05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Þegar stjórn Bandaríkjanna fór fram á herstöðvar hér á landi 1. okt. 1945, höfðum við um nokkurn tíma búið við það ástand, að her Bandaríkjanna sat hér þvert ofan í skýlaus loforð Roosevelts Bandaríkjaforseta í herverndarsamningnum, að allur her skyldi fara af landi burt þegar við lok stríðsins. Eins og allir muna, þá vakti beiðni Bandaríkjanna mikla undrun hér á landi. Menn höfðu alls ekki vænzt þess, að stjórn Bandaríkjanna gerði tilraun til þess að seilast eftir herstöðvum, jafnhátíðlegar yfirlýsingar og hún hafði gefið um að viðurkenna og virða sjálfstæði landsins. Í orðsendingu Bandaríkjanna 1. október 1945 var farið fram á, að Keflavíkurflugvöllurinn yrði látinn í té sem bækistöð fyrir hernaðarflugvélar, Fossvogur fyrir sjóflugvélar og Hvalfjörður yrði afhentur sem flotastöð fyrir Bandaríkin. Það kom mjög fljótt fram, að meiri hluti þjóðarinnar skildi, að Bandaríkjastjórn var að fara fram á það, að íslenzka þjóðin afsalaði sér sjálfstæðinu. Þjóðin skildi, að það varð ekki farið fram á að ljá erlendu herveldi land sitt til frjálsra afnota í hernaðarundirbúningi, án þess að aðrar þjóðir, sem teldu sér ógnað, beint eða óbeint, hlytu að skoða íslenzku þjóðina ósjálfráða og ekki húsbónda í sínu eigin landi. Auk þessa var fólki strax ljóst, að þráseta erlends herliðs í landi okkar hlyti beinlínis að ógna tilveru íslenzks þjóðernis. Það var líka þýðingarmikil ástæða fyrir andstöðu þjóðarinnar gegn því, að Bandaríkjunum yrðu látnar í té hernaðarbækistöðvar hér, að með því gætum við kallað. vandræði yfir ýmsar nágrannaþjóðir okkar, einkum frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, ef svo skyldi fara, að það stórveldi, sem teldi sér ógnað með herstöðvum á Íslandi, krefðist herstöðva í þessum löndum sér til varnar.

Þrátt fyrir þann einhug, sem ríkti meðal þjóðarinnar í herstöðvamálinu, voru þó til menn, sem lögðust svo lágt að gerast talsmenn þess, að þjóðin afsalaði sér landsréttindum. Þeir voru að vísu ekki margir, en þeir voru flestir í áhrifamiklum stöðum, og var því tekið meira tillit til þeirra en tilefni var til. Meðal áhrifamanna þjóðarinnar varð lítið vart þeirrar eindrægni gegn herstöðvaafsali, sem ríkjandi var meðal þjóðarinnar. Sósfl. einn flokka tók skýlausa afstöðu gegn herstöðvum. Aðrir flokkar treystust að vísu ekki til þess að taka afstöðu með herstöðvaafsalinu opinberlega, en voru þó mjög hikandi og loðnir í afstöðu sinni til þess. Þessi tvískinnungur ýmissa leiðandi manna meðal andstæðinga okkar sósíalista á þingi kom skýrt fram í svarbréfi íslenzku ríkisstj. við herstöðvabeiðninni. í svarbréfinu var að vísu neitað að láta í té herstöðvar á tilgreindum stöðum til langs tíma, eins og farið var fram á, en þó haldið opnum möguleika fyrir frekari viðræðum um einhvers konar úrlausn Bandaríkjunum til handa, er veitti þeim svipaða aðstöðu og þá, sem þeir fóru fram á. Það fékkst ekki fram, að Bandaríkjunum yrði svarað afdráttarlaust neitandi, eins og Sósfl. vildi og réttast hefði verið. Og það er nú komið á daginn, að undanbrögð Sjálfstfl. og Alþfl. voru víðhöfð í því skyni að geta síðar svikizt aftan að þjóðinni, eins og nú er á daginn komið. Eftir því sem leið á s.l. vetur, varð alda mótmælanna gegn herstöðvabeiðni Bandaríkjanna háværari meðal þjóðarinnar. Menntamennirnir tóku forustuna og boðuðu til mótmælafunda í Rvík, sem þúsundir Reykvíkinga tóku þátt í, er samþykktu ákveðin mótmæli gegn hvers konar herstöðvaafsali. Þessir mótmælafundir menntamanna reistu mótmælaöldu um allt land. Mótmæli voru samþykkt í félagssamtökum bæði hér í Rvík og úti á landi, í verklýðsfélögum, stjórnmálafélögum, íþróttafélögum, ungmennafélögum og hvers konar menningarfélögum. Sem sagt öll þjóðin mótmælti herstöðvaafsali.

Þessi almenna mótmælaalda þjóðarinnar gegn herstöðvamálinu hafði djúp áhrif á stjórnmálaflokkana og stjórnmálamennina fyrir kosningarnar s.l. sumar. Eftir því sem nær dró kosningunum, fóru flokkarnir að gefa ákveðnar yfirlýsingar um afstöðu sína, svíða af sér alla loðnu og reyna að telja fólki trú um, að þeim hefði aldrei dottið annað í hug en vera andvígir öllu herstöðvaafsali. Hinir ýmsu frambjóðendur flokkanna gáfu yfirlýsingar um andstöðu sína og reyndu að sannfæra kjósendur sína um, að þeim væri vel til þess treystandi að standa vörð um landsréttindi þjóðarinnar. Sósfl. aðvaraði þjóðina, að yfirlýsingar flokkanna og ýmissa frambjóðenda væru knúðar fram af ótta við þjóðarviljann og vegna kosninganna, sem framundan voru. Við bentum á, að það væri tvískinnungur í borgaraflokkunum í þessu máli og að þeir mundu, þegar kosningahræðslan væri horfin af þeim, leitast við að koma þessu máli fram, ef Bandaríkin leituðu aftur á, og að eina ráðið, sem þjóðin hefði til þess að tryggja sér það, að þing og stj. væru staðföst gegn allri erlendri ásælni, væri, að þjóðin veitti þeim flokkum, sem tvískinnung sýndu í málínu, harða áminningu með minnkuðu kjörfylgi. Þjóðin sinnti ekki þessum áminningum Sósfl. Hún tók alvarlega yfirlýsingar þessara flokka og það meira að segja svo, að eldheitir andstæðingar herstöðvamálsins gengu fram fyrir skjöldu til að afla flokkum þessum kjörfylgis í þeirri trú, að þeir mundu reynast staðfastir verjendur landsréttinda. Þannig sluppu sölumennirnir óþægindalítið yfir kosningarnar og hafa nú þorað að láta í ljós skoðanir sínar í trausti þess, að langur tími sé til næstu kosninga. Þjóðin þarf að festa sér í minni, hve alvarleg mistök hún gerði í þessu máli, er hún í kosningunum s.l. sumar efldi svo mjög Alþfl. og Sjálfstfl., sem nú hafa bundizt samtökum um að láta erlendu herveldi í té hernaðaraðstöðu á Íslandi í skjóli þess, að þjóðin geti ekki dregið þá til ábyrgðar og verði búin að gleyma brotum þeirra þegar reikningsskil verða næst.

Það kom fljótt á daginn, að kosningaúrslitin örvuðu forustumenn Sjálfstfl. og Alþfl. til aðgerða í herstöðvamálinu. Hingað kom siðsumar s sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar, einn af meiri háttar embættismönnum í utanrrn. í Washington, Cummings að nafni. Maður þessi mun hafa verið með víðtækt umboð frá Bandaríkjastjórn til þess að hefja samninga um hernaðaraðstöðu Bandaríkjunum til handa á Íslandi. Komu þessa manns hingað til Íslands og dvöl hans hér var bæði af amerísku ríkisstj. og eins Ólafi Thors leynt svo sem frekast var unnt. Ég skal taka það fram, að þótt ég eigi sæti í núv. ríkisstj., þá get ég ekki skýrt frá gangi þeirra viðræðna, sem fram fóru milli þeirra Ólafs Thors og þessa Cummings, enda var farið með þær eins og mannsmorð og ríkisstj.fundir felldir niður, sennilega til þess að Ólafur Thors þyrfti ekki að veita neinar upplýsingar um, það, hvað þeim fór á milli. Í stuttu máli er þó einfaldast að lýsa þessum viðræðum á þann veg, að þær hafi verið samsæri, sem Ólafur Thors ásamt nokkrum öðrum forustumönnum úr Sjálfstfl. og Alþfl. hafi stofnað til gegn íslenzku þjóðinni. Það fyrsta, sem menn spyrja: Af hverju þurfti að hafa þessa leynd og samsærisbrag yfir samningsgerðinni? Ástæðan er sú, að Ólafur Thors veit það, að hann er með samningum þessum að gera hluti, sem þjóðin er andvíg og hún hafði ástæðu til að ætla, ef dæmt er eftir yfirlýsingunum, sem gefnar voru fyrir kosningarnar, að Sjálfstfl. og Alþfl. gerðu ekki. Þess vegna taldi Ólafur Thors nauðsynlegt að gefa þjóðinni ekkert tækifæri til þess að fylgjast með samningsgerðinni, hann opinberaði ekki samninginn fyrr en Alþ. kom saman, og þá var ætlunin að hraða málinu svo gegnum þingið, að þjóðin gæti ekki áttað sig fyrr en allt væri um garð gengið. Allur undirbúningur samningsins er í samræmi við þetta. Forsrh. velur sjálfur þá menn, sem taka þátt í þessum ljóta leik, að hætti venjulegra samsærisforingja. Ríkisstj. fær ekkert að frétta. Loforð, sem forsrh. gaf Sósfl. við myndun núv. ríkisstj. um það, að ekki skyldi farið á bak við ráðh. Sósfl. um framkvæmd meiri háttar utanríkismála, var rofið. Utanrmn, sem Alþ. hefur með l. skyldað utanrrh. til þess að láta fylgjast með samningum um utanríkismál, er gersamlega sniðgengin. Engir sérfræðingar eru kvaddir til ráða, hvorki á sviði flugmála, lögfræði né þjóðréttar, og yfirleitt engir látnir hafa hugmynd um þessa samningsgerð aðrir en þeir, sem fyrir fram tjáðu sig viljuga til að láta að vilja Bandaríkjastjórnar. Það hefur líka ekki farið fram hjá því, að samningurinn allur beri það með sér, hvernig hann er til kominn. Hann ber það með sér, að umboðsmaður Íslands hefur gengið til samningaborðsins ákveðinn í að gera samning, sem fulltrúi Bandaríkjastjórnar gæti fellt sig við, hversu óhagstæður og niðurlægjandi sem hann væri fyrir íslenzku þjóðina. Samningurinn er einhliða réttindaafsal af Íslendinga hálfu, en auk þess svo loðinn og óljós, að sjálfum forsrh. hefur ekki tekizt að gera grein fyrir innihaldi hans, enda virðist hann aldrei hafa gefið sér tíma til þess að leggja niður fyrir sér raunverulegt innihald hinna ýmsu greina.

Þegar mikilsverðir samningar um utanríkismál eru gerðir, er nauðsynlegt, að tekið sé fullt tillit til allra sjónarmiða, sem með þjóðinni eru. Slíka samninga á að gera að sjálfsögðu í samráði við ríkisstj. og utanrmn. og auk þess í samráði við flokkana. Það er mjög þýðingarmikið, að allt sé gert til að samræma sjónarmiðin, til þess að eining geti orðið um slík mái. Sérhver ábyrgur utanrrh. hlýtur að telja það fyrstu skyldu sína að halda þannig á utanríkismálunum, að eining geti skapazt um þau meðal þjóðarinnar. Hvernig hefur Ólafur Thors framkvæmt skyldustörf sín í þessu efni? Hann hefur staðið einn í þessum samningum, hugsað um það eitt að sveigja flokk sinn til fylgis við gerðir sínar og nægilega marga Alþfl.menn til þess að geta fleytt samningnum í gegnum þingið, en farið algerlega á bak við okkur, ráðh. Sósfl., og þm. Sósfl. og Framsfl., sem eru þó 22 af 52 þm. Og hann hefur leitazt við að haga þannig undirbúningi málsins fyrir þingið og meðferð þess í þinginu, að þessum þm. gæfist ekki tækifæri eða tóm til að afla sér þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar voru til að mynda sér skoðanir um málið. Þetta hefur gengið svo langt, að forsrh. hefur ekki gefið sér tíma til að láta þýða samninginn rétt, áður en hann var lagður fyrir þingið, og varð hann sjálfur að viðurkenna það í þinginu, að þýðingin væri fljótfærnisleg. Þá hefur forsrh. skipulagt það, að fylgismenn hans á Alþ. tækju sem minnst þátt í umr., til þess að þurfa ekki að skýra nánar hin ýmsu vafaatriði og til þess að hraða málinu sem mest gegnum þingið. Og svo var ákafinn mikill að hraða samningnum áður en þing og þjóð gæti áttað sig á innihaldi hans, að fundum var haldið áfram á laugardag samhangandi frá því kl. 1:30 um daginn og fram á sunnudagsnótt, sem mun vera einsdæmi í þingsögunni. Það voru atburðir næstsíðasta sunnudags, hinn geysifjölmenni fundur alþýðusambandsins, reiði almennings og allsherjarverkfall verklýðsfélaganna í Rvík, sem hafa orsakað þann drátt, sem orðið hefur á afgreiðslu málsins, en ekki hugarfarsbreyting forsrh. og samsærisfélaga hans úr Sjálfstfl. og Alþfl. Starfsaðferðir Ólafs Thors hafa verið þessar: Hann gerir upp á eindæmi samning við erlent ríki, tryggir sér örlítinn meiri hl. þm., fer á bak við ríkisstj., svíkst um að hafa utanrmn. með í ráðum, skeytir því engu að hafa samráð við alla þm. tveggja flokka, leggur málið illa undirbúið, óathugað og skýringalaust fyrir þingið, gerir tilraun til að hespa það í gegnum þingið í skyndi, skellir skollaeyrum við yfirlýstum vilja meiri hl. þjóðarinnar og ætlar að hundsa, að málið verði lagt undir úrskurð þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu. Svona starfsaðferðir eru brot á öllum réttarreglum þjóðfélags okkar, brot á öllu lýðræði og anda stjskr. Svona starfsaðferðir eru ofbeldi gagnvart þjóðinni og lýðréttindum hennar. Blöð Ólafs Thors og samsærisfélaga hans hafa hneykslazt yfir ofbeldi, sem þau segja, að hafi verið beitt s.l. sunnudag. En ég vil benda á, að það er forsrh., Ólafur Thors, sem er upphafsmaður ofbeldisins í þessu máli og getur sjálfum sér um kennt yfir því ofbeldi, sem hann telur, að beitt hafi verið á sunnudaginn, því að hann veit, að eftirleikurinn er óvandaðri. — Þá hafa þessi sömu blöð haldið því fram, að nú skiptist þjóðin í sveitir með og móti ofbeldi. Þetta er rétt, þjóðin skiptist í fylkingar, annars vegar ofbeldismennirnir, sem vilja knýja fram samninginn, hins vegar yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar, sem krefst þess, að fylgt sé lýðræðisreglum við afgreiðslu þessa samnings, sem hér liggur fyrir, og að haft verði um hann þjóðaratkvæði áður en hann verði samþykktur.

Þegar mál eru lögð fyrir þing, þykir sjálfsagt að láta fylgja þeim skýringar og grg., og það jafnt þótt um smámál sé að ræða. Þegar till. um inngöngu Íslands í hinar sameinuðu þjóðir var lögð fyrir Alþ., fylgdu henni skýringar og athuganir fræðimanna á þeim skuldbindingum, sem þjóðin undirgengist, er hún gengi í þessi samtök. Nú, þegar Ólafur Thors leggur fyrir þingið samning, sem felur í sér margfalt stórfelldari skuldbindingar en sáttmáli sameinuðu þjóðanna, þá er hann lagður fram án skýringa og án grg. Og ræða forsrh., er samningurinn var lagður fram, er óundirbúið og flausturslegt þrugl. Enginn þjóðréttarfræðingur hefur verið látinn gera athugun á þeim skuldbindingum, sem samningurinn felur í sér, og engar athuganir hafa verið gerðar á þeim verkunum, sem samningurinn muni hafa á íslenzkt þjóðlíf og aðstöðu þjóðarinnar út á við. Það liggur ekki fyrir athugun á því, hvort samningurinn er nauðsynlegur Bandaríkjunum til þess að standa við skuldbindingar sínar við hernám Þýzkalands, né heldur hvort samningurinn hefur með sér hlutleysisbrot gagnvart öðrum þjóðum, er geti dregið Ísland inn í hernaðaraðgerðir, ef svo illa skyldi fara, að stríð skylli á. Af hverju stafar þetta? Vannst ekki tími til þess? Jú, vissulega. Ef samningurinn hefði verið gerður með lýðræðislegum aðferðum, þá hefði slík rannsókn verið látin fram fara. Skýringin á þessari vanrækslu er sú, að Ólafur Thors þorði ekki að leita álits sérfræðinganna, vegna þess að hann vissi, að þá mundi koma í ljós, svo að allir gætu skilið, hve stórhættulegt óhæfuverk samningur hans er.

Samningar milli þjóða eru alltaf mjög vandasamir. Það er mjög nauðsynlegt, að þeir séu afdráttarlausir og skýrir, þannig að enginn vafi geti á því verið, hver sé þýðing hinna ýmsu ákvæða samningsins. Stórþjóðir geta stundum leyft sér, þegar þær semja innbyrðis, að hafa tvíræð ákvæði, treystandi á styrk sinn til að knýja fram sinn skilning. Þegar smáþjóð semur við stórveldi, Er henni lífsnauðsyn, að samningurinn sé skýr, vegna þess að ef hann er tvíræður, þá hefur sá sterki alltaf betri aðstöðu til þess en sá veiki að knýja skilning sinn fram, þann skilning, sem honum er hagstæður. Þannig er afstaðan milli Bandaríkjanna og Íslands. Ef við getum ekki í samningum við Bandaríkin byggt rétt okkar á skýlausu og greinilegu samningsákvæði, er hætt við, að við neyðumst til að fallast á óhagstæðar skýringar hins sterka. Þetta hefði átt að gefa Ólafi Thors tilefni til þess að gæta ýtrustu varfærni í samningsgerðinni og leggja á það megináherzlu að gera öll ákvæði samningsins þannig, að ekki væri hægt að skilja þau á annan veg en þann, sem til var ætlazt. Í stað þess gengur Ólafur til samningsgerðarinnar í fullkomnu alvöruleysi, enda er samningurinn frá upphafi til enda svo óljós, ógreinilegur og tvíræður, að slíks munu fá dæmi í milliríkjasamningum.

Ég mun nú með nokkrum orðum víkja að samningnum sjálfum. — Þegar samningurinn var birtur, lögðu blöð þeirra samsærismanna einhliða áherzlu á það í fyrirsögnum sínum, að með samningnum losnaði þjóðin við hersetu Bandaríkjanna, og þar með væri herstöðvamálið úr sögunni. Í 1. gr. samningsins er því slegið föstu, að herverndarsamningurinn frá 1941 skuli niður falla við gildistöku þessa samnings. Þetta ákvæði er algerlega óþarft, því að samkvæmt skýlausum ákvæðum í sjálfum herverndarsamningnum er hann þegar niður fallinn fyrir löngu síðan, eða við lok styrjaldarinnar. Samkv. 2. gr. samningsins afhenda Bandaríkin Keflavíkur,flugvöllinn 2samt öllum óhreyfanlegum mannvirkjum. Þetta ákvæði er líka óþarft, vegna þess að með samningi, sem gerður var við Bandaríkin 1942, eru þau búin að skuldbinda sig til að afhenda íslenzku ríkisstj. þessar eignir endurgjaldslaust og áttu að gera það, er herverndarsáttmálinn féll niður í styrjaldarlokin. Í 4. gr. samningsins skuldbinda Bandaríkin sig til að flytja burt herlið sitt frá Íslandi innan 180 daga. Þetta er enn fremur óþarft, vegna þess að samkv. herverndarsamningnum átti herliðið að flytjast' brott af Íslandi þegar við stríðslokin. — Þessi þrjú atriði, er ég hef nú talið, sem eru þau atriði, er blöð samsærismanna hafa einhliða flaggað framan í íslenzku þjóðina, eru einskis nýt, því að þau eru aðeins endurtekning á skuldbindingum, sem Bandaríkin hafa þegar með skriflegum og greinilegum samningum tekið á sig gagnvart Íslendingum, þótt þau hafi fram til þessa vanrækt að standa við þær. Þetta veit enginn betur en sjálfur forsrh., en fyrir hans tilstilli munu Bandaríkin þó hafa tekið þessi ákvæði inn í samninginn, til þess að hann liti út sem tvíhliða samningur Íslendinga og Bandaríkjanna, en ekki einhliða réttindaafsal af hálfu Íslendinga, eins og hann er í raun og veru.

Í 5. grein samningsins, eins og hann var lagður fyrir þ., felast þær skuldbindingar og kvaðir, sem Íslendingar taka á sig Bandaríkjunum til handa. Þessi gr. er svo loðin og óljós, að ákaflega er erfitt að skýra til fulls, hversu víðtæk hernaðarafnot hún heimilar Bandaríkjunum. Ef orðalag gr. er athugað gaumgæfilega, kemur greinilega í ljós, að hún er samin einmitt með það fyrir augum, að í henni séu engin skýr takmörk fyrir því, hver afnot Bandaríkjaher má hafa af Keflavíkurflugvellinum. Þessi ákvæði bera líka með sér, að þau eru samin af Bandaríkjunum einum, og frá þeirra hendi eru þau þungamiðja samningsins, enda hefur Bandaríkjastjórn ekki viljað breyta þessari gr., er hún féllst á ýmsar breyt. samkvæmt beiðni Ólafs Thors, eftir að í ljós kom hin mikla andstaða, sem er gegn samningnum. Þetta bendir til þess, að Bandaríkjastjórn ætlar þrátt fyrir önnur ákvæði samningsins að hafa frjálsar hendur um það sjálf að skýra samninginn hvað viðvíkur því, hve víðtækur afnotaréttur hennar af vellinum má vera.

Í 1. mgr. þessarar gr. eru ákvæði um það, að Bandaríkjunum skuli heimil afnot af Keflavíkurflugvellinum fyrir flugför sín í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu, er Bandaríkin hafa tekizt á hendur og lítur að herstjórn og eftirliti í Þýzkalandi. Síðan segir, að í þessu skyni skuli stjórn Bandaríkjanna heimilt að halda uppi á flugvellinum beinlínis eða á eigin ábyrgð þeirri starfsemi, þeim tækjum og því starfsliði, sem nauðsynlegt kann að vera til þeirra afnota. Það er ekkert smáræði, sem felst í þessu ákvæði, því að Bandaríkjastjórn á sjálfdæmi um það, hvað sé nauðsyn hennar. Hún má hafa eins marga starfsmenn á vellinum og henni sýnist. Að vísu hefur forsrh. skýrt frá því, að Bandaríkin teldu sér, eins og sakir standa, nauðsynlegt að hafa 600 manns á vellinum. Þetta er að vísu margfalt hærri tala en nauðsynlegt er til að stjórna vellinum og starfrækja hann, en samt sem áður geta Bandaríkin, hvenær er þeim býður svo við að horfa, margfaldað þetta starfslið án þess að íslenzka ríkisstj. geti á nokkurn hátt hindrað það, því að samkv. samningnum er íslenzku ríkisstj. ekki ætlað að meta það, hver sé nauðsyn Bandaríkjanna í því efni. Þær fullyrðingar, sem fram hafa verið bornar af fylgjendum samningsins, að íslenzk stjórnarvöld geti með því að neita að veita landvistarleyfi takmarkað tölu þessa starfsliðs, er slúður eitt, sem gripið hefur verið til í örvæntingarfullum tilraunum til þess að verja samningsgerðina. — Þá er Bandaríkjunum samkvæmt þessu heimilt að senda til Íslands eins margar flugvélar og þeim sýnist, láta þær dvelja á Íslandi eins lengi og þeim sýnist og hafa áhafnir þeirra eins fjölmennar og þeim sýnist, vegna þess að í samningnum eru engin ákvæði um það, hve margar flugvélar megi koma hingað og vera hér samtímis, engin ákvæði um, hve lengi hver flugvél má dvelja hér, og loks engin ákvæði um það, hve margir Bandaríkjamenn, sem koma hingað með þessum flugvélum, megi dvel ja hér flestir. Hins vegar er það tekið fram, að íslenzk stjórnarvöld skuli taka tillit til sérstöðu þessara flugfara og áhafna þeirra að því er varðar landvistarleyfi og fleira, það er að segja, Bandaríkjamenn, sem Bandaríkjastjórn þóknast að telja til áhafna flugvéla sinna, mega dvelja hér eins margir og eins lengi og Bandaríkjastjórn sýnist og án þess að þeir þurfi hér landvistarleyfi og, að því er bezt verður séð, án þess að heyra undir íslenzka lögsögu. Það er tekið fram í samningnum, að Keflavíkurflugvöllurinn sé eingöngu heimill þeim flugförum Bandaríkjanna, er séu í förum til Evrópu. Þannig er Bandaríkjastjórn opin leið til þess að senda til Íslands hundruð flugvéla, búnar öllum þeim hernaðartækjum og mannafla, sem hana lystir, og láta þær hafa fast aðsetur á Íslandi um ótakmarkaðan tíma. Þegar þetta er athugað, verður munurinn á þeim réttindum, sem Bandaríkjunum eru veitt með þessum samningi, og því, sem Bandaríkin fóru fram á 1. október 1945, vart sæmilegur, því að hvað er það annað en herstöðvar, þegar Bandaríkin geta haft á vellinum hernaðarflugvélar, búnar öllum hernaðartækjum og mannafla, eins margar og eins lengi og þeim sýnist. Það er því næsta hlálegt, þegar fylgjendur samningsins eru að reyna að bera það á borð fyrir þjóðina, að með honum séu Bandaríkjunum ekki veittar herstöðvar á Íslandi. Það er ómótmælanlegt, að samningurinn, ef samþ. verður, gefur Bandaríkjastjórn ótakmarkaðan rétt til þess að gera Keflavíkurflugvöllinn að hernaðarbækistöð sinni til almennra hernaðarafnota.

Þá hefur því verið haldið fram af Ólafi Thors og fylgismönnum hans, að yfirstjórn Keflavíkurflugvallarins muni verða í íslenzkum höndum og Íslendingar geti því haft útslitavöld um það, hvað fram fer þar. Enginn þeirra félaga hefur þó treyst sér til að skýra, hvernig það megi verða, a.ð íslenzkur embættismaður geti stjórnað mörg hundruð eða mörg þúsund manna hóp bandarískra flugvallarstarfsmanna og flugvélaáhafna, sem að staðaldri kann að vera á vellinum, sem þó á að starfa beinlínis undir stjórn bandarísku ríkisstj. og á hennar ábyrgð. Ólafur Thors hefur oftar en einu sinni verið spurður um það, hvernig hann hugsi sér yfirstjórn Íslendinga á flugvellinum fyrir komið samhliða þessum bandarísku yfirráðum. Hann hefur skotið sér undan að svara, af þeirri einföldu ástæðu, að fullyrðingarnar og ákvæðin um úrslitayfirráð Íslands eru sett í samninginn að því er virðist í þeim tilgangi einum að dylja íslenzku þjóðina raunverulegs innihalds samningsins.

Forsrh. Ólafur Thors var búinn að lofa Bandaríkjastjórn því, að samningurinn skyldi knúinn í gegnum þ. óbreyttur, eins og hann var lagður fyrir það. Í því skyni átti að hespa samninginn af svo skyndilega, að þjóðin gæti ekki áttað sig á honum fyrr en allt væri um seinan. Þetta fór öðruvísi en ætlað var. Þegar eftir að samningurinn var lagður fyrir þ., reis þvílík mótmælaalda og þjóðarreiði, að slíks eru engin dæmi í sögu þjóðarinnar. Ólafur Thors og samsærismenn hans úr Sjálfstfl. og Alþfl. urðu alvarlega hræddir, þeir gáfust upp við að verja samninginn við fyrri umr. málsins í þinginu og lögðu á það megináherzlu að ljúka henni sem fyrst. Eftir hina stóru fundi, sem haldnir voru í Reykjavík á sunnudag og mánudag fyrir hálfum mánuði síðan, og hið algera allsherjarverkfall verkalýðsins í Reykjavík, sá forsrh. sitt óvænna og fór í betliferð til Bandaríkjastjórnar til þess að biðja um lagfæringar á samningnum í þeirri von, að honum tækist að lægja mótmælaöldu þá, sem risin var. Afrakstur þessarar betliferðar er heldur rýr, því að langflestar eru breyt. aðeins orðalagsbreyt., sem engu raunverulegu máli skipta, en gera þó samninginn heldur álitlegri fyrir þann, sem les hann yfir í flaustri. Það er sérstaklega eftirtektarvert, að í 5. gr., sem eftir breyt. verður 4. gr., en sú gr. hefur inni að halda þau ákvæði, sem gera Keflavíkurflugvöllinn að raunverulegri herstöð Bandaríkjanna, — er engu breytt. Bandaríkin hafa sem sagt í engu slakað á klónni. Hins vegar hafa verið strikuð út úr samningnum ýmis niðurlægjandi orðatiltæki í garð Íslendinga, án þess að um verulegar efnisbreyt. sé að ræða. T.d. var í fyrra uppkastinu alltaf talað um Bandaríkin og Ísland, en í hinum nýja samningi er talað um Ísland og Bandaríkin. Þetta finnst Ólafi Thors víst mikill sigur.

Af hálfu Ólafs Thors og fylgismanna hans hefur verið lögð á það mikil áherzla, að Íslendingum væri um megn af fjárhagslegum ástæðum að reka Keflavíkurflugvöllinn. Ólafur Thors hefur fullyrt, að rekstrarkostnaður vallarins mundi veiða 30 millj. kr. á ári. Þetta er hrein blekking. Ólafur Thors lét enga rannsókn fara fram á rekstri flugvallarins. Samkvæmt áætlunum, sem íslenzkir fagmenn hafa gert, er rekstrar- og víðhaldskostnaður Keflavíkurflugvallarins áætlaður 1,8 millj. og Reykjavíkurflugvallarins 2,15 millj. eða samtals innan við 5 millj. kr. Á móti þessu koma svo tekjur, sem mundu skipta a.m.k. nokkrum millj., ef allar flugvélar, sem fljúga um Íslandi, væru gjaldskyldar, eins og tíðkast annars staðar, en eins og kunnugt er, hefur ameríska herstjórnin dregið til Keflavíkurflugvallarins millilandaflugvélar með því að taka engin gjöld af þeim þar og þar með rýrt verulega tekjur Reykjavíkurflugvallarins, og verður ekki annað séð en þetta hafi verið gert viljandi í því skyni að auka sem mest á erfiðleika Íslendinga við rekstur vallanna. En það getur hins vegar enginn Íslendingur í alvöru haldið því fram, að okkur sé þörf á því að leita á náðir annarra þjóða, jafnvel þótt svo færi, að við yrðum að leggja til flugmála okkar nokkrar milljónir á ári fyrst í stað, því að allt bendir til, að eftir skamman tíma verði flugvellirnir reknir tekjuhallalaust eða jafnvel með ágóða.

Forsrh. hefur látið þess getið, að Bandaríkjastjórn hafi hyggju að endurbæta og stækka Keflavíkurflugvöllinn fyrir um 75 millj. kr. Það er hins vegar vitað, að flugvellinum hefur verið prýðilega viðhaldið og brautir hans eru í góðu lagi og eru nægilega langar og burðarmiklar fyrir þær flugvélar, sem hingað til hafa verið notaðar í Evrópu. Slíkar stækkanir hljóta að vera í því skyni gerðar að geta notað flugvöllinn fyrir risaflugvirki, en það er alvarleg ábending til okkar íslendinga um það, að afnot Bandaríkjanna af vellinum miðast ekki eingöngu við samgöngur þess við Þýzkaland, eins og gefið er í skyn, heldur eigi völlurinn að vera tiltæk hernaðarbækistöð til árása á Evrópu í hugsanlegu stríði.

Fylgismenn samningsins hafa verið mjög háværir um, að í honum sé ekki að ræða um neinar herstöðvar og sé hann að því leyti gersamlega annars efnis en fyrri kröfur Bandaríkjanna. Eins og ég hef tekið fram áður, þá veitir samningurinn Bandaríkjunum rétt til að gera Keflavíkurflugvöllinn að herstöð sinni mismunurinn virðist helzt vera sá, að ef fallizt hefði verið á fyrri kröfu Bandaríkjanna, þá hefðu stöðvar þessar verið girtar gaddavír og gætt af vopnuðum hermönnum, þar með hefðu herstöðvarnar verið skildar alveg frá Íslandi, og það, sem fram fór á herstöðvunum, hefði verið algerlega án vitundar eða samþykkis íslenzkra stjórnarvalda, þau hefðu ekki borið ábyrgð á einstökum athöfnum Bandaríkjamanna, þótt þau að sjálfsögðu hefðu orðið að bera ábyrgð á því gagnvart öðrum þjóðum að hafa látið Bandaríkjunum í té herstöðvar. Samkvæmt þeim samningi, er hér liggur fyrir, hljóta íslenzk stjórnarvöld að bera ábyrgð á því sem mest hverri þeirri aðgerð amerískra yfirvalda, sem fram fer á flugvellinum og aðrar þjóðir teldu gegn sér beint. Í hvert skipti, sem einhver Evrópuþjóð teldi sér ógnað af veru bandarískra hernaðarflugvéla á Íslandi, gæti hún vegna ýmissa ákvæða samningsins gert íslenzk stjórnarvöld ábyrg fyrir þeim, og þannig gæti Ísland sí og æ dregizt inn í deilur hernaðarvelda með öllum þeim óþægindum og hættum, sem slíkt hefur í för með sér. Það er rannsóknar efni og mikið vafamál, hvort þessi samningur er heppilegri en upphaflegu kröfurnar. — Íslenzka þjóðin er minnsta fullvalda þjóðin í heiminum og hefur því enga aðstöðu til að verja frelsi sitt með valdi. Við höfum aðeins eitt vopn til þess að verja fullveldi okkar með fyrir ásælni annarra. Þetta vopn er hinn siðferðislegi réttur okkar til landsins, sem íslenzka þjóðin hefur ein búið í frá upphafi. Íslenzka þjóðin hefur aldrei sýnt nokkurri þjóð áreitni og hefur aldrei gert aðrar kröfur en þær að fá að lifa óáreitt í landi sínu. Þjóðir, sem þannig, eins og Íslendingar, verða að byggja tilveru sína á því, að aðrar þjóðir viðurkenni siðferðislegan rétt þeirra og að friðsamleg viðskipti eigi sér stað þjóða í milli, verða að varast mjög rækilega að gera nokkuð það, sem getur dregið þjóðina inn í deilur annarra ríkja, sem getur orðið þess valdandi, að íslenzk stjórnarvöld verði borin þeim sökum, að þau hafi veitt einu ríki aðstöðu til þess í landi sínu að ógna öðru. Þegar svo er komið, er þjóðin búin að glata sínu eina vopni, hinum siðferðislega rétti, og hætt við, að þær þjóðir, er telja sér ógnað fyrir aðgerðir íslenzku þjóðarinnar, telji hana ekki fullvalda í landi sínu.