13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. var að tala um það, að það mætti eiga von á deilu milli mín og samþm. hans um KEA á Akureyri. En ef hann vonaðist eftir skemmtun af því, þá held ég, að sú von bregðist og sú skemmtun verði lítil fyrir þann hv. þm. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að deila um það. Ég lét aðeins undrun mína í ljós út af því, að hv. 1. þm. Reykv. skyldi vera hér með hreina slúðursögu um þetta hótel, og ég held, að hans vegur vaxi ekki af því. Aftur sagði hv. 6. þm. Reykv. alveg satt og rétt frá um þetta hótel, og ég býst við alveg af eigin sjón og raun, og ég hugsa, að hann verði þó tæplega grunaður um hlutdrægni gagnvart eigendum þessa hótels. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þetta hótel KEA á Akureyri væri eina lúxushótelið, sem til væri í landinu, og þar til merkis um væri það, að þangað fengju ekki aðrir að koma en yfirstéttarmenn. En sannleikurinn er sá, að þangað fá allir að koma, hvernig sem þeir eru búnir. En það má víst telja þetta hótel standa öðrum hótelum landsins framar að því leyti, að þangað fá allir að koma, hvernig sem þeir eru klæddir. En þó að það hafi þetta fram yfir flest önnur hótel, þá er ekki hægt að kalla það lúxushótel að því leyti, að það sé það dýrasta, því að bæði herbergi og veitingar munu vera þar heldur ódýrari en á hótelum hér í Reykjavík. Og þó er það svo, og fróðlegt fyrir hæstv. samgmrh. að vita það, að síðan sá hótelrekstur byrjaði, hefur hann borgað sig fjárhagslega. Því að þótt kaupfélag Eyfirðinga hafi reist þetta hótel, þá heldur það reikningnum alveg fráskildum frá sínum fjárhag að öllu leyti, og er auðvelt að sjá það í þessum reikningum þess, hversu það hefur gengið vel. Og veit ég þó ekki til, að það hafi farið inn á neinar óheppilegar brautir, sem hæstv. ráðh. var að tala um, að hótelin færu stundum inn á og með því móti gætu þau borið sig.

Eins og sjá má af nál. fjhn., þá tók ég ekki þátt í atkvgr. um málið né heldur hv. þm. Dal. Við höfum þó ekki klofið n. eða skilað neinu sérstöku nál. Hv. form. n. sagði mér frá því í gær, að það yrði haldinn fundur til þess að afgr. málið. En þar sem ég vissi, að hann var þá þegar með undirskrifað nál. þriggja nm. og fundurinn var ekki nema formið, þá sá ég enga ástæðu til þess að mæta á fundi, af því líka að hv. þm. tók það fram, að ekkert yrði til umr. annað. Og ég tók því engan þátt í afgreiðslu málsins, og hef ég því að sjálfsögðu óbundnar hendur um atkv. mitt.

Vegna þess að ég skoða mig ekki sem minnihlutamann né frsm. minni hl. í n., þá býst ég við, að ég hefði látið þetta mál afskiptalaust hér við þessa umr., ef hv. 1. þm. Reykv. hefði ekki séð ástæðu til þess að fara að blanda Hótel KEA á Akureyri inn í þetta, án þess að ég sé sérstaklega að taka það illa upp. (MJ: Var það ekki 6. þm. Reykv., sem bað hv. þm. að standa upp?) Það var 1. þm. Reykv., sem sagði slúðursöguna, sem ekki hefur við neitt að styðjast. (MJ: Þetta er sönn saga). Ég er því svo kunnugur, að ég hef séð hundruð manna koma þar inn á Hótel KEA í alls konar ferðafötum og fá þar allan beina. Og ég hygg, að við hv. 1. þm. Reykv. getum báðir hlítt dómi hv. 6. þm. Reykv. um þetta hótel, og hv. 1. þm. Reykv. getur sjálfur leitað til fleiri flokksbræðra sinna um það heldur en hans. Ég læt svo útrætt um þetta hótel.

Ég viðurkenni fúslega, að það er full þörf á því að byggja hótel hér í Reykjavík, því að það er náttúrlega til minnkunar hreint og beint, hvað illa er séð fyrir þörf ferðamanna, hvort sem þeir eru erlendir eða íslenzkir, sem koma hingað til bæjarins. Og þess vegna er hægt að undrast það, að ekki skuli hafa verið hafizt handa fyrir löngu til þess að hrinda því máli áleiðis, sem er alveg nauðsynlegt.

Hitt er svo allt annað mál, hvort nauðsyn beri til þess að gera ríkis- eða bæjarrekstur úr þessu, og hvort nauðsyn beri til þess að ráðast í svo stórt fyrirtæki, sem hér er um að ræða.

Ég álít, að það sé rétt, sem hv. þm. Str. sagði, að hótelrekstur sé oft mjög arðvænlegur, og þurfi alls ekki að fara inn á þessa óheppilegu braut, sem hæstv. ráðh. var að tala um, til þess að svo sé. Ég byggi það bæði á rekstri hótels KEA, sem viðurkennt er ágætt hótel, og ýmissa annarra hótela, sem ég þekki.

En ég veit ekki vel, hvað hæstv. ráðh. á við með þessum óheppilegu brautum, — það kynni að vera leynisala á víni eða þess konar. En það er alveg áreiðanlegt um sum hótel, sem hefur gengið mjög vel, þá hefur ekki verið um neitt slíkt að ræða. Ég álít því — þó að ég viðurkenni þörfina á þessu hóteli, — að það sé nokkuð fljótfærnislegt af Alþ. að fara nú, áður en gengið er úr skugga um það, hvort ekki er hægt að koma því í kring, að gott hótel yrði reist í Reykjavík, að verja 5 millj. kr. úr ríkissjóði til þess að leggja í þetta hótel og bera svo ábyrgð á rekstri þess að hálfu leyti. Það á náttúrlega ekkert illa við, að t. d. Eimskipafélag Íslands legði fé í þetta, 5 millj. kr., enda mun það hafa verið fúst til þess. Og ef til vill eru það fleiri aðilar, sem vildu gjarnan leggja fé í þetta. (BBen: Það liggur ekkert fyrir um það, að Eimskipafélagið vilji leggja svo mikið fé í þetta.) Það hefur verið gert ráð fyrir því. Sem sagt, þó að ég vilji, að hér komi sæmilega gott hótel, veit ég ekki, hvort það þarf að vera þetta 200 herbergja hótel, sem nú hefur verið talað um og kostar 15 millj. kr., en gott hótel þarf að koma. Og þó að ég álíti fulla þörf á því, þá álít ég, að ekki sé gengið úr skugga um það, en ekkert hefur getað sannfært mig um, að ríkið þurfi nú endilega að taka þátt í þessum rekstri, eins og virðist vera gert ráð fyrir nú. Og það er eins og ekkert sé hægt að gera lengur nema ríkið þá tæki þátt í því, og hefði það einhvern tíma þótt fyrirsögn, að hv. 1. þm. Reykv. legði til, að ríkið ræki hótel, því að ekki var ríkisrekstur svo hátt í huga þessa hv. þm. áður. (MJ: Ég er ekki svo mjög mikið með því heldur). Hv. þm. mælir þó með því.

Þá kem ég að atriði, sem mig langar til að beina til hæstv. ríkisstj., og er það um heimild, sem ríkisstj. var veitt fyrir nokkrum árum og hefur ekki verið notuð. Það er heimild um byggingu, sem Alþ. hefur bæði heimilað og ákveðið að byggð skuli vera eða þá keypt af ríkinu, en mér vitanlega hefur ríkisstj. ekkert gert í málinu, og er þar aðeins að ræða um smámuni í samanburði við þetta. Það er bústaður fyrir alþm., sem eiga heima utan Reykjavíkur, það var beinlínis sett í l. 1942, að ríkisstj. skyldi kaupa hús til þessara nota eða láta byggja hús. Og það var enn heimilað, að stj. leigði húsnæði handa þessum þm., þangað til hún hefði komið þessu í kring. Síðan var á næsta ári sett í fjárl., í heimildargr. þeirra, að ríkisstj. skyldi heimilt að láta reisa þetta hús. Þá var það í 3. sinn, þegar ríkisstj. óskaði lánsheimildar til þess að byggja skrifstofubyggingu og annað slíkt, að þá var heimild til lántöku til þessara framkvæmda bætt inn í þau l. Svo að Alþ. hefur þrisvar sinnum samþ. þetta mál. Og mér virðist ekkert hafa verið í því gert. Nú ætla ég ekki að ræða um það frekar, því að það er á öðrum vettvangi. En ég vildi út af þessu gjarnan spyrja, hvernig ríkisstj. liti á það, hvort ekki mætti útbúa einhvern part af þessu hóteli þannig, að hann yrði hentugur til þessara nota, því að það er vitað mál, að þm., sem dvelja marga mánuði fjarri heimilum sínum, hér í Reykjavík, hentar ekki að öllu leyti venjuleg hótelherbergi, þannig að ef hugsað væri til þess að fullnægja þessu lagaákvæði í sambandi við þessa hótelbyggingu, þá ber að hugsa um það fyrirfram að haga einhverjum hluta eða parti af byggingunni með tilliti til þessa. Þetta vildi ég gjarnan fá upplýst. Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál. Ég mun ekki við þessa umr. spyrna við þessu máli eða leggjast á móti því. Það sýnir sig svo við 3. umr., hvernig endanleg afstaða mín verður.