23.07.1946
Sameinað þing: 3. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Pétur Ottesen:

Ég get mjög tekið undir það með hv. frsm. utanmrn., sem hér talaði áðan, að það er ákaflega fögur hugsjón, sem vakir fyrir bandalagi hinna sameinuðu þjóða, og frá því sjónarmiði er það þess vegna eðlilegt, að allir þeir menn og allar þær þjóðir, sem þannig hugsa, vilji verða þátttakendur í því samstarfi, sem hér er um að ræða. Hins vegar ber því ekki að neita, að sams konar hugsjón vakti einnig fyrir þeim mönnum, sem eftir fyrri heimsstyrjöld, 1914–1918, stóðu að því að stofna þjóðabandalagið þá, en því miður sýndi rás viðburðanna það, að þessi hugsjón átti sér ekki djúpar rætur meðal þeirra þjóða, sem þar áttu hlut að máli, og varð þess vegna að litlu haldi fyrir friðinn í heiminum, og ég verð að segja það, að því miður virðist það, sem fram hefur farið í starfi þeirra þjóða, sem að þessum samtökum standa, benda til þess, að sömu erfiðleikarnir ætli að verða á vegi þessarar fögru hugsjónar nú eins og urðu þjóðabandalaginu fyrra að fótakefli. Það er þó von allra góðra manna, að betur rætist úr en á horfist í þessu efni. Þjóðirnar og mannkynið á mjög mikið undir því, að á þá sveif snúist, en ekki frekar en orðið er á ógæfuhlið í þessum efnum. Reynsla sú, sem fengizt hefur í þessum efnum í okkar tíð, sem nú erum nokkuð komnir á fullorðins aldur og höfum lifað tvær ógurlegustu heimsstyrjaldir, sem sögur fara af, færir okkur heim sanninn um það, að þörf væri á betri skipun mála á næstunni heldur en verið hefur á þessu tímabili í okkar ævi í þessum efnum.Ég get engan veginn tekið undir það með hv. 3. landsk., sem síðast talaði hér fyrir þeirri brtt., sem hann hefur hér flutt, að alþm. hafi ekki gefizt til þess forsvaranlegur tími að gera sér grein fyrir eðli og þýðingu þessa máls, sem hér liggur fyrir. Mér virðist, að hæstv. ríkisstj. hafi búið þetta mál svo vel í hendur okkar þm., að við höfum haft nægan tíma og nægt tóm á þessum stutta tíma til að gera okkur alveg ljósa grein fyrir eðli málsins. Mér finnst því ekki ástæða til þess að ákæra nokkurn hvað þetta snertir og vil þess vegna ekki að neinu leyti taka undir þær ásakanir, sem hv. 3. landsk. flutti hér um þetta efni. En mér þykir annað skorta í þessu sambandi, og það er það, að íslenzka þjóðin, að alþm. einum undanteknum, skuli ekki hafa átt kost á því að gera sér grein fyrir málinu með sama hætti, og ég lít svo á, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé þess eðlis, að íslenzka þjóðin hefði átt að fá sams konar tækifæri til þess að gera sér grein fyrir því eins og alþm. hafa nú fengið í þessu efni. Það leiðir af sjálfu sér, að það verður hlutverk alþm., fulltrúa þjóðarinnar, að taka um þetta lokaákvörðun; hvaða spor við stígum í þessu máli, en mér blandast hins vegar ekki hugur um það, að eðli þessa máls er þannig varið, að alþjóð manna á að gefast kostur á að kynna sér það, áður en fulltrúar hennar taka lokaákvörðun um það, hvað gera skuli í þessu máli.

Hér þarf að vera svo vel farið, að við verðum sá aðili í þessu máli, að til gagns horfi fyrir málefnið, fyrir landið og þjóðina, og það þarf að vera fullkominn samhugur og samstarf á milli allra landsbúa um þetta mál og fulltrúa þjóðarinnar. En það leiðir af sjálfu sér, að ef stærsti aðilinn í þessu máli, þjóðin sjálf, hefur ekki fengið tækifæri til að gera sér grein fyrir málinu, þá getur það ekki orðið fyrr en eftir á, þegar allt er um garð gengið, eftir því sem nú horfir við, að hún geti athugað málið og gert gaumgæfilegar athuganir á því og fellt sinn dóm um gerðir fulltrúa sinna í þessu efni.

Ég er ekkert að vantreysta því, að sá dómur þjóðarinnar gæti orðið í samræmi við það, sem ofan á verður í þessu efni, en langeðlilegast er, og mér finnst það blátt áfram skylda fulltrúa þjóðarinnar, að stilla svo til, að þjóðin fái tóm til að gera sér grein fyrir þessu máli, áður en endanlega er gengið frá því hér á Alþ. og ríkisstj. falið það umboð til aðgerða í málinu, sem till. liggja fyrir um. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að aðdragandi þessa máls er sá, að alþjóð manna hefur gefizt lítill tími til þess að kynna sér það, sem gerzt hefur í þessu máli á Alþ., hvað þá heldur að kynna sér þau skilyrði, sem sáttmálinn, sem hér er ætlazt til að við verðum aðilar að, felur í sér. Sú þáltill. eða till., sem hér er vitnað til, að notuð hafi verið af ríkisstj. sem grundvöllur fyrir því, að hún hafi leitað upptöku í þetta bandalag hinna sameinuðu þjóða, það er till., sem samþ. var á lokuðum fundi í Alþ. og hefur ekki verið birt opinberlega í neinu of þeim plöggum, sem á Alþ. hafa verið gerð.

Þau einu kynni, sem alþjóð manna hefur haft af þessu máli, er það, að í eitt einasta skipti var birt tilkynning frá ríkisstj. í einu eða fleiri blöðum um þá samþykkt, sem gerð var á lokuðum fundi Alþ, í þessu máli, og samtímis voru birtar aðrar till., sem fram komu um sama efni á þessum sama lokaða fundi, og jafnframt voru birtar þær niðurstöður, sem urðu af atkvgr. um þessar till. allar. Þetta eru þau einu kynni, sem alþjóð manna hefur haft af undirbúningi þessa máls á Alþ. Hins vegar eru það ekki nema tiltölulega fáir, sem hafa getað kynnt sér nokkuð efni þessa sáttmála, því að það er fyrst nú á þessu þingi, sem honum er útbýtt opinberlega í íslenzkri þýðingu.

Ég skal taka það fram, að till. ríkisstj. um það að beiðast þátttöku í bandalag sameinuðu þjóðanna var samþ. hér á Alþ. með 34:15 atkv., þannig að það standa að þessari till. rúmlega 2/3 hlutar Alþ. samkvæmt þessari atkvgr. Það, sem á skortir í þessu máli, er því ekki það, að hv. þm. hafi ekki haft tóm til að athuga málið, heldur hitt, að alþjóð manna hefur ekki átt þess kost að athuga á sama hátt efni þessa sáttmála og glöggva sig á aðdraganda málsins, ekki sízt að því er varðar aðgerðir Alþingis því til undirbúnings, sem munu vera mjög ókunnar þjóðinni. Því fremur tel ég, að alþjóð manna ætti að gefast tóm til slíkrar athugunar, að viðurkennt er af öllum, að í skilyrðum þeim, sem ætlazt er til, að þær þjóðir uppfylli, er ganga vilja í samtök sameinuðu þjóðanna, eru mjög þýðingamikil ákvæði, sem orðið geta afdrifarík. Því meiri ástæða er til þessa, að hér er komið inn á málefni, sem mjög hefur verið á dagskrá fyrir þessar kosningar og bæði ríkisstj. og almenningur hafa tekið afstöðu til, en það er hið svokallaða herstöðvamál. Hæstv. ríkisstj. hefur nú fyrir kosningarnar gefið út yfirlýsingu, sem hlaut mjög eindreginn hljómgrunn með íslenzku þjóðinni, en hún var þess efnis, að tilmælum Bandaríkjastjórnar um herstöðvar var svarað neitandi og tekið fram, að ekki kæmi til mála, að Íslendingar leyfðu erlendum þjóðum að hafa hér herstöðvar á friðartímum. Fyrir þessar kosningar hafði sérstaklega einn flokkur, Sósíalistaflokkurinn, tekið þetta mál mjög föstum tökum og reynt að skapa það almenningsálit, að hann hefði einhverja sérstöðu í málinu og væri harðari á því en aðrir flokkar að veita hér engin fríðindi, en vitanlega sýndi það sig við gang þessa máls, að hér bar ekkert á milli Sósíalistaflokksins og annarra flokka. Það er því meiri ástæða til að gefa þjóðinni tóm til að kynnast gangi þessa máls, þar sem að því er sveigt og beinlínis tekið fram í skuldbindingunum, að þær þjóðir, sem vilja gerast aðilar þessara samtaka, skuli verða að leggja fram öll þau tæki til hernaðar, sem þekkt eru, ef þess er krafizt, enn fremur veita leyfi til umferðar um landið og herstöðvar á landinu fyrir allar tegundir hernaðartækja. Það er að vísu svo ákveðið í sáttmálanum, að þetta taki því aðeins gildi, að hlutaðeigandi ríki samþykki, að svo skuli vera, eftir að krafan er komin fram frá öryggisráðinu. En þeir fræðimenn, sem farið hafa höndum um þetta mál fyrir ríkisstj. og gert það samvizkusamlega, hafa ekki komizt hjá að benda á, að miklar veilur eru í þessu um það, að hlutaðeigandi ríki geti komið fram rétti sínum gagnvart öryggisráðinu, þótt það hafi hann. Hér er ekki við lambið að leika sér fyrir fátæk ríki, að neita slíkum kröfum, ef þær eru bornar fram. þar sem í öryggisráðinu eiga 5 stórveldi sæti og auk þess 6 þjóðir aðrar. Þeir benda á, að það er annað að hafa réttinn eða máttinn í þessu efni, og þeir gera þetta með miklum alvöruþunga, eins og líka vera ber. Þeir gera líka grein fyrir því, að í sáttmálanum séu engin ákvæði um það, hvernig að skuli fara, ef ekki náist samkomulag um kröfur öryggisráðsins til einstakra ríkja um hernaðarframlag og annað. Þeir benda á, að þá verði varla um annað að ræða en hlutaðeigandi ríki hrökklist úr bandalaginu eða þá að það verði að beygja sig fyrir ákvæðum öryggisráðsins. Því finnst mér, þar sem svo varhugaverð ákvæði eða skilyrði eiga sér stað, megi ekki minna vera en alþjóð manna fái, áður en ákvörðun er gerð af Alþingi, að kynna sér málið og mynda sér skoðun um það, hvort Ísland skuli ganga í bandalag sameinuðu þjóðanna. Ég er hér ekki að túlka þá skoðun, að þessi skilyrði eigi að hindra það, að Íslendingar gerist aðilar þessara samtaka, þó að ég líti tortryggnisaugum á þau og beri kvíðboga um, að við getum ekki í öllu staðið á rétti okkar. En vera má, að þó að við verðum ekki aðilar að þessum samtökum, verðum við sem aðrir, er utan þeirra standa, að lúta vilja öryggisráðsins, ef það fer að beita slíkum áhrifum á þann hátt, sem gefið er í skyn í sáttmálanum. En þess er þó að vænta, að þeir menn, sem þarna eru að berjast fyrir því að skapa betri og farsælli heim, fari ekki að beita slíkum áhrifum nema óhjákvæmilegt sé til að halda uppi þeirri hugsjón, sem þessi samtök eru reist á.

Ég skal svo ekki fara lengra út í að rekja þessi skilyrði, sem að ýmsu leyti gætu orðið örlagarík fyrir þá, sem ganga í bandalagið, en vil aðeins benda á það í sambandi við ákvarðanir öryggisráðsins um hernaðarstöðvar, að það mun hafa vald til að láta hlutaðeigandi ríki slíta öllum stjórnmála- og verzlunartengslum við ríki, sem beitt er refsiaðgerðum, og stöðva siglingar til þess. Í því efni er ekki tilskilið, að til þurfi samþykki hlutaðeigandi ríkis, heldur getur öryggisráðið gert þetta eftir eigin vilja.

Að lokum vil ég bæta einu atriði við viðvíkjandi milliríkjasáttmálum, sem einhver hinna sameinuðu þjóða kann að gerast aðili að. Hún er þá skyldug að láta skrá hann hjá skrifstofu bandalagsins og skýra þar frá öllum milliríkjasamningum, sem hún gerir. Og mér skilst, að svo geti farið, að slíkir samningar öðlist ekki gildi nema þeir verði viðurkenndir af sameinuðu þjóðunum. Þetta ber að taka til athugunar, ef þetta er rétt skilið hjá mér, sem ég get ekki fullyrt, því að orðalagið er hér nokkuð óljóst. En þetta gæti orðið til mikils trafala um milliríkjasáttmála og valdið töfum á samningum, sem oft verða að ganga greitt, ef þeir eiga að koma að gagni.

Ég vil því mælast til, að ekki verði endanlega gengið frá afgreiðslu þessa máls, fyrr en alþjóð manna hefur fengið tækifæri til að kynna sér það betur, því leyfi ég mér að bera fram svofellda rökstudda dagskrá:

„Þar sem sáttmáli sá, er í felast ákvæði um skuldbindingar þær og skyldur, er gangast þarf undir til þess að gerast aðili að bandalagi hinna sameinuðu þjóða, hefur ekki verið birtur á íslenzku fyrr en nú og þjóðinni þar af leiðandi lítt eða ekki kunnugt um efni hans, en málið eitt hið mikilvægasta og örlagaríkasta, sem oss hefur að höndum borið, þykir Alþingi viðurhlutamikið að ráða því til lykta, áður en þjóðinni hefur verið gerður kostur á að glöggva sig á málinu. Þykir þinginu því hlýða að fresta frekari meðferð þess og afgreiðslu til næsta reglulegs Alþingis og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa rökstuddu dagskrá til frekari meðferðar.