26.02.1946
Neðri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Hv. 2. þm. S.-M. hefur búið til ævintýri um það, að ég hafi staðið streittur við að lofsyngja dýrtíðina í landinu. Þetta er vitanlega rangt. Það er að vísu rétt, að ég sagði í útvarpsræðu, að þrátt fyrir marga galla dýrtíðarinnar mætti ekki gleyma því, að hún hefði einn kost, hún hefði verið notuð til að skipta stríðsgróðanum milli landsmanna. Þetta veit hv. þm., að er rétt. Bændur hefðu ekki borgað skuldir sínar á jafnskömmum tíma, ef kjötkílóið hefði verið í sama verði og það var fyrir stríð. Og hv. þm. veit einnig, að verkamenn hefðu ekki bætt hag sinn eins fljótt og raun ber vitni, ef kaupgjaldið hefði ekki verið hækkað. Hitt er svo jafnljóst mál, að hin mikla verðbólga leiðir af sér margvísleg vandkvæði, og það getur komið að því, fyrr en varir, að þjóðin verði að horfast í augu við þau vandkvæði.

Það er misskilningur hjá hv. þm., að ég hafi minnzt á aukningu dýrtíðarinnar meðan hann var ráðh. og stjórnaði viðskiptamálunum í því skyni að hallmæla honum fyrir það. Ég gerði það til þess að benda á, að þrátt fyrir skoðun hans á þessu máli og aðstöðu þá, sem hann þá hafði, tókst honum ekki að ráða við dýrtíðina. En hvers vegna tókst honum ekki að halda dýrtíðinni niðri? Hvers vegna gat hann ekki þrátt fyrir ákvæði gerðardómslaganna haldið dýrtíðinni í skefjum árið 1941? Það var vegna þess, að almenningur skildi ekki, hver hætta stafaði af því að sleppa dýrtíðinni lausri. Og fjölmennustu stéttirnar skilja það ekki enn þá, til hvers dýrtíðin getur leitt. Viðhorfið í dag er að þessu leyti algerlega það sama og árið 1941. Málsvarar landbúnaðarins heimta hækkað verð á landbúnaðarafurðum. Það er ekki hægt að standa á móti því, en um leið og sú hækkun fer fram, kemur krafa um hækkað kaup. Þannig hefur gangur málanna verið um 5 ára skeið. Ég held því, að það sé fremur erfið aðstaða fyrir hv. þm. að ráðast eins hatrammlega að ríkisstj. eins og hann gerir, þótt lítilleg hækkun dýrtíðarinnar hafi átt sér stað síðan hún tók við völdum, ef maður athugar, hvernig honum tókst að leysa þessi mál meðan hann var í stjórn.

Hv. þm. breiddi sig yfir það, að ég hefði sagt, að erfitt yrði að lækka kaupið meðan atvinnuvegirnir þyldu að borga það. Hv. þm. dró það í efa. En reynslan hefur sýnt, að aðalatvinnuvegur þjóðarinnar hefur fram á þetta ár staðið undir því kaupgjaldi, sem greitt hefur verið. Að vísu fór það svo, að síldveiðarnar í sumar sýndu stórkostlegan halla. En það stafaði ekki af kaupgjaldi, heldur af aflabresti, og þá áhættu hefur atvinnulífið alla tíð haft og mun hafa. Hv. þm. var að hæla sér af því, að hann hefði ekki sagt eitt í dag og annað á morgun. Ég er mér ekki meðvitandi um það, að ég eða flokksbræður mínir hafi varðandi þetta sagt eitt í dag og annað á morgun. En ég man ekki betur en hv. þm. hafi í haust verið með harðvítugar árásir á ríkisstj. fyrir það, að hún hefði ekki hækkað verðlag landbúnaðarafurða nógu mikið. Það má því að þessu leyti heimfæra það upp á hann, að hann hafi sagt eitt í dag og annað á morgun. Það er ekki hægt jafnhliða að færa dýrtíðina niður, en hækka um leið verð á framleiðslu í landinu. En eins og ég sagði áðan, er mér ljóst, að það getur komið að því fyrr en varir, að óhjákvæmilegt verði að byrja að færa dýrtíðina niður í landinu.

En ég sé ekki ástæðu til að vera að þrátta við hv. þm. um afgreiðslu á fjárl. Hann sagði rétt um það, að samvinna var innan ríkisstj. um afgreiðslu þeirra, en hann sagði ekki allt um það, og hirði ég ekki um að greina frá því. En hv. þm. væntanlega minnist þess, að að nokkru leyti var horfið að þeim óskum, sem fram komu hjá honum. En hvort samkomulag næst um slík mál eða ekki, þá verða þm. vitanlega hver og einn að bera sína ábyrgð á því, að fjárl, séu ekki hækkuð fram úr allri skynsemd. Og þótt mér sé að vísu ljós þörfin fyrir verklegar framkvæmdir, þá er hitt víst, að það er ekki nema takmarkað, sem hægt er að gera á hverju ári. Og þm. verða að gera sér grein fyrir því, til hvaða framkvæmda er hægt að veita í hvert sinn. Og það afsakar ekkert að sprengja fjárl. upp úr öllu hófi, þótt ekki náist samkomulag.

Hv. þm. fór að tala um skattana og minntist á það, að ég hefði talað um, að mér ógnaði, hvað skattarnir hefðu verið þungir á árunum 1930–40, en síðan stjórnin, sem ég á sæti í, tók við völdum, hafi engin tilraun verið gerð til þess að létta þessum sköttum af mönnum. Það er rétt, að skattarnir hafa ekki verið lækkaðir, ekki beinir skattar, — nokkrar tollalækkanir hafa orðið. En þrátt fyrir það, þó að skattstiginn hafi ekki verið lækkaður, er hitt víst, að skattarnir koma ekki vitund tilfinnanlegar við menn nú en á þeim árum, sem hv. 2. þm. S.-M. fór með fjármál landsins, og má segja, að það stafi af því, að krónan hafi orðið verðminni en hún var þá. Hitt er aftur á móti engum vafa undirorpið, að á allan hátt væri mun æskilegra, að takast mætti að lækka skattana. Hins vegar veit hv. þm., að þegar núverandi stjórn tók við völdum, var fjárhagsviðhorfið orðið slíkt, að óhugsandi var að lækka skattana. Hver á sökina, skal ég ekki ræða hér, en ég hygg, að ef hv. þm. stingur hendinni í eigin barm, muni hann komast að þeirri niðurstöðu, að hans flokkur eigi ekki minnstan þátt í, að svo fór sem fór.

Ég held það sé rangt, sem hv. þm. hélt fram, að enginn vildi kaupa eða nýta hin nýju tæki. Ég held þvert á móti, að sé gott útlít um það, að nægilegt fjármagn fáist til þess að togararnir verði gerðir út, ef ekki koma fyrir ófyrirsjáanleg atvik. — Þá gerði og hv. þm. mikið úr því, að stjórnin hefði ekki gert neitt til þess að nýbyggingarsjóðirnir yrðu notaðir til nýbygginga. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm, hefur þessa vizku, en hitt veit ég, að stjórnin er með till., sem miða að því, að allir nýbyggingarsjóðirnir fari nú þegar inn í nýsköpunina.

Ég held svo, að sé ekki ástæða fyrir mig að víkja að fleiru í ræðu hv, þm. Þessi umr, er að mestu leyti utan dagskrár, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, en ég vildi hins vegar ekki skorast undan því að ræða við þm, um þessi mál, sem óneitanlega varða þjóðina mjög miklu.