19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Jónas Jónsson:

Ég vil víkja fáum orðum í spurnarformi að þeim manni, sem ber þetta mál fram, sem er hæstv. landbrh. Mín orð snúast fyrst og fremst um það, hvers vegna hann hefur, og þeir, sem með honum starfa. gert samkomulag vegna bænda, án þess að sjáanlegt væri, hvaða umboð hann hefði til þess, samkomulag við þá menn, sem verzla við þá með þeirra afurðir, og gert það á þann hátt, að það er ákaflega ólíkt því, sem gerist alls staðar annars staðar í landinu. Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. hafi ekki viljað gera rangt í þessu efni. En þó er eðlilegt, að hann fái tækifæri til að útskýra þetta, og það kemur líka inn á eldri yfirsjónir, sem sumir hans nánustu samstarfsmenn eru við riðnir.

Það, sem hér liggur fyrir, er það, að á síðasta mannsaldri hafa launastéttir landsins — og þær eru orðnar nokkuð margar — komið fyrir samtökum, sem hafa farið það langt, að þær hafa ráðið sjálfar því kaupi, sem þær hafa tekið. Það er kunnugt, að verkamannastéttin hefur þokað sínum málum áfram þannig, að t. d. kolamokarar hafa nú á gufuskipunum um 70 þús. kr. í árstekjur, fyrir utan mat og náttúrlega húsnæði á skipunum. Ýmsar aðrar launastéttir, þar á meðal verkamenn, hafa fengið gífurlegar hækkanir, svo sem öllum er kunnugt. Og það hafa í raun og veru verið þeirra ákvarðanir. Það er ekki hægt að segja, að þeir hafi átt neina andstæðinga, heldur hafi þjóðfélagið veitt það, sem upp var sett. Ef við nefnum félag skipstjórnarmanna og loftskeytamanna, er hið sama að segja, að kaup þessara stétta er gífurlegt. Sumir hafa á 2. hundrað þús. kr., sumir tæp hundrað þúsund kr., og loftskeytamenn hafa fengið 50–60 þús. kr. En það merkilegasta í þessu efni eru launalögin frá í fyrra. Var þar stjórnarsamningur, þar sem ég hygg, að Alþfl. hafi ráðið mestu. Var sagt, að við samningu launalaganna hafi verið sérstakt tillit tekið til þess, hvað launamenn vildu sjálfir hafa, enda er öllum kunnugt, að fyrir utan undirbúning málsins, sem launamenn höfðu svo að segja einir með höndum, beittu þeir hörku og einræði við þá menn, sem stóðu að málinu í þinginu. Ég skal ekki segja, hvort þetta er leið til happa á ókomnum árum. En þetta er ástandið í landinu, að launafólkið í bæjunum hefur yfirleitt að kalla má algerlega ráðið sínum launum og ekki haft neitt mótvægi. En svo kemur bændastéttin, sem er ennþá stærsta stétt landsins. Hennar kaup kemur í þeim afurðum. sem sveitafólkið framleiðir og selur að mjög miklu leyti innanlands. Ef jafnrétti væri hugsað milli bænda og annarra stétta, ættu bændur sjálfir að ráða, hvaða verð er sett á þeirra vöru. Þessu er nú ekki svo háttað. Og niðurstaðan er sú, að eftir nokkrar byrjunartilraunir, sem eru algerlega ómerkilegar, endaði málið á því, að bóndinn ræður engu sjálfur um það hvað hans vörur eru seldar innanlands, og ekki hans kaupfélag, sláturfélag eða mjólkurfélag, heldur ekki S. Í. S. Nei, það eru 3 manna n. í Reykjavík, og í þessari n. er einn maður fyrir bændur, einn fyrir kaupendur í Reykjavík. og þriðji maðurinn er opinber starfsmaður í bænum, sem er venjulegur neytandi, en ekki framleiðandi, hinn sómasamlegasti maður, en hefur að öllu leyti sömu hagsmuna að gæta eins og hinir fulltrúarnir úr bænum. Það er þetta, sem hæstv. ráðh. hefur gengið inn á, að það kemur ekki til greina neitt vald frá bændum. Það er ekki hægt fyrir hæstv. ráðh. að neita því, að hér er allt öðruvísi farið að en með aðrar stéttir. Aðrar stéttir neita að afhenda þetta vald.

Það er kunnugt, að í ársbyrjun 1942 tókst launamönnum allt í kringum landið að gera uppsteyt, af því að það átti að vera gerðardómur um kaup og aðra hluti. Ekki var neitt fyrir fram ákveðið, að verkamenn skyldu tapa á þessu. En upp úr þessu gátu verkamenn komið því við að hækka sitt kaup næstu mánuði á eftir, og atvinnurekendur og ríkisstj. fengu ekki rönd við reist. Ráðh. er ljóst, hvað á bak við var, að þeir höfðu skipuleg samtök. Í byrjun voru mörg vanmáttug félög, en þau höfðu skrásett sig og myndað reglur og samband og höfðu löglega yfirstjórn. Og þetta samband, Alþýðusambandið, hefur eftir vissum reglum umboð til að synja mannfélaginu um vinnu, þegar því þykir við eiga.

Það mun nú hafa verið sumarið eftir, 1943, sem þetta skipulag var notað svo kröftuglega, að við borð lá, að hitaveitupípur frá Ameríku, sem lágu í skipi á höfninni, yrðu að fara aftur til Ameríku, af því að þessir verkamenn, sem ekki vildu þola gerðardóminn, vildu ekki skipa þeim upp. Ég er ekki að hæla þessu atferli. En það er staðreynd, að svona var farið að af verkamönnum. Launamenn hafa lært af verkamönnum sínar aðferðir. Árslaun þeirra kennara, sem höfðu fyrir stríðið liðlega 3 þús. kr., eru eftir nýju launalögunum 25 þús. kr. Þetta er eitt dæmið.

Hæstv. ráðh. má þykja leiðinlegt, að þetta ástand er komið, og að hann hefur stutt að því, að bændur eru réttlausir í þessu efni og eiga undir duttlungum einhverra í Reykjavík, hvað þeir fá í kaup. Á þingi var ekki fyrir löngu. eða 1943, sett löggjöf, sem bæði Morgunblaðið og Tíminn hrósuðu mjög. Bændur þyrftu svo sem ekki að kvíða afleiðingum kreppunnar. Ef bæjarfólkið hækkaði kaupið, hækkaði verðið á afurðum til sveitanna. Þetta 6 manna álit var eins og dómur, sem mátti byggja á. Svo kemur að því haustið 1944, að stofnun, sem hæstv. ráðh. stýrir, kallar saman búnaðarþing. Og eftir því sem eitt stærsta stjórnarblað núverandi stjórnar sagði, var það gert fyrir tilhlutan forráðamanna Sjálfstfl. og Framsfl. og náttúrlega Hermanns Jónassonar og allrar stjórnarinnar. Og þessi samkoma safnaðist saman undir stjórn núverandi landbrh. og samþykkti það að gefa eftir þennan grundvöll, gefa eftir þá miklu hækkun, sem bændur áttu skilyrðislaust kröfu á að fá eftir hækkunina, sem varð 1943. Það er enginn vafi, að fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl., sem þarna voru, samþykktu þessa eftirgjöf í þeirri trú, að þetta mundi á einhvern hátt verða málefni bænda til góðs. Þeir héldu líka, að það mundi koma stjórn, sem yrði vinveitt bændum, en ekkert varð úr stjórnarsamstarfi. Það sýnir, hvað langt var komið, að formenn flokkanna, Hermann Jónasson og Ólafur Thors, skrifuðu hvor sína grein, í Morgunblaðið og Tímann — hér um bil alveg sömu greinina. Þeir töluðu um, hvað það væri dæmalaust fallegt og óeigingjarnt og drengilegt að gefa eftir þessa kauphækkun sína, sem þeir annars ættu rétt á. En eftir að blöðin voru komin til bænda, fóru ómjúkar kveðjur í Tímanum og Morgunbl. milli þeirra, sem unnu saman að þessari eftirgjöf. Flokksforingjarnir deildu harkalega. Niðurstaðan varð sú, að Ólafur Thors myndaði stjórn, svo sem kunnugt er, en Hermann og hans flokkur og bændastéttin varð út undan. Þegar kom til Alþ. kasta, var því slegið föstu, að fulltrúar bænda séu búnir að gefa þetta eftir. Það er enginn vafi, að núverandi landbrh. og hans menn voru mjög blekktir í þessu efni, og raunar sjálfstæðismenn sumir líka. Síðan þá hafa bændur ekkert til að byggja á í þessu efni. Grundvellinum, sem þeir voru búnir að fá, höfðu fulltrúar þeirra kastað frá sér. Og síðan er ekki talað um sex manna nefndina nema í skopi.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh., sem er formaður Búnaðarfélagsins, hvernig á að skilja, að á búnaðarþingi í vetur var farið fram á af einum þm. þar. Bjarna á Laugarvatni, að þar sem hafi verið rofinn samningur við bændur 1944 og þeir ekki fengið það, sem þeir vildu, þá sé þessari kröfu vísað til stéttarsambandsins. Nú eru liðnir margir mánuðir síðan, og ekki hefur orðið vart við neinar kröfur. Í stuttu máli, landbrh. hefur staðið fyrir þessari ráðagerð, að kalla saman búnaðarþing 1944, ber ábyrgð á þeim aðgerðum, sem þar eru formaðar. Og í vetur er hann ekki frá því, að sex manna grundvöllurinn sé ennþá til og vísar í stéttarsamband, sem hann er með í að stofna. En stéttarsambandið lætur ekki til sín heyra. Og nú kemur það upp á teningnum, að það er ekkert stéttarsamband til. Hæstirétturinn er tveir neytendur í Reykjavík á móti einum framleiðanda. Ég veit, að bæjarmönnum hefur þótt vel leikið á sveitamanninn nú eins og 1944.

Nú vil ég útskýra, hvers vegna hæstv. ráðh. hefur tekizt svona herfilega. Hann misskildi herfilega eftir hinn mikla ósigur á búnaðarþingi 1944, þegar hann sá ekki, að það var aðeins ein leið fyrir þá, sem voru blekktir, til að rétta sig við til þess að skapa frjálst stéttarsamband kringum allt land, alveg óháð öllum öðrum félögum, sambærilegt við Alþýðusambandið, með deild í hverri sýslu og sveit. Þetta eitt gat verið nógu sterkt til að vega salt á móti hinum leiknautunum. En af óskiljanlegum ástæðum snerist hæstv. ráðh. á móti málinu ásamt sínum nánu samstarfsmönnum og eyðilögðu það. Það væru engin stéttarsamtök, ef hóað væri saman fáeinum mönnum hér og þar af landinu til að koma saman í Reykjavík. Ef slíkur skipulagslaus hópur verkamanna ætlaði að fara að semja við atvinnurekendur, mundu þeir ekkert vilja með slíka menn hafa, af því að þeir hafa ekki vald á bak við. Hjá Alþýðusambandinu er vald á bak við, sem félagar þess hafa skapað sér sjálfir.

Ég er ekki að áfellast hæstv. ráðh. einan, þó að hann beri sannarlega sinn hluta af ábyrgðinni af þessum mistökum og aðgerðaleysi. Hann hefur ekki skilið, að meðan allar aðrar stéttir halda saman harðvítugum samtökum til að hafa sín mál fram, er ekki hægt fyrir bændur að vera alveg án slíkra samtaka. Veit ég, að það má misnota samtökin, eins og forkólfar Dagsbrúnar eru nú að gera utan við kaupkröfur til þess að reyna að klekkja á núverandi stjórn.

Það hefur oft komið fram í samtölum búnaðarþingsmanna, að bændur hafa aldrei borið sitt barr, síðan þeir voru vélaðir 1944, enda sást það, hvern hug slíkir bændur hafa á því, að a. m. k. tveir nafnkenndir bændur, sem voru á búnaðarþingi, neituðu að styðja stjórn, sem var sköpuð og byggð á þessu hringli.

Nú getur hæstv. ráðh. og öðrum sjálfsagt verið ljóst, að það eru ekki líkur til þess, að þetta skipulag standi til lengdar. Fyrrv. stjórn setti l. um búnaðarráð, sem líka voru nokkuð sniðug. Stjórnin kallaði bændur saman, sjálfstæðismenn og kommúnista, sem áttu að ákveða verðið. Nú sýnist það vera nokkuð undarlegt, að hæstv. núverandi landbrh. skyldi ekki vera feginn að fá þennan grundvöll, að hann skyldi nú ekki berjast úr þessu virki, sem hann var búinn að fá úr höndum andstæðinganna. En hæstv. ráðh. fer úr þessu vígi og býr til það, sem er ekkert vígi, gerðardóm, sem er áreiðanlega verst byggði gerðardómur, sem maður veit til, að hafi verið gerður hér á landi, því að neytendur og framleiðendur eiga þar leik saman og fyrir fram tryggt, að neytendur ráði úrslitum.

Ég vil að síðustu segja það, að þetta fyrirkomulag, búnaðarráð áður og framleiðsluráð nú, er ágætt fyrir þann, sem hefur tekið þátt í þessum skollaleik síðan 1944, að reyna að sleppa frá bændum á sem „billegastan“ máta. Það er ágætt eins og stendur. En hæstv. ráðh. má vera viss um, að ekki verður langt þangað til aðrir tímar koma. Það stendur svo nú, að nú er engin fisksala, ekkert í Rússlandi, ekkert í Ameríku, ekkert í Englandi, og kommúnistar vona að þeir geti hindrað, að það verði nokkur síldarvertíð í sumar, og þá er ekkert fram undan nema ægilegt verðhrun. Og þá á að segja við bændur: Farið þið út úr vísitölunni. Þá er stríðsgróðinn búinn, og bændur dreifðir um allt land, margsviknir af mönnum, sem þeir trúðu og ætluðu kannske ekki að svíkja þá, en hafa komið öllum þeirra málum í vandræði fyrir fávizku og grunnhyggni. Og eitt verður aldrei skafið af þessum mönnum. Þeir máttu vita, að það er ekkert vald til nema stéttarvald, sem getur hjálpað bændum til að halda rétti sinum. En niðurstaðan er sú, að bændur eru eins varnarlausir og mest má vera, eins og sést á því, að búnaðarþing vísar nú til stéttarsambandsins, sem það er búið að drepa. Það var síðasta úrræðið, sem þeir vísuðu á. En eins vil ég óska hæstv. ráðh., og það er það, að þegar þessi dýrtíðarpólitík er horfin og bændur fá að ráða sér sjálfir, þá megi hann ljá því lið, að bændur byggi upp sjálfir sín sterku og frjálsu samtök. Mætti honum auðnast það, þá gæti verið, að honum fyrirgæfist nokkuð af því, sem hann hefur misgert í þessu máli.