19.12.1946
Efri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra. forseti. — Það var út af ummælum hv. síðasta ræðumanns um löggæzlu og í hvern vanda dómarar kæmust, ef þessi l. væru samþ., að ég vildi segja nokkur orð um þetta atriði, þar sem mér er málið skylt sem löggæzlumanni í því umdæmi, sem flugvöllurinn er í.

Ég hef orðið var við hjá þeim, sem voru á móti samningnum, að það mundi skapa mikinn vanda fyrir íslenzka löggæzlumenn, þegar þessi l. kæmu til framkvæmda, og margir árekstrar mundu verða vegna vafaatriða og ónákvæmni. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir, hver þessi vandi væri, og þótt ég hafi hlustað vandlega, hef ég ekki orðið var við, að sá ótti sé á rökum reistur á nokkurn hátt. Mér virðist nú, að þetta liggi svo ljóst fyrir sem frekast má verða. Það er greinilegt, að grundvöllurinn er sá, að Íslendingar hafa tekið við löggæzlu á flugvellinum á sama hátt og annars staðar á landinu. Þess vegna geta ekki orðið árekstrar á þeim grundvelli. að vafi sé á því, hvort starfssvið Íslendinga sé það sama þar og annars staðar á landinu, og einmitt á þessum grundveili hefur löggæzlan og tollgæzlan verið byggð. Ég heyrði í Nd. og sá í blöðum, að löggæzla okkar og tollgæzla mundi verða ófullkomin og nafnið eitt. Mér er kunnugt um. af því að ég hef tekið þátt í undirbúningi varðandi þetta atriði, að löggæzlan og tollgæzlan verður einmitt „effektivari“ þar en annars staðar. Þarna verður sérstök lögregla og tollgæzlumenn og útlendingaeftirlit. Síðar meir, þegar setuliðið fer, verður lögreglumönnum mjög fjölgað og verður fjölmennari löggæzla, en annars staðar. Þess gerist líka þörf, þar sem búast má við, að þar verði á ferð margir útlendingar. Ég fullyrði, að einmitt frá þessu er mjög vel gengið. Einnig á að koma upp sérstöku útlendingaeftirliti og sérstakar ráðstafanir geróar í sambandi við tollgæzlu. Og sá undirbúningur undir þá hlið málsins er á þá leið. að allar flugvélar, sem setjast á flugvöllinn og fara þaðan, eru háðar íslenzkri löggæzlu, og ef þær verða veðurtepptar, þá verður farið með þær líkt og skip, að farangurinn verður innsiglaður og ekki leystur fyrr en við brottför, og er þannig smygl útilokað. Hvað varðar allan varning, þá skal hann fara í gegnum hendur íslenzkra tollgæzlumanna. Verður nákvæmlega fylgzt með þessu og öflug tollgæzla höfð til að fyrirbyggja smygl. Í sambandi við þá undanþágu þurfa engir árekstrar að koma til greina, og Bandaríkjamenn fá ekki aðrar vörur tollfrjálsar en þær, sem heimilt er samkv. samningnum. Ég sé ekki að betra sé að breyta hverjum einum l., því að í frv. eru alveg skýrar linur og beinar línur fyrir tollgæzluna. Ef mætti láta vörur í ákveðnu augnamiði, yrði að setja nánari reglugerð um það.

Það er rétt, að fram komi, hvaða ráðagerðir eru í sambandi við toll- og réttargæzluna á flugvellinum, þar sem andstæðingar hafa haldið fram, að þetta væri ekki nema nafnið eitt. Ég vil undirstrika, að þetta fer fjarri sanni, og eru gerðar ráðstafanir um strangt eftirlit og fullkomnari gæzlu en annars staðar.