20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki mikið lengja þessa umr., en það eru nokkur atriði hjá hæstv. forsrh., er ég vildi drepa á. Hæstv. forsrh. talaði mikið um dýrtíðina og sagði, að það væri fróðlegt að vita, hvaða ráðstafanir ég vildi gera til þess að gera 65 aura ábyrgðina óþarfa. Nú hefur þessi sami hæstv. ráðh. ævinlega sagt, ef dýrtíðarmálin hefur borið á góma, að dýrtíðin mætti vera eins og hún er, af því að framleiðslan gæti borið sig og sættu menn sig ekki við, að niður væri skorið á meðan. En þegar framleiðslan geti ekki lengur borið sig, þá væri tímabært að gera eitthvað. Full ástæða er því nú til að spyrja, hvort ekki sé kominn tími til, að hæstv. forsrh. grípi til þeirra ráða, er hann hefur svo lengi búið yfir. Er nú lengur hægt að hafa óbreytt ástand í dýrtíðarmálunum, þegar ríkið ábyrgist 65 aura verð á fiskinn og ráðh. segir söluhorfur betri en áður? Viðunandi úrræði í dýrtíðarmálunum hafa ekki fengizt rædd, og er þar þó um fleiri en eina leið að ræða, en réttu leiðina mun Framsfl. benda á við 2. umr. þessa máls.

Hv. þm. V-Ísf. og hæstv. forsrh. hafa sagt, að það sé einkennilegt, að sá flokkur, sem mest hafi talað um dýrtíðina og hættuna, sem af henni stafi, sé ekki með 6. gr. Um þetta segi ég aðeins það, að ekki má blanda þessari 6. gr. saman við dýrtíðarráðstafanir. Ef síldarverðið hækkar svo, að hætta er á, að það valdi aukinni verðbólgu, þá má halda til baka einhverjum hluta af því, en þó þannig, að það sé eign þeirra, er aflað hafa og þurfa þess með. Mjög er vandasamt að setja slíka löggjöf, og eftir því sem meira er rætt um 6. gr., kemur í ljós, að þingið getur ekki skipað málum þessum á einni nóttu. Því mun bezt að fella niður 6. gr., en athuga síðan vandlega, hvaða verðbólguhætta er fyrir hendi, ef síldarverðið reynist hátt. Það er ekki um neitt smáræði að ræða, þegar draga á í sjóð milljónatugi frá einni stétt og ákveða, hvernig með þær milljónir skuli farið. Það er ekki hægt á einni nóttu. Ef verðbólguhætta stafaði af auknu síldarverði, væri rétt að taka eitthvað af síldarverðinu í sjóð handa síldarútveginum sjálfum, sem óháður yrði uppbótinni á þorskinn, og gæti verið, að setja þyrfti sérstaka löggjöf um það. Ég hef áður gagnrýnt það ákvæði frv., að ríkisstj. ákveði, hvað gera skuli við afgang tryggingarsjóðs, og taldi alveg ófært, að ráðh. eða ríkisstj. ráðstafaði slíkri upphæð, því að hún verður ekkert smáræði, ef síldarmálið verður á, 50 kr. eða meira. Það er hvorki meira né minna en ca. 100 þús. kr. frá bát, er fiskar 10 þús. mál. Sjóður þessi getur því auðveldlega orðið 25–30 milljónir kr. Enginn veit, hve mikla uppbót þarf að greiða á þorskinn, og geta því orðið eftir í tryggingarsjóði margir milljónatugir, sem ríkisstj. ráðstafaði. Þetta, að setja svona ákvæði inn í frv., sýnir, að þingið er ekki í þeim ham, að það geti skipað svona máli eins og stendur.

Þeir hv. þm. V-Ísf. og hæstv. forsrh. hafa lýst yfir því, að þar, sem standi „ríkisstj.“ í frv., sé alls staðar átt við stj. í heild, en ekki einstakan ráðherra. En ef „ríkisstj.“ stendur í frv., þá þýðir það þann ráðh., sem málið heyrir undir. Reglugerðir eru aldrei bornar upp í ríkisráði, og ræður hver ráðh. í sínum málum. Hann getur að vísu borið málið undir meðráðherra sína, en hann hefur úrslitavaldið og sker úr, ef ágreiningur rís. Jafnvel þótt það væri rétt, að öll ríkisstj. ætti að ákveða um afgang tryggingarsjóðs, þá er það jafnóverjandi að fela það 5 mönnum. Enginn annar aðili en Alþingi á að ráðstafa þessu fé, enda er sú aðferð, sem lögð er til í frv., alveg fordæmalaus.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni.