13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Það, að ég kvaddi mér hljóðs nú, er vegna orða, sem féllu frá hv. 10. landsk., sem var áframhald af því, að við fyrri umr. þessa máls vakti hann máls á því hér í d., að svo kynni að vera, að nokkrir menn hefðu hug á því að mynda hlutafélag og reisa hér mjög stórt gistihús í bænum á tilgreindum stað, og orðaði, hvort ekki væri ástæða til fyrir n. að rannsaka þetta nánar. Ég sagði, af því að hv. frsm. var ekki staddur í d., að rétt væri, úr því að þetta mál væri komið inn í þ., að athuga þetta frekar. N. hefur að vísu ekki talað við þessa menn, en þessir menn, sem hér er átt við, munu nokkrum sinnum hafa átt tal við hæstv. ríkisstj., og samgmrh. hefur sagt mér og leyft mér að hafa það eftir, að þessum mönnum hafi verið boðin þátttaka í hinu nýja fyrirhugaða gistihúsi, sem hæstv. ríkisstj. o. fl. ætla að reisa, og þessir menn hafi ekki tekið ólíklega í að verða meðeigendur að slíku gistihúsi, en þó með nokkrum skilyrðum, þar á meðal, hvar húsið væri reist. Að þessum upplýsingum fengnum frá hæstv. ráðh. tel ég, að allshn. geti ekki frekar rannsakað þetta mál, auk þess sem mér virðist, að ef þessir menn hafa hugsað sér að fá allshn. til að beita eitthvað áhrifum sínum í þessu máli, þá hefði verið fyrst og fremst þeirra að tala við okkur, en ég geri ráð fyrir, að þeir hafi talið það óþarft og þess vegna hafi þeir snúið sér til hæstv. stj., sem ég tel líka vera rétt.

Að öðru leyti skal ég ekki frekar en ég gerði við 2. umr. fara inn á frv., en afstaða meiri hl. n. var þá skýrð, og ég held, að meiri hl. n. og hv. 10. landsk. hafi í öllum verulegum atriðum verið sammála um skilning á þessu, þó að ég sé hins vegar þeirrar skoðunar, að þegar búið er að breyta frv. í þá átt, sem nú er fyrirhugað, að veita eignarnámsheimild fyrir ákveðinn landskika og hús, sem á þeim landskika standa, þá að sjálfsögðu líti málið allt öðruvísi út en ef gefin er heimild til að taka hvaða land sem er og hvaða hús sem er innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Ég held, að á þessu sé mikill meginmunur. Og þó að n. hafi sagt, eins og hv. frsm. tók fram, að n. mundi mæla með eignarnámsheimild á öðrum ákveðnum lóðum, ef þetta svæði yrði ekki tekið fyrir gistihúsbygginguna, þá er samt sem áður sá munur á, að í hverju einstöku tilfelli er um ákveðið land að ræða hjá n. og Alþ., þannig að ef þ. kæmist að þeirri niðurstöðu, að eignarnám væri ekki réttlætanlegt, af því að um almenningsheill væri ekki að ræða, þá mundi þingið neita um slíka eignarnámsheimild. Þetta er mjög mikil prinsipiel breyting frá því, sem er nú í frvgr., en verði hún samþ., þá tel ég ekki lengra gengið en gert hefur verið margsinnis áður.