22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það var ekki nema rétt við því að búast, að hv. þm. Barð. gæti ekki setið á strák sínum með það að bera n. það á brýn, að hún vilji sýna tónlistarstarfseminni í landinu ókurteisi með því að taka ekki till. hans eða boðaða till. hans við 1. umr. til greina. um það, að hann vildi, að ætluð væru 5% af skemmtanaskattinum til tónlistarstarfsemi.

Nú gat ég þess að vísu ekki, hvaða orð hefðu fallið um það í n., enda er ekki vani í framsöguræðu að rekja öll orðaskipti nm. um eitthvert mál.

En hæstv. menntmrh. hefur nú gert grein fyrir því, að hann mæltist til þess mjög eindregið á nefndarfundi, að n. bætti ekki inn neinum nýjum liðum, vegna þess, hversu margar till. hefðu komið um það að verja skemmtanaskattinum á annan veg en lagt er til í frv., og að frv. héldist í því horfi, sem það var. Það hefði með miklum erfiðismunum verið hægt að fá þetta samkomulag og koma því í það horf, sem það nú er.

Ég hef tekið eftir því, að hv. þm. Barð. hefur fallizt á þessi rök í mörgum málum. En nú hikar hann ekki við það að koma með brtt., sem gæti orðið þessu máli að falli, ef deilur yrðu um það í hv. d. Það er alveg sýnilegt, að fyrir honum getur ekki vakað annað en að bregða fæti fyrir þetta mál með hræsnisfullu yfirskini. (Forseti hringir). Annars var hér frv. lengi að veikjast í þinginu í vetur um það að taka upp það fyrirkomulag á rekstri kvikmyndahúsa, sem jafnframt sæi tónlistinni og hljómlistinni í landinu fyrir ríflegri fjárupphæð en hv. þm. Barð. leggur nú til, að sú list fái. En þessum hv. þm. var sönn ánægja að því að ganga af því dauðu — þannig var hans áhugi þá fyrir því að sjá tónlistinni í landinu fyrir fé.

Ég tel, að það sé alveg sjálfsagt, að allir hv. þdm., sem vilja, að þetta frv. nái fram að ganga, gangi af brtt. hv. þm. Barð. dauðri og það þegar í stað, enda er hún á kostnað félagsheimilanna, sem sannarlega veitir ekki af því, sem þeim er ætlað af skemmtanaskattinum. Og mér hefur heyrzt, að hv. þm. Barð. vildi fá kannske nokkuð ríflegan skerf af þeim lið til samkomuhússins á Bíldudal, sem er nokkurn veginn búið að byggja og var byggt af Sjálfstfl. og ætti því ekki að falla undir þessi l. samkvæmt ákvæðum. sem eru í frv. um félagsheimili.

En fyrst og fremst vill hv. þm. Barð. fá þessa breytingu á frv. í þeirri von, að hægt sé að ganga af því dauðu.