20.12.1946
Efri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Ég fellst á það, sem stendur í aths. við þetta frv., að það hefði verið eðlilegast að breyta hverjum einstökum l., sem samningurinn snertir, en hins vegar játa ég, að það væri óviðkunnanleg skreyting á íslenzkum l., ef það þyrfti að setja þá klásúlu við fjöldamörg íslenzk l., að ákvæði þeirra væru ekki látin gilda vegna þessa samnings. Í haust var svo látið heita, að þessar undanþágur og sérréttindi væru mjög smávægileg, en nú kemur í ljós, að þau eru mjög umfangsmikil. Ég fellst ekki á, að það beri að láta undir höfuð leggjast að breyta öllum l., en þar sem það þætti óviðkunnanleg skreyting að hafa slíka klásúlu á fjölda l., þá tel ég, að það eitt geti réttlætt þetta. Ég mun því, úr því að ekki hafa komið till. um ákveðnar breyt. á hverjum einstökum l. fyrir sig, sem ég hefði talið bezt viðeigandi, sitja hjá við atkvgr.