13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Sigfús Sigurhjartarson:

Hv. þm. Snæf. sagði, að sér fyndist óskiljanleg afstaða mín í þessu máli. Mér finnst aftur óskiljanlegt, og ég held það verði ekki til að bæta lélega afstöðu þessa þm., að hann skuli leggja mér í munn röksemdir, sem ég hef ekki sagt. T. d. í fyrsta lagi, að ég er ekki á móti, heldur með 5. gr. frv. og tel hana eðlilega og er á móti brtt. um að fella hana niður. Ég benti á, að hv. allshn. vildi hafa hönd í bagga með, hvaða staður yrði valinn, og meiri hl. hennar vill nú veita eignarnámsheimild. Ríkisstj. hefur bent á stað, og hefur sagt já. Ég hef talið, að þessi staður sé heppilegur, en ég hef einnig bent á erfiðleikana í sambandi við hann. Á þessum stað standa nú sjúkrahús og barnaheimili. En sjúkrahús mega ekki hverfa nema önnur komi í staðinn, og sama gegnir um barnaheimili. Væri ekki réttmætt að veita eignarnámsheimild fyrir aðra staði?

Ég skal svo út af ummælum hæstv. ráðh. segja þetta. En hann sagði, að sjúkrahúsið og barnaheimilið gæti staðið, þótt hótelið verði byggt. Það getur verið, að þessar stofnanir geti staðið á meðan verið er að byggja, en ekki lengur. Og þó kemur það ekki til mála að hafa sjúklinga í húsi, þar sem verið er að reisa stórhýsi rétt við hliðina á. Ég sagði ekki, að erfiðleikarnir væru ósigrandi, en hitt sagði ég, að þeir væru miklir, og það er fullvíst, að nú sem stendur ríður mest á að tryggja sjúkrahús og barnaspítala hentugan stað. Ég get ekki orðið við tilmælum hæstv. ráðh. að greiða atkv. með brtt. hv. n., heldur mun ég standa með frv. eins og það var upphaflega, og vænti ég, að hæstv. ráðh. virði það ekki til fjandskapar við sig.