30.01.1947
Efri deild: 61. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

66. mál, menntun kennara

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Barð. kom með miklar og margar spurningar varðandi þetta frv. og þá sérstaklega um kostnaðarhliðina. Það er að vísu hægt að skýra frv. nánar, en þar sem búið var að lýsa þessu öllu í grg., þá áleit n. óþarft að taka það allt fram aftur.

Helztu breyt. eru þær, að lágmarksaldur þeirra, sem í fyrsta bekk setjast, skuli nú vera 16 ára í stað 17 ára, og inntökuskilyrði skuli nú miðskólapróf í stað gagnfræðaprófs áður og þeir, sem lokið hafi kennaraprófi, þurfi ekki við stúdentspróf að þreyta próf í þeim greinum, sem þeir hafa áður lokið kennaraprófi í. Sama máli gegnir um stúdenta, sem taka vilja kennarapróf, þ. e. a. s. þeir þurfi ekki við kennarapróf að þreyta próf í þeim greinum, sem þeir hafa tekið próf í við stúdentspróf. Þetta eru nú aðalbreytingarnar, að undantekinni 11. gr., en hún hefur þegar áður verið samþ. Hins vegar vissi ég sérstöðu hv. þm. Barð. til þeirrar gr. En eins og nú stendur á, þá er ekkert á móti því, að hún standi hér.

Í sambandi við II. kaflann minntist hann á það, hvort ekki væri rétt að láta Björn Magnússon taka að sér kennslu við þá kennslustofnun, sem II. kafli fjallar um. Ég vil leyfa mér að benda honum á, að Björn Magnússon kennir við sérstaka deild háskólans, og menntmn. þessarar d. getur ekki komið fram með sérstakar till. varðandi starf hans.

Þá vildi hann fá að vita ákveðið, hvað 3. kaflinn kostaði ríkissjóð. Um það er alls ekki hægt að segja að svo stöddu. Það þarf að byggja þá kostnaðaráætlun á ýmsum þeim gögnum, sem enn ekki liggja fyrir. Ég hygg og, að fjárútlát ríkissjóðs til þessa verði hverfandi lítil til þess að gera. Mikið af því, sem nefnt er í frv., er áður til og fellt hér inn í, og þannig eru margar breyt., að þær mundu í framkvæmd ekki kosta mjög mikil fjárframlög.

Þá talaði hann um það, að ég gerði litla grein fyrir þeim breytingum á íþróttaskólanum, sem um getur. Eftir frv. eru aðalbreyt. þær, að meiri kröfur eru gerðar til þeirra, sem ætla sér að verða íþróttakennarar, sem sagt, að þeir verða að hafa lokið kennaraprófi, en það ákvæði var áður ekki til í lögum. Í sambandi við íþróttaskólann taldi hann ekki ástæðu til þess að hafa skólanefnd við hann, frekar en við húsmæðrakennaraskólann. En nú er það svo, að það er alls ekkert nýmæli, að við íþróttaskólann sé skólanefnd, því að við hann hefur verið skólanefnd allt frá stofnun. Hitt skal ég játa, að menn greinir á um, hvort skólanefndir eigi yfirleitt að vera við ríkisskóla, en n. fannst ekki rétt að fella þetta skólanefndarákvæði niður hvað snertir íþróttaskólann, þó að það sé sumra álit, að íþróttafulltrúi eigi að hafa með það að gera, hvernig þessi stofnun er starfrækt.

Þá minntist hv. þm. Barð. einnig á 5. kaflann, sem fjallar um handíðakennaraskólann, og spurði hann, hvað gert væri ráð fyrir, að sú stofnun kosti. Ég get tekið fram, að það hafa alls ekki legið fyrir neinar áætlanir um það efni, og þess vegna liggja þær ekki heldur fyrir hér í þessari hv. þd. Ég vildi benda á, að hliðstæð dæmi er að finna um aðra skóla, þar sem farið er að leggja fé til byggingaframkvæmda við búnaðarskóla og menntaskóla, þótt ekki sé enn vitað, hvað þær muni kosta. — Hann minntist einnig á búrekstur í sambandi við húsmæðrakennaraskólann. Ég sný ekki til baka með það, að í sambandi við hann þyrfti að vera smávegis búrekstur, til þess að starfsemi hans geti verið í fullu lagi.

Þá minntist hann og á 50. gr., og vildi hann láta fella hana niður úr frv. Svipuð ákvæði og um getur í henni voru samþ., hér í fyrra, og þess vegna fannst n. ekki frekar ástæða til að fella hana héðan úr þessu frv.