20.12.1946
Neðri deild: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vil hér víkja að nokkrum orðum. Fyrra atriðið er varðandi ræðu hv. þm. A-Húnv., þar sem hann vildi færa aldurstakmarkið, er embættismenn mættu láta af störfum, upp í 67 ár, í staðinn fyrir að binda það við 65 ár, eins og brtt. okkar fjallar um, og miðar hann þá við það, að samkv. l. nú fái menn almenn réttindi til ellilífeyris er þeir hafa náð 67 ára aldri. Ég hygg, að það sé ekki óeðlilegt, að aldurstakmarkið sé nokkru lægra um það hvenær menn mega fara frá með fullum ellilaunarétti, þegar um er að ræða opinbera embættismenn og starfsmenn, heldur en um menn almennt, því að þessir menn hafa í störfum sínum borið opinbera ábyrgð og á þá leggjast almennt meiri og þyngri störf en menn almennt. Er því ekki nema sanngjarnt að veita embættismönnum heimild til að fara frá störfum, er þeir hafa náð 65 ára aldri, eins og brtt. okkar kveður á um.

Hitt atriðið er varðandi það, sem fram kom í ræðu hv. 5. landsk. (StJSt), að ef ætti að gefa embættismönnum heimild til að hverfa frá störfum, er þeir hafa náð 65 ára aldri, þá væri einnig rétt, að hið opinbera hefði heimild til að víkja frá embættismönnum, sem væru orðnir 65 ára, ef það teldi þá óhæfa sökum lasleika eða annars til þess að gegna störfum. Ég held, að þetta sé ekki sem heppilegast, bæði vegna þess, að þetta er út af fyrir sig matsatriði, og auk þess má segja, að 65 ára aldurinn ætti ekki í þessu tilfelli að vera tímatakmarkið, því að menn geta orðið lasburða og sökum þeirra hluta óhæfir til þess að gegna störfum löngu fyrr en þeir hafa náð þeim aldri, þótt meir í líkur séu að vísu fyrir slíku, eftir því, sem aldurinn er hærri, og er það engan veginn nógu sterk ástæða til þess að binda þetta við 65 ára aldurinn.

Þá vil ég aðeins drepa á þau ummæli hv. 11. landsk. (HermG), að það hefði ekkert komið fram um það frá þm., að menn væru almennt færir um það að gegna störfum eftir 65 ára aldur. Þetta er á misskilningi byggt, því að í grg. frv., kemur einmitt fram, að það hafi komið í ljós í 10 ára reynslu, að flestir embættismenn væru færir um að gegna störfum sínum fram til 70 ára aldurs.

Að lokum vil ég biðja hv. þm. að leiða hug sinn að því, hvort þeir telja það óeðlilegt, að aldurstakmarkið sé tveim árum lægra fyrir opinbera embættismenn en það er fyrir menn almennt, til þess að þeir fái að njóta ellilauna, og hvort þess vegna sé ástæða til þess að færa aldurstakmarkið upp, eins og hv. þm. A-Húnv. vildi gera till. um.