vegna kjósendanna, þ. á m. hv. þm. A.-Húnv. og ýmsir fleiri, sem kröfðust þessa, sjálfsagt fyrir það, hve dyggir þénarar ríkisstj. þeir væru. Og þeir fengu samþ. brtt., sem hv. fjvn. taldi ekki í samræmi við annað í sínum brtt. Þetta mun vera ástæðan til þess, að ekki var hægt að hafa þetta samkomulag við atkvgr. um fjárl. Og það var ekki nægilegt víðsýni til staðar á hæstv. Alþ. til þess, að þm. stjórnarandstöðunnar fengju hliðstæð fríðindi fyrir sín kjördæmi, og þess vegna var ekki hægt að hafa um ,þetta allsherjarsamkomulag. — Þetta segi ég að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh. Og ég man svo langt, að á árunum þegar meiri hl. Alþ. var svo skipaður, að hann hafði aðeins eitt atkv. fram yfir minni hlutann, þá varð að gera mikil samtök um afgreiðslu fjárl. Þá komst það í það horf, að reynt var að gera öllum jafnt undir höfði, stjórnarsinnum og stjórnarandstæðingum, sem gagnrýndu fjármálastjórnina. Þeir vissu, að fjárl. þoldu ekki þessar greiðslur, en fluttu þessar till. samt. Og til þess að bjarga fjárl., þá urðum við stundum að greiða atkv. á móti framkvæmdum í okkar eigin kjördæmum. Þá var kreppa í landinu, en nú er það ekki, þótt margt hafi verið gert til þess að búa til kreppu. Þá hagaði stjórnarandstaðan sér eins og ég gat um áðan.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég ætti að hugsa um, hvernig hefði verið ástatt um fjárhagsmálin fyrir 6–7 árum, og ráðh. var talsvert drýldinn yfir því, að viðskilnaðurinn hjá sér yrði talsvert betri, þegar hann yfirgæfi þetta sæti, heldur en hjá mér. Ég vil aðeins segja hæstv. ráðh. það, að ef svo á að verða, þá ætti hann að fara sem fyrst. Þetta er vinsamleg aðvörun. En viðvíkjandi þessum samanburði, sem hæstv. ráðh. gerir svo mikið af, — hann virðist hafa svo gaman af að tala um söguna —, þá skal ég gera honum það til geðs að minnast á þetta. En fyrst vil ég segja það, að ég sé ekki, að það komi mikið þessu máli við, hvernig ástandið var hér fyrir 6–7 árum. En það er undarleg tilhneiging að vilja endilega fá það rætt, sem var gert fyrir löngu. En ekki skal ég víkjast undan því. Þegar ég tók við fjármálastjórninni 1934, var þannig ástatt, að Íslendingar voru í þann veginn að missa markaði þá, sem þeir höfðu haft fyrir aðalframleiðsluvöru sína, saltfiskinn, og hallinn á ríkisreikningunum var um 1½ millj. kr., þegar ég tók við. Skiljanlega skapaði þetta gífurlega erfiðleika. En þrátt fyrir þessa erfiðleika, sem mörgum fannst vera óyfirstíganlegir og voru vissulega þungbærir, tókst að snúa þessum 1½ millj. kr. halla upp í verulegan tekjuafgang. Ég hygg, að síðasta árið hafi verið 1½ millj. kr. tekjuafgangur. Það þótti mikið í þeirri tíð, auk þess sem verulega jukust verklegar framkvæmdir. En til þess að koma þessu í framkvæmd, varð að leggja á nýja skatta, enda vantaði engan veginn, að hæstv. núv. fjmrh. og margir aðrir deildu mjög á það og kölluðu það skattabrjálæði. En þetta var ill nauðsyn. Efnahagur ríkissjóðs batnaði því verulega á þessu tímabili, og skuldir þær, sem á honum hvíldu, lækkuðu, þrátt fyrir auknar framkvæmdir. Ég ber því engan kinnroða fyrir þetta, heldur þvert á móti. En þegar ég lét af þessari stöðu, tók við fjmrh. úr hópi sjálfstæðismanna, og hefur sá flokkur stjórnað þessum málum um 6 ára skeið. Á þessum árum hafa þjóðartekjurnar margfaldazt. Hundruð millj. kr. hafa streymt inn í landið frá uppsprettum, sem áður voru algerlega óþekktar. Samt er nú þannig ástatt, að ríkissjóður á ákaflega lítið handbært fé. Og á þessu litla handbæra fé hvíla kröfur úr öllum áttum. Þannig eru ástæður ríkissjóðs áreiðanlega ekki betri nú en í upphafi þessa tímabils. Þetta er glæsilegur árangur, eða hitt þó heldur, eftir 6 mestu uppgripaár, sem íslenzka þjóðin hefur lifað. Þetta er ekki lítið til að státa af. — Nú, einhver mundi nú halda, að þetta stafaði af því, að Sjálfstæðisfl. hefði tekið rögg á sig og lækkað stórkostlega skattana á þjóðinni, þá skatta, sem voru neyðarúrræði kreppuáranna. En er þessu þannig farið? Nei. Allir tollar, sem giltu fyrir styrjöldina, og allir skattar hafa verið framlengdir og nýjum sköttum bætt ofan á. Og ef þetta dæmi væri gert hreinlega upp, mundi það koma á daginn, að yfirleitt hafa skattarnir og tollarnir verið hlutfallslega hærri á þessu tímabili en á kreppuárunum fyrir styrjöldina. Ég mun því hvorki blikna né blána vegna samanburðar við þessi afrek hæstv. núv. fjmrh. og flokksbræðra hans í sambandi við þessi mál. Ef þessum málum hefði yfirleitt verið stjórnað, ég segi bara stjórnað, því að þetta hefur verið látið ganga stjórnlaust áfram í einhverjum endemis amlóðahætti, þá væri ástandið ekki það, sem það er í dag. Ríkissjóður ætti nú að vera fjársterkasti aðili landsins og eiga tugi milljóna kr. Ef svo væri, þá þyrfti ekki þessi leiða setning: Ríkisstjórninni er heimilað að taka lán allt að ...., að standa aftan við hvert frv., sem nú er samþ. og krefst fjárframlaga. Þetta er nú hinn glæsilegi árangur af fjármálastjórn þessara manna.

Ég minntist með örfáum orðum á nýsköpunina, og skal ég ekki fara langt út í það. Hver er eiginlega þessi nýsköpun? Hún er þessir 30 togarar, sem ríkisstj. hefur keypt, og nokkrir mótorbátar, sem ríkisstj. hefur samið um byggingu á. Og ástandið er nú þannig með þessi tæki, að ríkisstj. er í vandræðum með þau, enda ekki að furða, eins og búið er í haginn. Það er varla hægt að fá nokkurn mann, sem á fé, til að kaupa þessi tæki, en aðrir vilja fá þau, ef ríkissjóður vill ábyrgjast nærri allt andvirði þeirra. Þetta er heldur glæsilegur vottur um trú manna á nýsköpunina og framtíðina, eins og hún er undirbúin af hæstv. núverandi ríkisstjórn. Og ríkisstj. hefur haldið svo meistaralega á þessu máli, að þegar hún kaupir til landsins þessa 30 togara, — gerir hún það fyrir miklu hærra verð en nokkur vitglóra var í, eftir því sem sumir segja. Og ekki datt hæstv. ríkisstj. í hug að bera þetta mál undir þá aðila, sem á undanförnum árum hafa fengið að safna tugum milljóna kr. í varasjóði, er ætlaðir voru til að kaupa þau tæki, sem nauðsynlegt er að kaupa snemma, en hlutu að verða dýr. Ríkisstj. átti að segja við þessa aðila: Við höfum nú fengið tilboð um 30 togara, og nú segið þið, hvað þið viljið fá marga. Segið þið nú til, hvort þið viljið nota þetta fé, sem hefur verið skattfrjálst af hálfu þjóðfélagsins, til þess að kaupa þessi skip og taka þannig þátt í nýsköpuninni. En þetta gerði ríkisstj. ekki. Hún keypti skipin án þess að ráðfæra sig við nokkurn mann. Og hún undirbýr framtíðina þannig, að enginn vill nærri þessum skipum koma, sem eitthvert fjármagn á. Nú, þegar hún svo situr með þetta allt, þá reynir hún að velta þessu yfir á þjóðina með því að setja upp stórfellda lánsstofnun og gera sérstakar ráðstafanir fyrir þá staði, sem ekkert fjármagn eiga. Eins og komið er, verður að leysa einhvern veginn úr þessum málum. Það verður að koma einhverju lagi á þetta. Einhver aðili verður að reka þessa togara. Þetta sýnir aðeins, hvernig á þessum málum er haldið. Nú eiga þeir aðilar, sem safnað hafa fé í skjóli skattfrelsisins, að koma og leggja í þessi dýru skip. Nú eiga þeir að koma, Alliance og Kveldúlfur. Kveldúlfur á ekki að koma og segja: Ég ætla að fá einn togara, heldur: Ég ætla að kaupa 3–4–5 togara. En það gerir hann ekki, heldur virðist planið vera það að velta yfir á Reykjavíkurbæ 12–13 skipum, en þeir, sem safnað hafa peningum, þeir halda að sér höndum, Þetta er nú eina nýsköpunin, sem menn vita um. Það hvílir þung ábyrgð á ríkisstj. í þessum efnum, því að hún hefur algerlega vanrækt að festa í þessum kaupum þá aðila, sem átti að festa, láta þá segja já eða nei og láta þá taka á sig ábyrgðina af því, ef ekkert var gert, og láta þá ekki sleppa út úr þeirri sjálfheldu, sem þeir væru þá komnir í. En í staðinn fyrir þetta situr ríkisstj. með allt gumsið og er í vandræðum með það.

Ég játa það, að nauðsynlegt var að tryggja þjóðinni nýja togara og skip. En það átti að gera það með fyrirhyggju og binda þá í málið, sem átti að binda, og gera svo skynsamlegar ráðstafanir með afganginn, sem ekki var hægt að ætlast til, að yrði keyptur, og leggja þá fram eitthvert fé til stuðnings bæjarfélögum og öðrum aðilum. Og eins og ég hef sagt áður, hafa menn unnið og framkvæmt ýmsar almennar framfarir þrátt fyrir aðgerðir ríkisstj., en ekki vegna þeirra. Því að sannleikurinn er sá, að með framferði sínu hefur ríkisstj. stöðugt gert mönnum erfiðara og erfiðara fyrir um allar framfarir. Og þetta stafar fyrst og fremst af því, að traustan framfaragrundvöll vantar. Það er ekki hægt að byggja upp framkvæmdir, sem eiga að vera til frambúðar, öðruvísi en það sé samhliða tryggur grundvöllur til að byggja á. Aðrar þjóðir hafa lagt mikið á sig til að tryggja þennan grundvöll, og það er áreiðanlegt, að Íslendingar eru eina þjóðin, sem hefur fundið upp það snjallræði, að aukin dýrtíð væri vísust til að tryggja þetta. Ég held þetta sé vegna þess, að erlendis er það viðurkennt, að traustur fjárhagsgrundvöllur er undirstaða allra sannra framfara. Og þótt það þyki gott að fara á verðbólgufyllirí um stund, þá hefnir það sín illa. Og það mun hvergi þekkjast annars staðar en hér, að forustumenn þjóðarinnar gangi fram fyrir skjöldu og prédiki það, að dýrtíðin sé blessun. Hitt er svo annað mál, að í þessum löndum hafa kjarabætur verið látnar haldast í hendur við aukna tækni og því að öðru leyti komið þannig fyrir, að þær verði ekki til þess að koma á slíku öngþveiti og hér.

Ég hef sagt þetta í sambandi við þetta mál vegna þess, að, þetta frv. markar stefnuleysi stjórnarinnar í þessu máli. Er því eðlilegt, að umr. um þetta mál eigi sér stað, þegar þetta frv. er afgreitt.