15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

7. mál, skipakaup ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þó að meðferð þessa máls sé óneitanlega ábótavant og hún sé fáránleg, þá er það meira af annarra hendi en hæstv. forseta: Ég skal þess vegna ekki mikið segja út af því, þó að 2. umr. fari nú fram.

Ég álít, að það sé skynsamlegt, að frestað hefur verið framkvæmdum af hendi Landssmiðjunnar um smíði 8 af þessum bátum. Ég álít, að það sé alveg sjálfsagt að athuga mjög gaumgæfilega aðstæður allar, áður en haldið er lengra áfram á þeirri braut að smíða bátana þar. En ég sakna þess, að hæstv. atvmrh. hefur ekki á reiðum höndum skýrslu um verðlag á þessum bátum annars vegar og t. d. sams konar bátum frá dönskum skipasmíðastöðvum hins vegar. Því að óneitanlega væri gott að fá upplýsingar um það. Ég vænti þess, að hæstv. atvmrh. gefi slíkar upplýsingar við 3. umr. málsins.