16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Páll Zóphóníasson :

Herra forseti. Mig langar bara til að beina tveimur spurningum til hæstv. samgmrh., áður en ég greiði atkv. um þetta mál.

Í 67. gr. stjskr. stendur, með leyfi hæstv. forseta : „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.“ — Nú vildi ég spyrja: Hver almenningsþörf krefst hér eignarnáms? Er það þörf erlendu gestanna? Eða er það þörf þeirra, sem ætla að reka hótelið og ætla að afla sér fjár á því? Hver almenningsþörf er þetta? Og ef svo er, að hæstv. ráðh. líti svo á, að það sé þörf allrar íslenzku þjóðarinnar, þá vildi ég gjarnan fá að heyra, á hvaða rökum það er byggt. Ég sé ekki, að svo sé.

Hins vegar hafa nú verið hér amerískir verkfræðingar nokkurn tíma, til þess að leita að stað undir þetta hótel. Einhver hefur sagt mér, að þeir mundu vera um það bil að fara aftur. Þá langar mig til að spyrja, hvort þeir eru búnir að finna þennan stað, ef þeir eru að fara aftur. Og ef þeir eru ekki að fara, þá hve lengi þeir muni leita í bænum, þangað til þeir finna stað fyrir hótelið, og hvort það muni ekki geta orðið svo fljótt, að það væri búið áður en þinginu lýkur.

Undir fyrri umr. þessa máls upplýsti hæstv. ráðh., að óvíst væri eða hæpið, hvort hægt væri að byrja á þessu hóteli nú í ár, — í sambandi við það, þegar ég var að tala um verkamenn til að vinna við það og byggingarefni, sem í það færi. Ef það er hæpið og kannske útilokað, að hægt verði að byrja á að byggja þetta hótel í ár, er þá ekki nógur tími til að fá eignarnámsheimild um ákveðinn stað fyrir það, þegar Ameríkanarnir eru búnir að finna hann og þingið kemur saman aftur? Ef þeir eru að fara utan nú og eru ekki búnir að finna staðinn, koma þeir sjálfsagt aftur, því að enginn getur fundið staðinn nema þeir(!). Ef ekki verður byrjað á að byggja þetta hótel fyrr en að ári, þá skilst mér, að það muni vera nógur tími til að fá þessa eignarnámsheimild í haust, þegar þingið kemur saman aftur.