05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Við hernám Breta á Íslandi, 10. maí 1940, tóku Íslendingar fyrst í eigin hendur, um aldaskeið, meðferð utanríkismála, bæði í formi og í raun. Áður hafði utanríkispólitík Íslands, að svo miklu leyti sem um hana var að tala, aðallega verið fólgin í látlausu þrefi og stimpingum við Dani, til þess að öðlast fullt stjórnarfarslegt frelsi og eiga þess kost að stjórna utanríkismálum sínum og marka þar ákveðna stefnu. Um leið og Ísland tók þannig fyrir fullt og allt utanríkismál sín á eigin herðar, var samtímis, fyrir rás heimsstyrjaldarinnar, horfið frá fornri einangrun. Þetta eru staðreyndir, sem vert er að veita athygli : Ísland hefur fyrir fullt og allt og um framtíð alla tekið utanríkismál sín í eigin hendur. Ísland er horfið úr fornri einangrun, komið inn í hringiðu heimsviðburðanna og hverfur þaðan ekki aftur í fyrirsjáanlegri framtíð. — Af þessu hvoru tveggja leiðir, að Ísland verður að marka sína eigin utanríkispólitík. Hún hlýtur fyrst og fremst að vera í því fólgin, í fáum orðum sagt: að öryggja frelsi og sjálfstæði landsins, að vinna að því að ná viðskiptum og vináttu annarra þjóða og þá sérstaklega þeirra, sem líklegastar eru til þess hvors tveggja, að virða sjálfstæði og fullveldi landsins og vera okkur hagkvæmar til verzlunar-, menningar- og stjórnmálaviðskipta. — Í þessu sambandi má það aldrei líða úr minni Íslendinga, að þjóðin er lýðræðis- og menningarþjóð og vill umfram allt vera það áfram.

Ísland er fámennasta sjálfstæða og fullvalda ríkið í heimi. Máttur þess liggur ekki í mannafla og valdi, heldur í hagkvæmri, hyggilegri utanríkispólitík og vináttu og gagnkvæmu trausti á milli þess og annarra menningar- og lýðræðisríkja, samfara fölskvalausri tryggð við þjóðerni sitt og sjálfstæði.

Enginn stjórnmálaflokkur kemst hjá því og hefur í raun og veru ekki komizt hjá því um skeið að marka í orði og verki ákveðna og hugsaða stefnu í utanríkispólitík. Alþfl. hefur fyrir sitt leyti markað ákveðna stefnu í þessum efnum, orðað hana á flokksþingum sínum og fylgt henni fram í ræðu og riti. Hann skipaði sér þegar í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðustu ákveðið og skýrt með bandamannaþjóðunum í orrustu þeirra gegn ofbeldi öxulríkjanna. Hann gekk heils hugar og ákveðinn að því að semja við Bandaríkin um hervernd Íslands. Hann beitti áhrifum sínum í þá átt, að skilnaður Íslands og Danmerkur færi fram að réttum l. og í samræmi við gerðan milliríkjasáttmála og með sem beztum gagnkvæmum skilningi og vinsemd á milli ríkjanna. Hann hefur barizt fyrir og stutt að norrænni samvinnu. Hann kvað fyrstur flokka upp úr um það, að hann væri því eindregið andvígur, að léð yrði máls á, að nokkrar samningaumleitanir færu fram við Bandaríkin um leigu á herstöðvum hér á landi. Hann var því ákveðið fylgjandi, að Ísland gerðist aðili að bandalagi sameinuðu þjóðanna, en hafði áður barizt gegn því í lok ófriðarins, að Ísland, vopn- og herlaust, léti sig henda þann barnaskap að segja möndulveldunum stríð á hendur.

Af þessu öllu má gerla sjá það, að Alþfl. hefur í orðum og athöfnum markað utanríkismálastefnu sína á þá leið að skipa sér í hóp lýðræðisþjóðanna gegn einræðisþjóðunum, að lána Bandaríkjunum land sitt til stuðnings baráttu þeirra og samherja þeirra gegn öxulveldunum, að stofna lýðveldi á Íslandi í samræmi við lög og rétt og með sem mestri samúð vinveittra ríkja, að efla og auka norræna samvinnu, að viðurkenna í verki, með inngöngu í sameinuðu þjóðirnar, að Ísland tæki þátt í alþjóðlegu samstarfi, en hyrfi ekki aftur til fornrar einangrunar, og að berjast gegn því eftir ófriðinn, að samið væri um herstöðvar á Íslandi.

Í ljósi þessara staðreynda og hinnar mörkuðu stefnu Alþfl. í utanríkispólitík hefur miðstjórn hans og þingflokkur samþ. að styðja að því að gera samning við Bandaríkin á þá leið, er í áliti meiri hl. utanrmn. segir.

En hvað er þá fólgið í þessum mikið umrædda samningi? Í nál. meiri hl. utanrmn. er það rækilega rakið, og get ég að verulegu leyti vísað til þess. Það eru staðreyndir, hversu miklum blekkingum sem reynt er um þetta upp að þyrla, að í þessum samningi, sem gerður er í fullri vinsemd og með gagnkvæmu trausti, eru fólgin eftirfarandi skýlaus ákvæði :

1. að herverndarsamningurinn frá 1941 falli úr gildi, sbr. l. gr.;

2. að flugvallakerfið við Keflavík er skýlaus eign íslenzka ríkisins, sbr. 2. gr. ;

3. að Bandaríkin flytja á brott allan herafla sinn frá Íslandi og hafa lokið þeim brottflutningi innan 6 mánaða, sbr. 3. gr.;

4. að Bandaríkin skuldbinda sig til þess að þjálfa íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarekstrar, svo að Íslendingar geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins, sbr. 6. gr.;

5. að Bandaríkin taka að sér að kosta fyrst um sinn og á meðan samningstímabilið stendur yfir rekstur, viðhald og endurbætur hins mikla og nauðsynlega Atlantshafsflugvallar á Íslandi, sbr. 4. og 8. gr.;

6. að Ísland eignast endurgjaldslaust öll óhreyfanleg mannvirki á flugvellinum, sem Bandaríkin framkvæma á meðan samningstímabilið stendur yfir, þar með t.d. talin hús og byggingar o.fl., sbr. 11 gr.;

7. að Bandaríkjunum eru heimil afnot flugvallarins til lendingar fyrir flugvélar þeirra og til þeirra einna afnota að framkvæma samningsbundna skyldu þeirra gagnvart Bretlandi, Frakklandi og Sovét-Rússlandi varðandi herstjórn og eftirlit í Þýzkalandi, og í þessu skyni er þeim heimilt að halda uppi á flugvellinum, á eigin kostnað, þeirri starfsemi og starfsliði, sem nauðsynlegt er, og er gert ráð fyrir, að borgaralegt starfslið Bandaríkjanna til þessara takmörkuðu framkvæmda fari ekki yfir 600 manns og að nauðsynjar til framkvæmda á flugvellinum og vörur til starfsliðs Bandaríkjanna við þessa þjónustu séu tollfrjálsar og að ekki skuli tekjuskattur lagður á þær tekjur þessa starfsliðs, er leiðir af framkvæmd samningsins, sbr. 4., 9. og 10. gr.;

8. að hvorki. ákvæðin um lendingarrétt Bandaríkjanna né nein önnur ákvæði samningsins raska úrslitayfirráðum Íslands varðandi umráð og rekstur flugvallarins, mannvirkjagerð og athafnir þar, sbr. 5 gr.;

9. að Ísland getur af sinni hálfu losnað algerlega við samning þennan, ef hann er ekki af öðrum ástæðum fallinn fyrr úr gildi, eftir 61/2 ár, sbr. 12. gr.

Þetta eru helztu ákvæði samningsins.

Ég vil fyrst og fremst taka fram, að það er gersamlega rangt og blekkingar einar, að hér sé samið um dulbúnar eða ódulbúnar herstöðvar fyrir Bandaríkin á Íslandi. Á alíslenzkum flugvelli, undir blaktandi íslenzkum fána, undir ótvíræðum og óvefengjanlegum yfirráðum Íslands, á flugvelli þar, sem engin eru vopn, hvorki fallbyssur né loftvarnabyssur, þar, sem eingöngu dvelur borgaralegt starfslið, háð íslenzkri lögsögn, þar, sem íslenzk yfirvöld, löggæzlumenn og tollgæzlumenn, fara frjáls ferða sinna, þar er ekki snefill af herstöð, hvorki dulbúinni né ódulbúinni. Og það breytir engu í þessu máli, þó að bandarískar herflugvélar lendi þar á ferð sinni til þess að halda uppi samningsbundnum skyldum Bandaríkjanna í Þýzkalandi.

Svíum dettur að sjálfsögðu ekki í hug og engum manni, er satt og rétt vill segja, að Bandaríkin hafi herstöð í Svíþjóð, þó að margar bandarískar herflugvélar lendi, eins og alkunnugt er, á Brommaflugvellinum við Stokkhólm og séu afgreiddar þar af Bandaríkjamönnum og það jafnvel í hermannabúningi. En það er táknrænt fyrir það, hversu haldlaus, óréttmæt og blekkingakennd gagnrýnin er á þessum samningi, þegar því er haldið fram, að hér sé um herstöðvar að ræða.

Ég sagði áðan, að fylgi Alþfl. við samning þann, er hér liggur fyrir til umr., sé í samræmi við markaða utanríkispólitík hans fyrr og síðar. Og það er rétt og óvefengjanlegt. Flokkurinn lýsti sig andvígan leigu á herstöðvum til Bandaríkjanna. Það mál er nú úr sögunni, um ekkert slíkt samið né fram á farið. Það þóf er vissulega á happaríkan hátt til lykta leitt. Það land, sem áður var undir stjórn og einkaumráðum erlends hers, hverfur nú að fullu og öllu undir óskoruð úr slitayfirráð íslenzkra stjórnarvalda. Hlutverki Bandaríkjahers hér á landi, sem hann innti af höndum með fullu samþykki Íslands, er nú með öllu lokið. Ísland hefur full umráð yfir öllu landi sínu, eins og vera ber. Ísland fær tryggingu fyrir því að geta starfrækt undir eigin stjórn voldugan Atlantshafsflugvöll, til ómetanlegs hagnaðar fyrir samgöngur og samskipti við erlend ríki, og miklar og verðmætar eignir til óskoraðs íslenzks rekstrar á flugvellinum í framtíðinni, þegar fengizt hefur nægur íslenzkur, þjálfaður mannafli. Ísland greiðir fyrir voldugri, vinveittri lýðræðisþjóð til þess að auðvelda henni að halda uppi samningsskyldum sínum við sameinuðu þjóðirnar, í hvers hópi Ísland væntir að verða viðurkennt innan skamms tíma. Ísland tryggir sér með samningi áframhaldandi vínsemd og samstarf við hinar engilsaxnesku stórþjóðir og fullan skilning og samhug lýðræðisþjóðanna á Norðurlöndum og meginlandi Evrópu. Þetta er allt í fullu samræmi við utanríkispólitík Alþfl., að tryggja og öryggja fullveldi og sjálfstæði Íslands, gegna eðlilegum skyldum sínum í alþjóðlegu samstarfi, auka og bæta samgöngur við aðrar þjóðir, án þess að reisa sér fjárhagslega hurðarás um öxl, svo og víðhalda og efla vínfengi við lýðræðisþjóðirnar.

En hvers vegna er þá þessi gauragangur, ofbeldi, uppþot og takmarkalaus illyrðaflaumur, svika- og landráðabrigzl, sem andstæðingar samningsins hafa haldið uppi undanfarnar tvær vikur og nú einnig á lítið smekkvíslegan hátt heyrist héðan úr sölum Alþ. í ræðu Katrínar Thoroddsen? Þetta á sér skýringar, sem mér þykir skylt að víkja að.

Fyrstir og fremstir í hópi ofstopamannanna, er með skefjalausum æsingi og gauragangi berjast gegn samþykkt þessa samnings, eru íslenzkir kommúnistar, bæði flokksbundnir og óflokksbundnir. Þá er og nokkur sundurlaus hópur manna úr ýmsum áttum, sem ekki eru kommúnistum skyldir í skoðunum, þótt þeir, því miður, í baráttu þessari hafi sumir hverjir tamið sér keimlíkar starfsaðferðir og orðbragð, eins og vel má sjá á ávarpi til íslenzkra alþm., er birtist í blaðinu „Þjóðvörn“ í gær. Því var að vísu ekki áður fyrr spáð, að kommúnistar teldu sig sjálfkjörna í fylkingarbrjóst ættlands síns. Þeirra mikli spámaður, Karl Marx, komst svo að orði í kommúnistaávarpinu: „Öreigalýðurinn á ekkert ættland. Það, sem hann ekki á, verður ekki af honum tekið.“ En kommúnistar allra landa hafa eignazt nýtt ættland, sem er Sovét-Rússland. Utanríkismálastefna þess er utanríkismálastefna kommúnista um allan heim. Og þó að einstakir áhangendur þeirra vilji sverja fyrir þetta, jafnvel við minningu feðra sinna, þá tala staðreyndirnar samt öðru og óskeikulu máli. Sovét-Rússland hefur aldrei gert neitt í afstöðu sinni til annarra landa án þess að kommúnistar, jafnt íslenzkir kommúnistar sem aðrir, hafi sungið hallelúja. Það var gert þegar Stalín gerði vináttusamninginn við Hitler. Það var gert þegar Molotov sagði, að það væri ekki nema smekksatriði, hvort menn berðust með eða móti nazismanum. Það var gert þegar Rússar réðust að baki Pólverjum, en þá sagði einn af höfuðspámönnum kommúnista í Þjóðviljanum: „ Þrem vikum eftir undirskrift griðasáttmálans er bolsévisminn á bökkum Veiksel. Fimmtán milljónir manna hafa árekstralítið og án verulegra blóðsúthellinga hoppað inn í ráðstjórnarskipulag verkamanna og bænda. I:g skil ekki almennilega, hvernig bolsévikar ættu að sjá nokkurt hneyksli í því, að 15 milljónir manna eru þegjandi og hljóðalaust innlimaðar undir bolsévismann.“ Þannig fórust honum orð. Og þegar Rússar heimtuðu herstöðvar í Finnlandi, þótti kommúnistum það sjálfsagt, að þær yrðu látnar af hendi og jafnsjálfsagt, at`i Rússar tækju þær með hervaldi. Þegar Eystrasaltslöndin voru innlimuð í Rússland, var gleði í herbúðum kommúnista. Þegar Rússar heimtuðu herstöðvar af Tyrkjum, var tekið undir í fylkingum kommúnista. Og þannig mætti endalaust telja. Og íslenzkir kommúnistar fara áreiðanlega nærri um það, að Rússar muni þess ekki hvetjandi, að gerður verði á milli Íslands og Bandaríkjanna samningur sá, er hér liggur fyrir. Og þar með er afstaða kommúnistanna skýrð. Og svo mikils þykir þeim nú við þurfa til að framfylgja utanríkismálastefnu Rússa, að þeir gefa þær yfirlýsingar í blaði sínu og á Alþ., sem ekki verða skildar á annan veg en að þeir muni tafarlaust hverfa úr ríkisstj. þegar samningurinn er samþykktur.

Um andstöðu þeirra manna, sem ekki eru kommúnistar eða kjósendur þeirra, vildi ég segja það eitt, að sú afstaða virðist mér byggjast á einangrunarstefnu, andúð eða tortryggni í garð Bandaríkjanna, misskilningi á hinum nýju viðhorfum, sem skapazt hafa í stríðinu og upp úr því, hvað Ísland snertir, varðandi alþjóðaviðskipti, og þá einnig að nokkru leyti á vanmati á íslenzku þjóðinni til þess að vernda og halda í heiðri sjálfstæði sínu og þjóðerni og auk þess á gamalli einangrunarrómantík. Eitt orkar á þennan og annað á hinn, og margt af þessu sameiginlega á suma. En ekki dettur mér í hug að bera þessa menn þeim brigzlum, sem þeir sumir hverjir láta sér sæma að bera á okkur. Sumir andstæðingar samningsins hafa borið það mjög í munni séu, að hann væri hættulegur sjálfstæði þjóðarinnar og skerðing á sjálfsvirðingu hennar. Slíkt er, eins og ég hef áður bent á, annaðhvort byggt á blekkingum eða hrapallegum misskilningi og vanmati. En það er annað, sem hættulegt er sjálfstæði Íslands og virðingu þjóðarinnar út á víð, og það eru umr. þær, orðbragð og brigzlyrði, er átt hafa sér stað í blöðum og á mannfundum út af þessu máli. Látum vera, þó að þessu fólki þóknist að kalla okkur, íslenzku alþm., er fylgjum samningnum, júdasa, kvislinga, landráðamenn, föðurlandssvikara og þjóðníðinga. Þetta orðbragð er mjög algengt og munntamt andstæðingunum. Það hrín á þeim, en ekki öðrum. En miklu verra er hitt og hættulegra fyrir álit landsins og jafnvel sjálfstæði þess að nota verstu götustrákaorð og illmæli um Bandaríkin og Bretland og höfuðforustumenn þessara ágætu lýðræðisþjóða. Táknrænt fyrir þennan munnsöfnuð eru orð eins af rithöfundum Þjóðviljans, er hann vill láta svara þeim manni, er nú ber einna hæst í utanríkismálum meðal jafnaðarmanna og lýðræðisþjóðanna yfirleitt, utanrrh. Breta, Mr. Bevin, með því að segja honum að „éta það, sem úti frýs“. Slíkur vanþroski, dólgsháttur og dónaskapur í umræðum um utanríksmál er beinlínis þjóðhættulegur.

Ég hef þá gert grein fyrir afstöðu minni og þeim rökum, sem liggja til grundvallar fyrir samþykkt miðstjórnar og þingflokks Alþfl. um, að rétt sé, eðlilegt og til beinna hagsmuna fyrir Ísland að samþykkja samningsfrv. Ég er öruggur í þeirri skoðun, að samningur þessi verði til giftu og gæfu fyrir þjóðina, og kvíði þar engum dómi, hvorki samtíðar né framtíðar.