22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

Rannsókn kjörbréfa

Páll Zóphóníasson:

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að fyllsta sanngirni krefst þess, að tekin sé ákvörðun um vafaseðla eins og í Norður Múlasýslu, þegar ekki veltur á neinu, hvort kosningin er gild eða ekki. Í þessu tilfelli eru það 20 seðlar í sýslunni, sem liggja fyrir sem vafaseðlar. Það hefur komið fyrir áður sams konar í þeirri sýslu, og hér í Reykjavík og víðar eru slíkir seðlar teknir gildir orðalaust. Til þess að skapa ákveðnar reglur um þetta, þá tel ég, að þessi kjördeild hefði átt að athuga þessa 20 vafaseðla og úrskurða, hvort þeir væru gildir eða ekki. Kjördeildirnar hafa leitt hjá sér að taka ákvörðun um þetta, sem ég tel alrangt. Ég tel, að einmitt nú eigi Alþ. að úrskurða, hvort það telur gilda þessa seðla, sem hér um ræðir, eða ekki., og óska ég ákveðið eftir, að það verði gert vegna framtíðarinnar.