05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af því, sem hv. frsm. n. kom að síðast, kostnaðarhliðinni við framkvæmd þessara l. Það stendur hér, eins og hann benti á, í 3. gr. frv., að heimilt sé að greiða kostnað við rekstur ferðaskrifstofunnar af sérleyfisgjaldi bifreiða, og mér skildist á því, hvernig orð féllu hjá hv. frsm., að það væri gert ráð fyrir því, að það mundi láta nærri, að þetta sérleyfisgjald, 7% af fargjöldum með sérleyfisbifreiðum, mundi mæta útgjöldum við rekstur ferðaskrifstofunnar. Mér skilst á þessu, að n. hafi ekki athugað það, sem kannske er ekki von, að hér í d. er á ferðinni annað frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að miklum hluta af þessum sérleyfisgjöldum verði varið til annars en til rekstrar ferðaskrifstofunnar, þ. e. frv. um afgreiðslustöðvar fyrir sérleyfisbifreiðar, þar sem gert er ráð fyrir, að komið verði upp hér í Reykjavík — og á fleiri stöðum — sérstakri afgreiðslustöð fyrir allar sérleyfisbifreiðar, sem hingað koma og héðan fara, og 4/5 af sérleyfisgjaldinu varið til þess að reisa slíkar afgreiðslustöðvar fyrir sérleyfisbifreiðar. Það má segja, að þetta frv. er ekki orðið að l., og lítur út fyrir, að afgreiðsla þess verði á eftir afgreiðslu þessa frv. hér, svo að það kæmi fyrst til athugunar, þegar að þeirri afgreiðslu kæmi, að ákveða þá tekjur til þeirrar starfsemi, ef nú á að ráðstafa sérleyfisgjöldunum til þessarar starfsemi, sem nú er verið að r æða hér um. Það væri ef til vill rétt, að n. tæki þetta atriði til yfirvegunar og fengi upplýsingar um það, hversu mikil upphæð gera má ráð fyrir, að þessi sérleyfisgjöld verði, og hvort möguleikar séu á því, að þessar tekjur nægi bæði til rekstrar ferðaskrifstofunnar og til þess að reisa afgreiðslustöðvar fyrir sérleyfisbifreiðar. Mér er nær að halda, að svo muni ekki vera, og kemur þá til að meta það, hvort eigi að gera, að taka féð til ferðaskrifstofunnar, eins og ráðgert er í þessu frv., eða geyma það til þess að koma upp afgreiðslustöðvum fyrir áætlunarbifreiðar.