16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Sveinbjörn Högnason:

Ég fæ ekki skilið, að hér sé um svo brýna almenningsþörf að ræða, að rétt sé að heimila að taka eignarnámi hvaða lóð og hvaða mannvirki sem er í þessum bæ og láta það þoka fyrir þessari stofnun, en það er það, sem hér um ræðir. Ég er alveg viss um það, að ýmsir þm. vilja gefa eignarnámsheimild fyrir þessum og þessum stað, en hins vegar er ég alveg viss um, að enginn þm, vill gefa eignarnámsheimild til þess að láta hvaða stað sem er þoka fyrir þessu mannvirki. Það er einn mjög mikill eðlismunur á þessu eignarnámi og öðrum, sem gefin hafa verið, og hann er sá, að hér er um að ræða mjög fjársterkan aðila, sem gæti keypt upp svo að segja hvaða eign sem væri, eða hvort það er aðili, sem hefur takmörkuð fjárráð og mundi ekki taka eignarnámi það, sem honum væri ofviða að standa undir, eins og er í flestum tilfellum öðrum. Ég vildi gjarnan fá upplýst, hvort það er t. d. ætlunin, að sjúkrahús verði látin þoka fyrir þörfinni á því að byggja hér yfir útlenda ferðamenn. Ég er því andvígur og mun aldrei ljá mitt atkvæði til þess að láta skorta t. d. sjúkrahús vegna þeirrar nauðsynjar, sem hér um ræðir. Það yrði þá a. m. k. að vera fullkomin trygging fyrir því, að það yrði algerlega bætt upp með nýjum sjúkrarúmum í stað þeirra, sem væru látin þoka fyrir þessu. Ég hygg þá almenningsþörf brýnni að bæta úr fyrir hinum sjúku, sem verða oft að bíða, eins og kunnugt er, langan tíma eftir því að geta fengið sjúkrarúm.

Þetta er aðeins eitt dæmi. Ég er því mótfallinn. Það er hægt að bera niður á einhverjum öðrum stað, þar sem er meiri ástæða að vera á móti en hér. — Munur er þess á milli að veita þrem fjársterkustu aðilum þjóðarinnar slíka eignarnámsheimild ellegar gefa hana á vald fátækum félögum í kaupstöðum eða bæjarfélögum, sem hafa lítil fjárráð og geta ekki látið stórar upphæðir af hendi rakna. Er meiri ástæða til hins síðara, enda er stórkostlegur eðlismunur á þessu tvennu. — Eins og nú er háttað meðferð fjár hér, sýnist mér eigi vera horft í eyrinn, er leggja á fram. Annars er einkennilegt mjög, að fyrst þá skuli vera orðin svona mikil almannaþörf á að reisa hótel, þegar útlendingar eiga í hlut og vænzt er komu þeirra til landsins. Á hinn bóginn, þegar innlendir menn ætla að leggja fram fé til byggingar gistihúss, þá er sem allt stjórnarliðið sé handjárnað. Svo þegar útlendingar koma til sögunnar, er almenningsþörfin skyndilega orðin geipileg. — Ég vil spyrja hér, hvort vitað sé eða ákveðið um stað þann, er taka á undir hina fyrirhuguðu byggingu. Óhugsanlegt er, að svo langan tíma þurfi til að ákveða staðinn sem raun ber vitni, og má af því ráða, af hvaða kappi málið er sótt. Og auk þess, að ég fæ ekki skilið, hví menn, ókunnir staðháttum, eigi að ákveða staðinn undir hótelið, þá grynni ég ekki í, að langan tíma þurfi til þess, jafnvel þótt um útlendinga sé að ræða. Ég væni hæstv. stj. fastlega um að halda að sér höndum, en hef þó jafnframt ástæðu til að ætla, að einmitt sá staður sé hafður í huga, sem margir hv. þm. mundu aldrei gjalda jákvæði sitt við, að valinn væri. — Á að gera þetta undir fölsku flaggi? Þetta atriði málsins verður að athuga frekar.