13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég verð að bera af mér sakir út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði sem nm., að ég hefði boðað hann á fund í fjhn. um málið, en ég hefði verið með nál. undirskrifað í hendinni, og að hann hefði séð, að það þýddi ekkert fyrir hann að koma á fund. (BBen: Er þetta haft svona með öll mál þar?) Hv. 1. þm. Eyf. var búinn að sýna afstöðu sína til málsins, og það er svo hagað störfum í þessari n., eins og öðrum (BSt: Þetta var ekki aðfinnsla frá mér.), að það verður að hraða störfum. Og þess vegna var ég með tilbúna brtt. í hendinni, þegar ég boðaði fundinn, og einnig með nál., en það var bara óundirskrifað. Og ég gerði það náttúrlega til þess að flýta fyrir málinu, því að enginn tími var til fundahalda síðan. Ég gat ekki haldið fundi nema á meðan deildarfundir stóðu.

Ég vil svo segja það, að mér þykir hv. 1. þm. Eyf. hafa nákvæmt eftirlit með Hótel KEA á Akureyri, að hann skuli vita, að þetta atvik hefur aldrei komið fyrir þar. Ég var staddur á Akureyri, þegar þetta skeði. Hitt skil ég, að hann vildi taka undir lof hv. 6. þm. Reykv. um þetta atriði. Auðvitað er stjanað við borgarstjórann í Reykjavík. (BBen: Hann gisti þar ekki). Nei, heldur leiddur um eins og þegar verið er að sýna útlendum nefndarmönnum Rússland. Og þess vegna er þessi skýrsla borgarstjórans ekki veigamikil.

Hitt er satt, að Akureyringar standa mjög framarlega með gistihús. Og ég get ekki tekið undir það, að ég sé ákaflega mikið fylgjandi þessu frv. Það má segja Akureyringum til mikils lofs, að þeir standa Reykvíkingum framar á þessu sviði, þeir hafa reist þessi mörgu ágætu gistihús. En hér í Reykjavík, þar sem fólkið er flest og möguleikarnir mestir til þess að reka gott gistihús, þar þarf ríkið að koma til og löggjöf til þess að koma upp góðu hóteli. Ég skaut því fram áðan, þegar hv. 1. þm. Eyf. var að tala, að ég er ekki mikið með því, að ríkið reki hótel, og ég skal játa það nú, að ég er ekki mikið með því. Mér hefði þótt það miklu myndarlegra fyrir Reykvíkinga, ef aðrir aðilar hefðu komið upp eins myndarlegu hóteli og hér er um að ræða. Ég get frekar hugsað mér, að bærinn tæki þátt í því, en að bærinn og ríkið taki að sér að koma því upp. Og það er meðal annars af því, að ríkið verður að leggja þarna fé í fyrirtæki, sem það svo ekki ræður fyrir. Ég álít, að ríkisstj. geti ekki farið á sama hátt að með fjármuni sína og einstaklingum er frjálst, að leggja fé sitt í áhættusöm fyrirtæki. En út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. talaði hér um að hugsa sér þetta sem hlutafélag, og hvað hann ætlar að gera með brtt. hv. þm. Barð. um það að veita undanþágu um atkvæðamagnið fyrir hlutafélögum, því að mér skilst, að ef það eru 3 aðilar, þá sé ekki hægt að fullnægja skilyrðum hlutafélags, það er ekki hægt að fullnægja þeim ákvæðum hlutafélags nema ekki séu í því færri en 5 aðilar og enginn færi með meira en 20%. Það er ekki hægt, ef hlutafélagið á að vera fullkomið, því að þá verður að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Ég vona svo, að þeirri skemmtun d:, sem hv. 6. þm. Reykv. boðaði milli mín og hv. 1. þm. Eyf., sé lokið.

Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Eyf., að þetta hótel verði reist þannig, að fullnægi sem bezt þeirri miklu þörf, sem er fyrir gott hótel, og einmitt þessi hugmynd, að það væri þar einnig gerðar nægilegar vistarverur fyrir utanbæjarþm., er tilvalið og ágætt, að hann skyldi skjóta þeirri hugmynd fram, ef öðrum hefði ekki dottið það í hug, því að ég hygg, að það, sem staðið hefur í vegi þessu þingmannahóteli, er það, að það verður að vera hægt að reka það í sambandi við gistihúsrekstur. Og mér virðist mjög eðlilegt, að þm. sé séð fyrir vistarverum á þessu hóteli, ef ekki verður séð fyrir þeim á annan hátt.