11.04.1947
Neðri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég vildi fara nokkrum orðum um ræður þeirra tveggja hv. þm., sem tekið hafa hér til máls, síðan ég flutti framsöguræðu mína, þ. e. hv. þm. A-Húnv. (JPálm) og hv. þm. Snæf. (GTh).

Hv. þm. A-Húnv. byrjaði á því að minnast ofurlítið á n. þá, er fyrrv. ríkisstj. skipaði til endurskoðunar á núgildandi búnaðarráðsl., og gat þess, að n. hefði ekki skilað áliti, en hins vegar er ég ekki sammála honum um það, að það hafi legið fyrir á neinn ákveðinn hátt, að n. hafi klofnað. Gangur þessa máls var þannig, að n. var kölluð saman til fyrsta fundar nokkru fyrir jól, en eftir það var hún ekki kölluð saman til fundar, fyrr en núverandi ríkisstj. var mynduð. Þá var það, sem hv. þm. A-Húnv. boðaði til fundar í n. Það, sem hafði gerzt í millitíðinni, sem enginn fundur var haldinn, var það, að þingflokkarnir, sem standa að núverandi ríkisstj., höfðu tekizt á hendur að leysa það mál, sem n. hafði verið fengið til athugunar, þannig að í stjórnarsamningnum var gengið frá ákveðnu fyrirkomulagi í þessum efnum, sem nú liggur hér fyrir í frv.-formi. Þegar svo var komið, taldi ég ekki að hin fyrrnefnda n. hefði neitt verkefni með höndum annað en það að semja frv. á grundvelli þess, sem þá þegar hafði verið ákveðið af þeim flokkum, sem nú standa að ríkisstj., ef hún vildi taka það að sér, og afgreiða það þannig í aðalatriðum. Þetta féllust hv. nm. ekki á, þ. á m. form. n., hv. þm. A-Húnv., og hafa allir nm. lýst því yfir, að þeir álitu, að verkefni þessarar n. væri úr sögunni, og að því loknu leysti ég sem landbrh. n. upp. Það lá ekki fyrir neitt álit frá einstökum meðlimum n., sem hægt er að vitna í, en það kom greinilega í ljós, að þar var ágreiningur um niðurstöðu málsins. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er því ekki neitt nál. frá meiri hl. n, heldur er það ný hlið á málinu, sem tekin var upp og rædd var til lykta við samninga um stjórnarmyndun, og hefur verið samið að tilhlutan núverandi ríkisstj. á þeim línum, sem þá voru lagðar.

Hv. þm. A-Húnv. fór ýmsum orðum um þetta frv. og þótti það að ýmsu leyti stig aftur á bak. Að vísu hafði hann ekki sérstaklega mikið við I. kafla þess að athuga, þar sem ákveðið er, að stéttarsamband bænda taki við þessum málum, en lét samt í ljós það álit sitt, að hann teldi, að núverandi skipan væri í alla staði heppileg. Ég get vel skilið, að hv. þm. hafi litið svo á, að á meðan sá maður væri í sæti landbrh., sem setti þessi 1. — og sem ég veit, að hann treysti á allan hátt til þess að fara með þessi mál, að hann vildi heldur hafa þessi mál í þeim farvegi. sem þau eru, meðan þau voru í höndum hans, en hann veit, að þetta sæti landbrh. er býsna ótryggt, og ég held, að hann hafi breytt um skoðun um ágæti þessa fyrirkomulags, síðan jafnvondur maður kom í þetta sæti eins og nú er þar, þótt mér gæti jafnvel dottið í hug, að í það gæti komið enn verri maður til þess að fara með þessi mál. Ég held, að þetta fyrirkomulag byggist of mikið á trausti manna á landbrh., hvernig hann fer með þessi mál, til þess að unnt sé að hlíta því til frambúðar fyrir bændur landsins. Við hljótum að vera sammála um það, að það sé í sjálfu sér eðlilegra og réttast að bændur fari með þessi mál, þegar þeir hafa skapað sér til þess félagsleg skilyrði, eins og ég verð að telja, að íslenzkir bændur hafi nú þegar gert. Ég held því, að við verðum að viðurkenna, að til frambúðar sé öruggast, að þeir menn, sem mest eiga undir framkvæmd þessara mála, þeir fari sem mest sjálfir með framkvæmd þeirra og geta þeir þá ekki öðrum um kennt en sjálfum þeim, ef illa fer, og að réttmætast sé, að bændastéttin hafi eins og aðrar stéttir sem mest yfirráð yfir sínum hagsmunamálum. — Hitt atriðið, sem hv. þm. hafði mest við að athuga, kemur fram í II. kafla frv., og taldi hann, að með honum væri tekið skref aftur á bak frá því, sem verið hefur. Hann óttaðist það fyrst og fremst, að útilokað væri, að samkomulag gæti orðið milli þeirrar 6 manna n., sem á að leita að hinu rétta verði landbúnaðarafurða, og skil ég ekki, á hverju þessi vantrú byggist. Þegar 6 manna n. var skipuð hér á árunum, voru margir, sem töldu útilokað, að hún mundi geta komið sér saman, en niðurstaðan af starfi hennar varð þó sú, að hún varð sammála í öllum aðalatriðum, og þó að hér sé gert ráð fyrir því, að yfirdómur falli um þessi mál, ef n. yrði ekki sammála, þá tel ég engu minni ástæðu fyrir nm. að leggja sig í líma til að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Ef n. kemst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, þá kemur til kasta yfirn., og það er sú n., sem er þyrnir í augum hv. þm., og telur hann, að með þessu sé stigið spor aftur á bak frá því, sem nú er, og horfið til þess gamla fyrirkomulags. þegar hin stjórnskipaða n. fór með afurðasölumálin. Sagði hann, að með þessu væri verið að taka valdið úr höndum bænda og leggja það í hendur eins embættismanns, og átti hann þar við oddamann n. Tel ég, að fullyrðingar hans byggist á mjög skökkum forsendum. Eins og gamla afurðasölun. var skipuð, hafði hún fullkomið vald til þess að ráða þessum málum til lykta, var þar hinn æðsti dómur, og má segja, að þar hafi hinn stjórnskipaði oddamaður verið yfirdómarinn. Hér gegnir hins vegar öðru máli, því að í þessu frv. er lagður grundvöllur að því, hvernig n. eigi að vinna. Henni er fyrirskipað að haga afurðaverði bænda þannig, að þeir beri úr býtum fyrir afurðir sínar sem næst því, sem aðrar vinnandi stéttir þjóðarinnar beri úr býtum fyrir vinnu sína á hverjum tíma. Hér er ekki um venjulega samninga að ræða eins og á milli vinnuveitenda og launþega, þegar þeir semja um kaup og kjör, heldur er því hér slegið föstu, að bændum beri það verð fyrir sína vöru, sem aðrar stéttir þjóðfélagsins hafa fyrir vinnu sína, og þeirri n., sem á að fara með framkvæmd þessara mála, eru hér gefnar forsendur fyrir nokkuð þungu reikningsdæmi, sem hún á að leysa. Bændum er hér ekki gefinn réttur til að standa í fararbroddi í hagsmunabaráttu stéttanna á Íslandi. Þeim er afsalaður sá réttur með þessari löggjöf, en þeim á um leið að vera tryggt, að þeir beri hið sama úr býtum sem aðrar stéttir á hverjum tíma, og ef aðrar stéttir bæta sín kjör, koma bændur á eftir samkv. þessum l., ef frv. verður að 1., og ef kjör annarra stétta verða rýrð, verða bændur einnig að sætta sig við slíkt.

En þeim er tryggður sami réttur og öðrum stéttum, og er það réttlátt og sjálfsagt og nauðsynlegt, að slíkt haldi áfram. Þá er heldur ekki óeðlilegt, að ef þeim mönnum, sem ráðstafa eiga þessum málum, tekst ekki að ná samkomulagi, þá sé þeim mönnum, sem mesta sérþekkingu hafa á þessum málum, falið að skera úr ágreiningsatriðunum, og reynt sé að tryggja, að fram komi sem bezt þekking á kjörum atvinnustéttanna í bæjunum og einnig bændanna. Meðal þessara manna eru tveir færustu sérfræðingar landsins í þessum efnum. hagstofustjórinn og forstjóri búreikningaskrifstofu ríkisins. Þessir menn athuga þau kjör, sem um er að ræða, og reikna svo afurðaverðið í samræmi við það. Beri svo á milli, að finna verði leið til að láta endana ná saman, þá er rétt og eðlilegt, að það verk sé unnið af sérfræðingum. Og í stað þess að segja eins og hv. þm., að það sé verið að taka valdið af bændum, þá er verið að taka það af stjórnskipaðri nefnd og ákveða í löggjöf, hver það skuli vera, og það í samræmi við óskir yfirgnæfandi meiri hluta bænda. Síðan 6 manna nefndar álitið gamla kom, hefur það verið einróma krafa íslenzkra bænda, að verð afurðanna verði svo ákveðið. Ekki svo að skilja, að bændunum hafi verið sýnd nein ofrausn, en þeir sættu sig við það, því að þarna var lausn á deilumáli, sem allir voru orðnir leiðir á og enginn grundvöllur fannst fyrir. Það mun því óhætt að segja, að á bak við þessa ráðstöfun standi mikill meiri hluti íslenzkra bænda. Þeir hafa að vísu farið fram á það allt síðan 6 manna nefndar verðið var útreiknað, að fá verðlagsmálin í sínar hendur, en einungis til þess að framfylgja 6 manna nefndar verðinu. Það kemur því í sama stað niður. hvort farið er svo að, sem hér er gert ráð fyrir, eða bændurnir fengju þessi mál sjálfir. Það mun verða farið eftir þeim grundvelli, sem réttlátastur er og sjálfsagður. Ég skal svo ekki fara mikið lengra út í þetta atriði.

Hv. þm. taldi óheppilegt, að Sjómannafélag Reykjavíkur ætti mann í þessari n. Ég skal viðurkenna, að það skýtur nokkuð skökku við, þar sem fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Landssambandi iðnaðarmanna eru frá samtökum launastéttanna. En ríkisstj. þótti rétt, að í þessari n. kæmu fram hrein sjómannasjónarmið, og þar sem ekki eru til nein samtök sjómanna, sem ná um allt land, þá þótti rétt, að Sjómannafélag Reykjavíkur tilnefndi þennan fulltrúa sem stærsta sjómannafélagið.

Ég skal þá snúa mér að ræðu hv. þm. Snæf. Hv. þm. ræddi aðallega um það, hve mikið sleifarlag væri á mjólkurmálunum hér í Reykjavík, og taldi, að sama ófremdarástandið ríkti hér enn og hefði verið frá upphafi, er óánægjan reis hæst út af þessum málum. Þessar raddir hafa stöðugt heyrzt, og hefur manni stundum virzt, að meir væri það vani en bein ástæða væri til. Ég veit það mæta vel, að margt er öðruvísi í þessum málum en vera ætti, og mun hv. alþm. vera kunnugt um það, hvílíkir erfiðleikar hafa verið á því undanfarið að koma upp nýjum vélum og byggingum, sem þurft hefði í samræmi við hinn geipilega vöxt mjólkurneyzlunnar í bænum, en þeir erfiðleikar eru aðalorsök þessa ástands. Mjólkurmagnið er nú orðið tvö- til þrefalt við það, sem var, og því miklir erfiðleikar á afgreiðslu þess í sama húsrúmi sem áður var ekki of mikið. Á stríðstímanum og eftir styrjöldina var það miklum erfiðleikum bundið að fá þær vélar, sem til þurfti, og koma þeim í gott horf, og verð ég þó að álíta, að flest hafi verið gert til að flýta fyrir framkvæmdum. Ég fékk sem landbrh. senda ályktun bæjarstjórnar Reykjavíkur varðandi þessi mál. Ég setti mig þá í samband við mjólkursamsöluna til að fá vitneskju um það. hvað liði þeim framkvæmdum, sem fyrir dyrum stæðu. Ég hef nú fengið bráðabirgðaskýrslu frá mjólkursamsölunni og vil ég nú drepa á nokkur atriði, sem eru færð fram til — ég vil segja — mjög réttmætrar afsökunar.

Í fyrsta lagi segja þeir, að skýrsla Sigurðar Péturssonar gerlafræðings, sem á að sýna ástandið í mjólkurmálunum og bæjarstjórnin vísar til, sé ekki alls kostar óhlutdræg. M. a. geta þeir þess, að flestar athuganirnar á gæðum mjólkurinnar hafi verið gerðar yfir heitustu mánuðina og þá sé meiri gerlagróður í mjólkinni en ella og svo sé mjólkin dæmd eftir því fyrir allt árið. Af 44 dögum, sem þessi athugun var gerð, voru 29 á heitustu mánuðunum. en 15 yfir vetrarmánuðina. 149 sýnishorn voru tekin yfir sumarmánuðina, þegar hitinn var mestur, en 68 yfir vetrarmánuðina og gefur þetta ekki rétta heildarmynd af gæðum mjólkurinnar allt árið. Svo hafa sýnishornin verið tekin úr brúsunum án þess að kæla þau. Þau voru látin í lítil glös, sem hafa hitnað mikið á leiðinni, svo að gerlagróður hefur getað aukizt mikið, frá því að prufan var tekin, til þess að hún var rannsökuð, þegar ekki var sami hiti í glösunum og brúsunum.

Þá kemur löng lýsing á því, hvernig það hefur gengið að ná í þá varahluta og þær vélar til endurbóta á meðferð mjólkurinnar, sem staðið hefur til. Þetta er of langt til að lesa það allt, en kafla úr henni ætla ég að lesa, með leyfi hæstv. forseta. þar segir svo:

„Í júlí 1946 komu fyrstu vélarnar í mjólkurstöðina og M. B. F. til landsins. Síðan hafa þær komið smátt og smátt þangað til í febrúar s. l., að flutningur þeirra stöðvaðist vegna ísa og snjóa í Danmörku. Flestar vélarnar eru komnar hingað. Nokkrar eru tilbúnar í Danmörku og koma væntanlega með næstu ferðum. Verst hefur gengið að fá flöskuþvotta- og áfyllingarvélar. Pantaðar voru tvær samstæður af vélum þessum, sem hver afkastaði 5–6 þús. flöskum á klst. Þegar sýnt var, að afgreiðsla þessara véla mundi dragast lengur en upphaflega var gert ráð fyrir, var tilboða í þær einnig leitað í Englandi í von um, að þær fengjust fljótar þar. En árangur varð enginn af þeim umleitunum. Nýlega hefur verksmiðjan þó lofað að afgreiða aðra samstæðuna í maí n. k., og er þess vænzt, að það loforð verði ekki svikið. Hún er nógu afkastamikil til þess, að stöðin getur fyrst um sinn starfað með henni einni.

Á s. l. sumri voru verksmiðjurnar heimsóttar fjórum sinnum, fylgzt með framleiðslunni og rekið eftir. Hefur allt verið gert, sem hægt er, til að hafa áhrif á það, að vélarnar yrðu afgreiddar sem fyrst.

Skömmu eftir áramótin komu hingað þrír menn frá verksmiðjunum — einn verkfræðingur og tveir vélsmiðir — til að setja vélarnar niður. Byrjað var á því að setja nýja gerilsneyðingarvél í gömlu stöðina, ásamt tveimur vélum er hreinsa mjólkina, áður en hún er gerilsneydd. Hafa slíkar vélar ekki verið notaðar hér áður. Þessu verki er lokið fyrir nokkru. Er þá aðstaðan í gömlu stöðinni stórum bætt, enda þótt mikið skorti á, meðan ekki er hægt að selja mjólkina á flöskum.

Síðan hafa vélar verið settar niður í M. B. F. og eru þær meðal annars miðaðar við það, að hægt sé að fara sem bezt með neyzlumjólkina. Verður öll mjólk kæld þar vel, strax og hún kemur, og afköst mjólkurbúsins aukin svo, að ekki þurfi að haga flutningum mjólkurinnar eftir þeim, en hægt sé að sækja mjólkina, þegar hentar, með tilliti til þess að fá hana sem bezta. Umbótinni á M. B. F. verður að mestu lokið í vor. Tankbílar hafa verið pantaðir til flutninga frá mjólkurbúum til Reykjavíkur. Eru þeir einangraðir svo, að mjólkin hvorki frýs né hitnar í þeim á leiðinni.

Í næstu viku verður byrjað á að setja niður vélar í nýju stöðina. Hvenær því verður lokið, er erfitt að segja með vissu, en vonir standa til, að stöðin verði fullgerð fyrir næstu áramót. En eins og sakir standa, er ekki hægt að nota stöðina, þótt hún hefði verið fullgerð, sökum skorts á rafmagni. Nýja stöðin krefst mjög mikils vatns til gufuframleiðslu til að þvo úr mjólkurbrúsa og flöskur og til annars hreinlætis auk vatns á kælivélar. Til þrifnaðar og sparnaðar var horfið að því að framleiða gufuna með rafmagni. Nægilegt rafmagn fæst ekki, fyrr en nýja rafstöðin við Elliðaárnar tekur til starfa.

Endurbætur á M. S. B. munu verða framkvæmdar í haust eða á næsta vetri.

Mjólkurbúin prófa vikulega þá mjólk, sem þau taka á móti, nema þegar frost hindra að það sé hægt. Þriðja flokks mjólkin hefur verið verðfelld um 15 aura hvert kg., en fjórða flokks mjólkin 20 aura kg. Verðfelld er öll mjólk, sem framleiðandinn sendir eftir vikuna. Mjólk, sem sést eða finnst á, að skemmd er orðin, þegar hún kemur til mjólkurbúsins, er endursend. Stundum verður einnig um lengri eða skemmri tíma að hætta að taka á móti mjólk frá framleiðendum, sem hvað eftir annað senda vonda mjólk.“

Ég læt þessa grg. nægja, hún sannar ekkert um það, að ekki sé hinu og öðru ábótavant í meðferð mjólkurinnar, en sýnir að það er fullkominn vilji að bæta úr þessu af hendi þeirra aðila, sem um þetta fjalla, og að framkvæmdum er hraðað svo sem unnt er, og mun sumum þeirra verða það langt komið á þessu sumri, að vænta má mikilla breytinga til bóta í meðferð og gæðum mjólkurinnar, og ég tel, að treysta megi því, sem hér stendur, að allt verði gert sem unnt er, til að hraða þessum málum svo sem nauðsynlegt er.