05.04.1946
Neðri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Út af því, sem hæstv. ráðh. beindi til mín viðvíkjandi fjhn., þá vil ég upplýsa, að ég tók sæti í n. eftir að hv. þm V.-Ísf. fór utan. Og hygg ég, að þessi fyrirspurn eigi sérstaklega, við brtt., sem komið hefur fram í sambandi við afgreiðslu þessa frv.

Það var álit nefndarmanna, að þetta væri mjög stórvægilegt, og því þyrftu þeir að ræða um það í flokkum sínum, hvaða afstöðu bæri að taka og síðan kæmi nefndin saman og ákvæði þetta.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið við spurningum mínum, en þó kom ekki fram beint svar viðvíkjandi valdsviði flugmálastjóra, hvort hann hefði vald til að semja við erlend flugfélög um flugsamgöngur hér. Þetta er stórt atriði og gott að fá upplýst, hver sé skoðun ríkisstj. um valdsvið flugmálastjóra, því að þetta er stórt mál og vandasamt. Og ég tel ótilhlýðilegt, að flugmálastjóri hafi þar síðasta orð, en ekki ráðh. og Alþ.