08.10.1946
Neðri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Pétur Ottesen:

Ég þarf ekki að rifja upp það, sem fram fór í umr. um þetta mál hér í gær, né þær aths., sem ég bar fram við þann lið frv., sem lýtur að fiskveiðarétti til handa Færeyingum. Þessi brtt. n. var samþ. hér, eins og kunnugt er, á síðasta fundi, með því orðalagi, sem á henni er frá n., sem sé, að sá réttur, sem hér er, er ekki bundinn við neinn ákveðinn tíma, heldur miðað við, að samningum ljúki við Dani um þetta og máske önnur mál, sem sett hafa verið í samband við þetta mál. Þetta tel ég alveg óviðhlítandi, að láta slík réttindi svífa svo í lausu lofti, eða um framhald þeirra, eins og samkv. þessu orðalagi. Ég hef því, til þess að draga úr því, sem ég tel vera hættu í sambandi við það mál, flutt brtt. um það, að þessi réttur gildi til 31. des. 1946. Eftir því sem fram kom í umr. um málið hjá hv. frsm. og fleiri, sem töluðu í málinu, þá mun hafa verið vakið máls á því af samninganm., og að því er virðist af ríkisstj. sömuleiðis, að láta þennan rétt haldast til næstu áramóta, eða að samninganm. hafi verið heitið því. En þó að ég hafi verið fyrir mitt leyti alveg á móti því að gefa slík forréttindi bæði af hálfu n. og eins af hæstv. ríkisstj., þá tel ég þó, að slíkt umboð sé ekki fyrir hendi frá Alþ., en úr því svo er komið og eins og ástatt er eftir atkvgr. að dæm. í hv. d., að það bæri að afgr. málið eins og lagt er til í brtt., sem gengur í sömu átt og rætt hefur verið í n. og þau forréttindi, sem þar hafa verið gefin, þykir mér undarlega bregða við, ef Alþ. vill ganga lengra í þessu efni. Þess vegna hef ég lagt til, að þessi réttindi verði takmörkuð við 31. des. 1946, og vænti ég, að hv. d. vilji fallast á það.