12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Í útvarpsumræðunum hér í gærkvöld heyrði ég, að hv. þm. Str. (HermJ) gerði að umtalsefni frv., sem ég hef beðið félmn. Ed. að flytja, og gaf í skyn, að það frv. væri grunsamlega líkt öðru frv., sem hann hefði flutt á Alþ. ásamt öðrum þm., og hefði því verið útbýtt nokkru áður en mitt frv. kom til félmn., og hv. þm. Str. komst svo að orði, að þessi frv. væru svo lík, að jafnvel sömu prentvillurnar væru í síðara frv. eins og í hinu fyrra frv. Ég vildi út af þessu, þar sem gefið hefur verið í skyn, að hér hafi eitthvert hnupl átt sér stað, lýsa yfir því, að það frv. sem ég hef lagt fram, tveir fyrstu kaflar þess, voru samdir nokkru áður en frv. hv. þm. Str. kom fram á Alþ. En í skrifstofunni, þar sem frv. var samið, er að vísu starfandi einn framsóknarmaður, og ég vil ekki, fyrr en annað reynist, trúa því, að sá ágæti maður hafi gert sig sekan um að misnota aðstöðu sína til þess að láta hv. þm. Str. hafa kafla úr mínu frv. til að flytja hér á Alþ.