27.11.1946
Neðri deild: 25. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

66. mál, menntun kennara

Páll Þorsteinsson:

Hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) hefur nú gert skýra grein fyrir afstöðu n. í heild. Ég hafði að sumu leyti sérstöðu í n., og hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 140, sem ég vildi nú gera nokkra grein fyrir.

Eins og menn vita, hefur Íþróttakennaraskólinn verið fyrir þá, sem ætluðu að verða kennarar eða hafa á hendi leiðbeiningar um íþróttamál. Þar sem skólinn hefur starfað á Laugarvatni og það með góðum árangri og er kominn þar á fastan grundvöll, legg ég á móti því, að því sé haldið opnu að flytja skólann til annars staðar. Þar sem raddir hafa heyrzt um að flytja skólann til Rvíkur, vil ég taka það fram, að ég get ekki fallizt á það og vil ekki, að óákveðið sé, hvar skólinn starfi. Ég vil enn fremur geta þess í framhaldi af ræðu hv. frsm., að skólanefnd Íþróttaskólans leitaði álits íþróttafulltrúa, og í bréfi frá honum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan hefur sýnt, að skólinn er vel settur á Laugarvatni. Til þess að slík stofnun geti sem bezt sinnt öllum starfsþáttum sínum, er hún bezt staðsett utan bæja. Þessi reynsla er í samræmi við reynslu nágrannaþjóðanna. Danir eru ekki ánægðir með staðsetningu á íþróttakennaraskóla sínum í Kaupmannahöfn. Vilja flytja hann út fyrir, bæinn. Sama er að segja um Norðmenn. Íþróttasamband Svía og fimleikasamband Svía reistu íþróttaskóla sína utan Stokkhólms, því að reynslan hafði sýnt þeim, að íþróttakennaraskóli Svía var illa settur í Stokkhólmi. Sama er að segja um Finna. Svisslendingar eru að ráðgera að reisa íþróttaskóla og eru þeir ákveðnir að reisa hann utan borganna og eru nú að gera upp á milli þriggja staða í sveit. Meðan skólinn er að komast í fast form, gæti slíkt ákvæði (um að flytja megi skólann) í lögum verið skólanum til trafala.“

Þetta segir íþróttafulltrúi fyrir hönd skólanefndar Íþróttakennaraskólans. Mér finnst sjálfsagt að taka þetta til greina, og mun ekki frekar orðlengja þetta, en vænti þess, að hv. d. taki þetta til athugunar.