08.10.1946
Neðri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég hafði nú aðeins hugsað mér að kveðja mér hljóð, til þess að segja það eitt, að ég er eindregið fylgjandi að aðalefni þeim aðaltill., sem hér hafa verið bornar fram. Mér þótti rétt, að það kæmi fram við þessa umr., að þær voru bornar fram efnislega í samráði við mig, því að þetta mál mun falla undir mig fyrst og fremst og mitt ráðuneyti.

Ég vil svo aðeins, til viðbótar við þetta og í sambandi við það, sem sagt hefur verið út af orðalagi 2. gr., bera fram smábrtt., sem ég vænti, að geti sameinað sjónarmiðin. Hv. þm. Borgf. vill, að sú heimild, sem 2. gr. fjallar um, Sé miðað við 31. des. 1946. Stuðningsmenn málsins hafa til samkomulags við þá hugsun borið fram brtt. um, að seinustu 4 orð 2. gr. falli niður. En hv. þm. Borgf. og aðrir, sem eru á hans máli, hafa nú ekki viljað sætta sig við þetta. Ég vil nú leyfa mér að bera fram þá brtt., að í stað orðanna „þar til samningum er lokið“ komi: þó eigi lengur en til ársloka 1947. Hygg ég, að þetta ætti að geta fullnægt báðum málsaðilum. Leyfi ég mér svo að bera fram þessa brtt. og afhenda hæstv. forseta til meðferðar.